Ég fór í ræktina!

Já nú gekk þetta ekki lengur, hlutirnir gerðust bara ekki af sjálfu sér. Ég mætti því í ræktina í gær, ekki til að láta stjórna mér í box tíma, heldur til að lyfta járnum. Blýþungum! Svo þungum að allt lék á reiðiskjálfi og það ískraði í mér.

2015-01-06 18.28.35

Þarna sést hvernig vöðvarnir hnykklast og svitinn, tárin og blóðið sprettur fram og allt skelfur! Þessvegna var myndin svona hreyfð og léleg, vegna skjálftans sjáiði til. Þarna er ég sko að taka á því (erfitt að gera tvennt í einu). Tvíhöfðinn orðin trefaldur og trúin á sjálfri mér komin upp úr öllu valdi. Þarna hefði ég getað fært til fjall. Ef þið eruð að velta fyrir ykkur fatnaðinum sem ég er í á myndinni þá er þetta ekki aflóga rauður kvennahlaupsbolur. Guð nei. Þetta er hátísku svitalyktaeyðandi bolur frá NB og buxurnar eru rándýrar örvandi vöðvavíkkandi buxur frá Karitraa. Ekki bara einhverjar á 80kr úr H&M.

Þegar ég kom heim, hafði einhver deilt líkamsræktarstjörnuspá frá Sykur.is á facebook. Tilviljun eður ei?

Ljónið  (23.júlí – 23.ágúst)
Ljónið hefur tilhneigingu til að hafa stórt ego og elskar að dekra við sjálfan sig og gera eitthvað fyrir sig sjálft. Það er því ekki að undra að það elskar að fara í ræktina og eyðir þar löngum stundum. Þetta er vöðvastóra týpan (sjá mynd) sem tekur oft einhverskonar öskur (sjá mynd) eftir að hafa lyft stönginni. Kíkir svo í kringum sig, athugar hvort það séu ekki örugglega allir að fylgjast með því og tekur svo mynd af sjálfu sér.

En ég var ekki ein, alls ekki. Það var bara ekki pláss fyrir hinar á myndinni.

Begga vinkona (Seyðfirðingur) var með mér. Svona var hennar stjörnuspá.

Tvíburinn (21.maí – 20.júní)
 Lykillinn að því að Tvíburinn toll í ræktinni er að hann eigi æfingafélaga sem stýrir honum. Tvíburinn er oft eirðarlaus og hann tollir ekki lengi í einu á hlaupabrettinu eða í sama tæki. Honum leiðast íþróttir og á í stökustu vandræðum með að hætta að reykja.

Og þetta stóð við heima. Ég þurfti að stjórna öllu;

  • sagði henni að hlaupa lengur og hraðar í upphituninni
  • taldi fyrir hana
  • þyngdi fyrir hana
  • fylgdist með prógramminu fyrir hana og merkti við
  • sendi hana í sturtu
  • fylgdi henni heim

Ekki skil ég hvernig þessi vinkona mín hefur oft getað hlaupið 43 km í einu eða klárað um 300 km á hjóli á einu bretti á sunnudegi. Það hefur líklega einhver verið með fjarstýringu á henni.

Ágústa vinkona okkar (Miss Akranes) var líka með. Hún er bogamaður.

Bogmaðurinn (22.nóvember – 21.desember)
Bogmaðurinn setur sér langtíma markmið og horfir á stóru myndina frekar en árangur strax í dag. Hann vill verða sterkastur en gerir sér ekki alltaf grein fyrir styrkleika sínum. Bogamaðurinn er saklaustasta grey og skilur ekkert í því að fólk flýr þegar hann mætir með bera upphandleggi inn í salinn. Þessvegna er bogamaðurinn alltaf einn í hóptímum.  

Alveg er nú merkilegt hvað þetta passar fínt. Við Ágústa höfum mætt í boxtíma í langan tíma og stundum lætur þjálfarinn okkur kýla í magann á hvort öðru. Þá verður maður sko að spenna! Trúið mér, spenna af öllum lífsins sálar kröftum!!! Þetta er sú besta magaæfing sem til er. Nema hvað, ef við erum mjög mörg þá hefur hann deilt okkur í stelpur og stráka. Einu sinni passaði ekki talan og lét hann Ágústu fara yfir til strákanna. Strákarnir hugsuðu: aumingja Ágústa, en við stelpurnar hugsuðum: AUMINGJA strákarnir og þorðum ekki að horfa á.

Það stóð við heima, Ágústa kom eftir tímann flissandi og sagði mér að strákarnir hefðu bara verið að nudda eða kitla hvorn annan og sig líka. Svo fóru þeir í keng þegar hún kýldi og báðu hana fallega um að kýla aðeins lausar. Engin hefði pissað í buxurnar þar. Það er annað en við stelpurnar… Stelpur hlífa ekki stelpum! Aldrei. Það dynja svoleiðis högginn á mögum hvor annarrar, að við þurfum ekki að pissa í marga daga á eftir. Ættum eiginlega að fá vökva í æð við heimkomu.

Já ég er bara spennt að fara að lyfta blýþungu járni, horfa á vöðvana hnyklast í speglunum og anda að mér þessarri hræðilegu lykt sem er af öllum inn á svona stöðvum. Ca í maí, þurfum við væntanlega að breikka dyragötin í húsinu okkar.

Sjáumst 🙂

p.s. á einhver íslenskt nammi afgangs eftir jólin og vill losna við það?

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *