Bogi og co

Það gengur ekki lengur að blogga svona um Helga Björns, lífið snýst um annað og meira. Vissuði að ég fékk 6 geisladiska með Helga í jólagjöf? Allt út af þessu bloggbulli mínu.

Í staðinn ætla ég að stækka sviðið og bæta nokkrum stjörnum við bloggið, já eða rifja upp. En bara brot af öllum þeim sem ég hef dásamað hérna í gegnum tíðina. Ég ætla t.d. ekki að minnast orði á Jude Law, Robert Downey Jr., Alexander Petterson, Badley Cooper (hann er reyndar fallin í skuggann því hann var að leika í hræðilegri mynd), Rasmus Tantholdt, Simon Kvamm, Bill Clinton og fleiri góða gæja. Var ég annars einhverntímann búin að segja ykkur frá því þegar tveir lífverðir Clintons komu á Gjörgæsluna mína? Ég þurfti bókstaflega að styðja mig við vegginn! Og vonaði allan tímann sem þeir og Clinton voru í bænum, að þeir fengju í sig flís eða gætu ekki pissað. Ég hefði sko bjargað því! Þetta var útúrdúr en sannleikur engu að síður.

Til upprifjunar verða:

  • Leonard Cohen ~ Búin að blogga um hann um það bil fjórtán sinnum. Það er nóg.
  • Leonardo DiCaprio ~ Elsku DiCaprio minn, kvikmyndaheimurinn væri bara hálfur ef hans nyti ekki við. Er líka búin að blogga fjórtán sinnum um hann og það er nóg. Veit líka að karlkyns lesendur fá taugaáfall þegar ég minnist á Leonardo. Líklega vegna minnimáttarkendar, alveg sama dæmið og með Helga. Leonardo, Leonardo, Leonardo… að segja nafnið hans upphátt er eins og fylla munninn af alvöru silki.
  • Leonardo DaVinci ~ Hann er nýr í blogginu mínu (þrátt fyrir aldur) og fékk að vera með vegna nafnins. Allt er þegar þrennt er. Hvað væri Paris líka án Monu Lísu?

Nýir gæjar eru:

  • Quintin Tarantino ~ Ég verð að viðurkenna að í þessu tilfelli er það ekki kynþokki viðkomandi sem er að þvælast fyrir mér, heldur yfirnáttúrulegir hæfileikar til að gera mig mállausa af hrifningu aftur og aftur.
  • Hannah Kent ~ Er reyndar ekki gæi, en yfirmáta góður rithöfundur sem hefur sannarlega ekki skrópað í vinnunni sinni. Ef einhver er svo óheppin að hafa ekki lesið Náðarstund, bætið þá úr því hið snarasta. Ég er allavega heilluð.
  • Bogi Ágústsson ~ Mér hefur alltaf þótt Bogi góður fréttalesari og fyrir ekki svo löngu gerði ég mér grein fyrir að hann einn af þeim bestu. Eiginlega sá besti, allavega á Íslandi. Hann setur andlitið og röddina alltaf í réttar stellingar fyrir hverja frétt og það klikkar aldrei. Hann er sá allra besti til að flytja okkur sorgarfréttir. Hann er með svakalega skemmtilegt skopskyn og virðist vera vel inn í málunum þegar hann tekur viðtöl. Það hellist yfir mig öryggistilfinning þegar hann birtist á skjánum. Þessvegna er ég með hann sem bakgrunn á tölvunni minni. Hann er alltaf flott klæddur og vel greiddur. Í kvöld var hann í kolsvörtum jakka, ljósblárri skyrtu og með gult bindi. Algjörlega skothelt. Ég naut svo fréttanna að ég hafði ekki rænu á að taka mynd. Þessvegna verð ég bara að notast við mynd af netinu þar sem hann er hálf síðhærður en samt sjúklega sætur á henni.443611e3e0-420x398_oBogi verður 63 ára í byrjun apríl og ég ætla rétt að vona að hann sé ekki að íhuga ellilaunin í komandi framtíð. Allavega ekki fyrr en það kemur fréttalesari sem kemst með tærnar þar sem hann hefur hælana.

Ég er að sjálfsögðu búin að sækja um hann á facebook en við verðum líklega ekki vinir því hann má ekki eiga fleiri en 5000 vini. Ég elti hann bara í staðin og rýni í prófíl myndina hans þegar ég á rólegar stundir.

Lengi lifi Bogi!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *