Símarnir í krukku

Ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum, þá er frumburðurinn fluttur að heiman. Núna nýtur hún lífsins í lúxusíbúð með útsýni yfir höll og haf. Núna búum við sitthvorum megin við miðbæinn. Hún kemur stundum í heimsókn og stundum bjóðum við henni í mat. Þegar hún fer, þakkar hún fyrir matinn og sig og við segjum: „takk fyrir komuna elskan“. Allt orðið afskaplega fullorðins á augabragði. Þetta ferli var mjög eðlilegt. Engin grátur, tómleiki né söknuður. Bara eintómur spenningur og samglaðningur. Ég hef 87sinnum verið spurð að því hvort þetta hafi ekki verið erfitt, hvort mömmuhjartað hafi ekki brostið, hvort ég sakni hennar ekki ólýsanlega. Hey kommon, hún er að verða tvítug. Nei ég sakna hennar voðalega lítið. Hún er niður á Bjerggade eða Fjallagötu eins og við köllum hana á íslensku, ekki syðst í Chile. Ég er sannfærð um að þetta sé eðlileg þróun. Það getur allt í einu orðið þröngt á þingi þegar fjórir fullorðnir einstaklingar búa undir sama þaki og tveir ráða mestu. Aldís flutti á hárréttum tíma frá náttúrunnar hendi.

Útflutningurinn þýddi að við græddum auka gestaherbergi. Seinni helming helgarinnar eyddi ég í að koma skipulegi á það. Sem þýddi að ég endurskipulagði líka hitt gestaherbergið og hjónaherbergið. Allt umturnaðist á augabragði. En mest spennandi var auðvitað nýtilkomna gestaherbergið. Það innihélt nefnilega svo mikið af allskonar dóti í eigu dætranna.

Ég hef sagt fimmhundruðogsjö sinnum við Svölu: „komdu þér upp minningarkassa“!

Hún svarar bara: „mmm“

Hvaðan skyldi hún hafa það?

Í herberginu fann ég 6 minningarkassa í öllum stærðum og gerðum, auk tveggja skúffna, troðfullum af allskonar hlutum úr æskunni.

Fæst af því var myndbirtingarhæft. Þarna voru bréf, póstkort, fermingarkort, myndir, dagbækur, ljóð, Diddl dót, ýmislegt smádót, 9 ára gamalt gifs eftir handleggsbrot, lítil lakkstígvél frá því hún var 4ára og nikeskór frá því hún var ca. 10 ára.

En ég vissi ekki að hún hafði geymt marga af símunum sem þær systur hafa átt í gegnum tíðina.

IMG_2472Í einum kassanum leyndust tólf símar. Hvorki meira né minna.

Aldís var einhversstaðar á milli 11 og 12 ára þegar hún fékk sinn fyrsta. Hann er ekki meðal þessara. Það var hermannagrænn Nokia sem átti að þola allt hnjask. Enda entist hann og entist í höndunum á rólegheitarbarninu henni Aldísi.

Við héldum fast í að Svala yrði að vera orðin 10 ára til að fá sinn fyrsta síma. Biðin var ólýsanlega erfið fyrir vesalings barnið. Um vorið dó amma hennar og lét eftir sig símann sinn sem engin hafði beinlínis not fyrir. Svölu litlu var veitt undanþága og fékk hún að erfa símann. Þá var hún 9 og 1/6 ára. Síðan hefur hún eignast marga síma. Bæði notaða og nýja.

IMG_2475

Ég taldi þá og setti þá síðan í krukku. Það er hægt að geyma allt í krukkum, líka negul og naglalökk (færsla síðan 2013).
IMG_2486

Þarna sést eini síminn minn í krukkunni, Nokia 800ogeitthvað. Notaði hann í 6 ár. Sími númer tvö af fjórum í mínu lífi. Ég hef átt tvo Nokia, einn sem ég vil ekki tala um og svo núverandi síma sem er orðinn þriggjaára gamall.

Fyrir tíma snjallsímana var Sony Erikson allsráðandi á heimilinu. Nokia var í örðu sæti. Engin í því þriðja. Því sá sem í rauninni var í þriðja sæti, er síminn sem ég vill ekki tala um.

Símarnir eru í mjög misjafnlegu ásigkomulagi. Ég man vel að þeir virkuðu í andarslitrunum. Stundum var það manni óskiljanlegt.

(Endilega látið ekki Kähler blómavasann á myndunum trufla ykkur, ég stillti honum ekki upp, hann var bara þarna…) (Auk þess á ég hann ekki, heldur Svala litla) (Sko, fyrrverandi tengdasonurinn, hann M. Schumacher var svo indæll að gefa henni þennan sæta vasa… I got you babe…) (Hann þó ekki röndóttur) (Sem betur fer).

IMG_2473Árið 2011 hófu snjallsímarnir síðan innreið sína inn á okkar heimili. Heimasæturnar voru fyrstar og þjáðust síður en svo af valkvíða. Sony Ericson merkinu var skipt út fyrir það eina rétta. Húsbóndinn barði í borðið og fór út í harða sjálfstæðisbaráttu símalega séð en ég fylgdi dætrunum. Baráttan hans Fúsa endaði með að græjan hans lést löngu fyrir aldur fram. Af þessu lærði Fúsi heilmikið, varð reynslunni ríkari og því erum við fjölskyldan 100% samtaka og mjög hamingjusöm í dag.

Reyndar hef ég aldrei skilið þennan símameting sem átt hefur séð stað síðan snjallsímarnir komu á markaðinn. Þetta er mál sem óþarfi er að ræða, óþarfi að eyða tíma í að ræða.

Svipað og með kaffi og te. Í vinnunni er þetta eilíft pirringsmál og metingur.

2014-09-28 04.58.57

Kaffið er í rauðu brúsunum. Te-ið í þeim hvítu. Það er alltaf rosalega vond lykt af te-inu. Það er verið að drekka einhverjar skrítnar jurtir, blandaðar við anis og ferskju. Eða eitthvað kínverskt hrísgrjónate. Vá hvað það fer í mínar fínustu. Þetta er ekki töff drykkur. Auk þess heyrist alltaf hljóð í tekönnunum. Einhverskonar þrýstingshljóð. Ég þoli það ekki og opna þær allar þegar engin sér til. Og það verður til þess að allt springur á deildinni… „HVEEER opnaði te-ið mitt????“ Það er því engin tilviljun að tekannan liggur á þessari mynd á meðan kaffikannan stendur uppreyst. Kaffi er töff.

Annað þrætumál er Coca cola og pepsi max.

Það versta er þegar maður fer í einhversskonar boð og það er bara boðið upp á pepsi max og fanta. Það er bara ekki hægt. Ef ekkert áfengi, þá er lágmark að bjóða upp á coca cola eða alvöru Pepsi. Í það minnsta. Það leggjast nefnilega ekki allir svo lágt að kyngja pepsi max. IMG_9505

Þessum dísæta froðudrykk. Sem lætur eyrun á manni ropa fram eftir nóttu. Sem lætur líkamann grátbiðja um meira. Sem lætur alla skynsemi fjúka út í veður og vind. Það er því engin tilviljun að pepsi max sé kallaður feitubolludrykkur af gárungum… Ekki samt af mér, ég er ekki gárungi.

Ég drekk bara ekki pepsi max.

En elska kók á tillidögum. Í gær fékk ég mér kókglas. Bíð spennt eftir næstu helgi. Áfram kók og kaffi og allt annað sem byrjar á K.

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *