Einu sinni gleymdi ég jólunum og taldi eyrnalokka.

Sem betur fer lendir þrettándinn í ár á virkum degi. Þá er engin tími til að taka niður jólaskrautið, þá verður maður að bíða þar til helgina eftir, eða helgina þar á eftir því ég er á næturvöktum um næstu helgi og til lítilla stórræða í því ástandi. Það gerir mér lítið að draga þetta svolítið, sérstaklega seríurnar og jólatréð. Þetta eru svo afslappandi ljós -endalaus afslöppun alveg frá því að þetta var sett upp! Svo mikil að ég gleymdi að undirbúa jólin og eyddi heilum degi í að sortera og telja eyrnalokkana í kjallaranum (þá eru ekki meðtaldir lokkar dætranna á efri hæðinni). Þegar Fúsi kom heim úr vinnunni þann daginn, sagðist ég vera hálf þreytt, að ég yrði bara að setjast niður og fá mér kaffi… ÞREYTT??? kváði hann, þreytt eftir að hafa talið eyrnalokka allan daginn???

Úff já, þetta tók á! Þrír skókassar af skipulögðum eyrnalokkum. IMG_9583Ég er vonlaus föndrari og frekar mikill draslari þannig að þetta var mikið afrek (erum við að ræða Fálkaorðuna núna?). Þarna úði og grúgði af allskonar platperlum, fuglum, melónum, blómum og regnhlífum. Auk geimsteina, fjaðra, vopna og hringja. Þetta er samansafn síðan ég gekk í barnaskóla og frá eyrnalokkaóðum heimasætunum, eitthvað sem þær hafa ætlað að henda. En guð minn góður, engu má henda! Þetta gæti nýsts! Það hafa ófá pörin verið notuð við hinar ýmsu þemu, athafnir og gjörninga. IMG_9588 IMG_9587

Allt undir kontról núna! Sko mína. Aðeins þrjú pör í hverjum sjálflokandi poka. Þarna sjást Kleopötru og Frida Kahlo lokkarnir.

En mitt í þessari eyrnalokkatiltekt, þar sem ég gleymdi jólunum, fékk ég vægt kvíðakast. Hvar voru bleiku nótnalokkarnir mínir sem ég eignaðist á barnsaldri??? Þá sá ég hvergi og tárin þröngvuðu sér með ógnarkrafti fram í augnkvarmana. Þangað til ég mundi eftir skartgripaskrínunum tveimur sem eru að nálgast þrítugsaldurinn og eru vel geymd á öruggum stað. Þar voru nóturnar…

IMG_0122

Einhverjir tónlistargúrúar myndi kannski ekki kalla þetta nótu, en þar sem ég er svo óregluleg í tónunum þá er þetta cirkabát mín nóta.

Í allt? Vilduðu vita hvað ég á marga eyrnalokka allt í allt? Já auðvitað!

248 stykki segi ég og skrifa án þess að roðna of mikið.

Meltið þetta!

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *