Alveg ósköp venjulegur göngutúr í kringum Myllutjörn.

Ég er enn í svona rosalega fínu skapi (eins og síðast). ÞRÁTT fyrir að hafa fengið hálsbólgu af að lesa stórhríðsbækurnar eftir Jón Kalman. Kannski ætti ég að vera meðvitaðri um að greina á milli sögu í bók og raunverulega lífsins? Eða ekki. Smá hálsbólga kemur nú ekki að sök. Það er ekki eins og ég sé veik. Né frá vinnu. Þótt ég geti ekki sungið óperettur akkúrat núna.

Dagarnir undanfarið hafa verið stór fínir. Afmæli (ég elska afmæli), hellings útivera og bíltúr. Við förum aldrei í bíltúr.

IMG_1661Ég man ekki hvað ég gerði fleira í þessu langa helgarfríi. Get ómögulega munað tiltekt og þessháttar. Nema útitiltekt. Við tókum til úti. Jú og frábært hversu góðar viðtökur síðasta Pink Ladies verkefni fékk á laugardaginn. Fleiri þúsund hafa skoðað albúmið okkar. Það finnst okkur gaman.

Eftir vinnu í dag, fór ég í göngu(r) með íslenska fjárhundinn minn. Við fórum bara svona rétt á bak við hús. Þar er tjörn.

IMG_1676

Við enda tjarnarinnar er elliheimili, keyrt á sólarrafhlöðum og fólkið því orkumikið og alltaf niður í bæ í bjór og með því.IMG_1679

Við tjörnina er hengitré sem hefur í áratugi ef ekki lengur, vaxið út í vatnið. Þarna var ég bara að taka mynd af trénu en þegar Vaskur kemur að þessu tré, á sér stað skilyrt svörun. Hann hefur frá blautu barnsberi fengið nammi ef hann hleypur eftir því. Þessvegna varð hann óvart með á myndinni.

Þetta tré teygir anga sína í fleiri áttir.

IMG_1684

IMG_1694

Og Vaskur fer á alla angana. Hann hefur einu sinni dottið út í.

IMG_1698

En það var hvorki tréð né hundurinn sem þessi færsla átti eingöngu að snúast um. Ég ætlaði bara að segja ykkur frá dæmigerðum göngutúr í kringum Myllutjörn (Mølledammen) á svona mánudegi eins og í dag.

Við vorum ekki fyrr komin að tjörninni þegar við heyrðum kallað, „VASKUUUGGGG!“

Það var nýjasta vinkona okkar, sú sem við eigum reglulega stefnumót við undanfarið, svona seinnipart dags. Hún minnir mig smá á ananas. Fölgul með burstaklippingu, líklega eitthvað sem hún gerir sjálf, alltaf í hnjásíðum joggingbuxum (allan ársins hring) og stuttermabol. Og þrátt fyrir stuttar skálmar og stuttar ermar, eru sáralitlir útlimir sjáanlegir. Hún er alltaf borubrött, týpan sem gæti farið að tala um blöndunginn og rörtöngina ef sá væri gállinn á henni. En í staðinn rífst hún út í helvítis, andskotans þunglyndið sem hún þjáist af. Fari það í rassgat. Og helst lengra ef það er pláss. Mér finnst ananas góður.

Hún elskar Vask og segir hundinum sínum að gera það líka, hann gegnir.

Þegar hún var búin að kalla „Vaskuggg“ af löngu færi og við vorum orðin sameinuð, öll fjögur, heilsaði hún okkur aftur með útréttum handlegg (sem er ekki æskilegt á almanna færi): „Hæ Íslendingar“. 

„Þarna eruð þið þá, Íslendingarnir sjálfir, þið eruð svo djöfull fín“

„Svona Íslendingar sko“

„Helvíti er þetta gott“

„Vaskur snillingur, þú ert besti Íslendingurinn“

Maður þarf ósköp lítið að leggja til málanna enda þurfa ekki allir að tala alltaf. Stundum er bara fínt að hlusta. Serstaklega þar sem mér finnst gaman að hlusta á hana og þessi stefnumót vara í mesta lagi í 5 mínútur.

Við Vaskur héldum áfram.

IMG_1722

Þessi gosbrunnur lá í dvala í nokkur ár. Ekki lengur. Greinilega ekki.

IMG_1728Við sáum múslima vera að kela. Þegar við síðan nálguðumst, stóð hún upp, henti einhverju í hann, sagði „yallah yallah“ og rauk í burtu. Kommon, þau voru nýbúin að vera í sleik.

IMG_1730 IMG_1751

Við héldum áfram og sáum þá ungan mann sitja sofandi upp við tré. Hann var með prjónahúfu með dúsk á hausnum í 19 stiga hitanum. Ég hef líklega verið að brosa að honum eða brosa til Vasks, eða verið með einhverja grettu, því allt í einu stendur maðurinn upp, teygir úr sér með tilþrifum og segir: „mikið er brosið þitt heitt, þú gerir daginn minn betri“. 

Ég alveg, öhhh já, takk eða eitthvað… og hef líklega brosað meira. Hann hélt áfram: „ég vona að þú eigir líka yndislegan dag. Takk enn og aftur fyrir að brosa til mín“. 

Ég tók mig saman og svaraði: „verði þér að góðu og takk sömuleiðis“.

„Nú er dagurinn fullkomin“ sagði hann og faðmaði tréð. Já hann stóð þarna og faðmaði stærðarinnar beykitré. Ég var komin aðeins framhjá þar sem allt þetta gerðist frekar hratt og ég hafði aldrei stoppað. Ég gat ekki staðist mátið, snéri mér við og spurði hvort hann væri hrifinn af trjám? „, ég ELSKA náttúruna“ hrópaði hann, kyssti tréð og valhoppaði í burtu.IMG_1734

(Þarna er Vaskur að faðma og kyssa sama tré. Getið þið látið ykkar hund faðma tré? Nei bara spurði)

Stuttu seinna heyrði ég manninn þakka kínverski stelpu kærlega fyrir að brosa.

Ég hugsaði fyrst með mér að þetta væri nú meiri rugludallurinn en líklega var þetta sá gáfulegasti af öllum sem ég hitti í dag. Ef allir væru svona þá væri nú tilveran dásamleg.

IMG_1774 IMG_1778 IMG_1781

Nú erum við komin hringinn í kringum Myllutjörn.

Sofum brosandi í nótt, kæru lesendur.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *