Bollaspádómarnir

Það hefur gengið svona upp og niður í hjónabandinu okkar Gamla Gaurs upp á síðkastið.

Ástæðan?

Jú, hann segir að ég sé pirrandi.

„Nennirðu að hætta að dansa asnalega, nágranninn getur séð til þín…“

„Nennirðu að hætta að syngja, nágranninn getur heyrt til þín…“

Þarna erum við að ræða um nágrannann sem varð aðeins fúll af því að ég hélt upp á afmælið mitt…

„Nennirðu að hætta að baula út um gluggann með hreindýrshorn á hausnum…“

„Nennirðu að hætta að elta mig út um allt hús til að taka video af mér…“

„Nennirðu að hætta að hrjóta“ (Þarna er hann að dreyma, að sjálfsögðu hrýt ég ekki…)

„Nennirðu að hætta að banka á hurðina þegar ég er að hafa hægðir…“

Nennirðu þetta, nennirðu hitt. Þetta glymur í hausnum á mér daginn út og inn. Og án nokkurrar ástæðu. Í fyrradag gekk hann svo langt að læsa mig inn í svefnherbergi í örugglega heilar tvær mínútur. Og aftur, án nokkurrar ástæðu. Sem betur fer var Vaskur hjá mér, mér leist nefnilega ekkert á blikuna.

Í þessum skrifuðu orðum er ég að horfa með öðru auganu á þátt í sjónvarpinu sem fjallar um bændur í leit að ástinni. Hver bóndi fær að kynnast fimm konum og þar af þarf hann að velja eina úr. Þetta eru frekar athyglisverðir þættir.

Ef hjónabandið mitt fer út um þúfur, ætla ég að vera með í svona þætti.

En svona í alvörunni vil ég ekki að hjónabandið fari út um þúfur.

Þessvegna ákvað ég að skyggnast inn í framtíðina, svona til að geta gert einhverjar varúðarráðstafanir og fyrirbyggt að ég fari í þennan bændastefnumótaþátt.

Þegar ég fór til Karólínu spákonu hérna í Sönderborg um árið, sagði hún mér að ég hefði spádómshæfileika. Ég er ekkert að ljúga þessu. Hef bara aldrei látið reyna á þá fyrr en núna.

Um helgina ákvað ég að fara að spá svolítið og byrjaði að safna bollum. Það er svona auðveldast að byrja á þeim. Ég kann ekkert á spil.

Eftir fjögurradaga söfnum gat ég farið að spá. En það munaði nú litlu að heimilisfólkið hefði eyðilagt allt fyrir mér. Þrisvar bjargaði ég bollunum úr uppþvottavélinni.

IMG_2985

Ég mundi ekki alveg hvernig bollaspádómaferli fer fram en það getur varla skipt öllu. Því drukkum við bara úr þeim og létum þá þorna út í glugga. Reyndar blés ég í nokkra en gleymdi svo restinni og því var andi minn ekki í þeim öllum.

IMG_3004

Þarna sjáið þið að það er spádómur í þeim flestum. Ég hef líklega blásið of kröftuglega í tvo þeirra, nema hreinn bolli tákni að það gerist ekki neitt. IMG_3039-3

Þarna í þremur bollum er hringur. Þetta táknar giftingarhring. Alveg er ég handviss um það. Táknar líklega að Fúsi eigi að gefa mér nýjan hring, þ.e.a.s. ef hann vill vera giftur mér áfram. Hafið þið annars verið að leyta eitthvað að hringnum mínum? Ég var búin að biðja ykkur um það einhverntímann. Sagði ykkur að hann gæti mögulega verið hérna í Sönderborg, Vejle, Keflavík, Tönsberg, Egilsstöðum, Akureyri, Hafnarfirði, Treviso, Reykjavík, Kaupmannahöfn eða einhversstaðar allt annarsstaðar. Endilega horfið eftir honum fyrir mig. Hann er gylltur og kringlóttur. Kannski er hann í bílnum ykkar.

Í bollanum í miðjunni er greinilega hófur. Þetta er hún Magga mín (úr síðustu færslu). Hún á eftir að fá óhemjugóða einkunn fyrir hófa. Það sér nú hver sjáandi maður. Og þetta passar svona glimrandi vel við auglýsingarnar á RÚV í kvöld, en þar var verið að minna okkur hestafólkið á að skrá gripina okkar einhversstaðar á netinu. Náði nú ekki alveg hvar en foreldrar mínir hljóta geta aðstoðað mig við þetta, tja, eða gert það fyrir mig. Þau þurfa hvort eð er að fóðra Möggu og temja hana fyrir mig.

IMG_3007Hann er alveg ótrúlegur hann Vaskur, alltaf í hvert einasta skipti tekst honum að smokra sér inn á myndirnar mínar. Hvernig sem ég reyni að flýta mér og ýta honum í burtu. Þið verðið bara að afsaka.

IMG_3000

Í bollanum til vinstri eru eintóm gleði, ferðalög og peningar í sigti. Þið sjáið eins og ég að þetta er bros, bátur og litlir gullpeningar í botni bátsins.

Í bollanum til hægri er greinilegt hjarta og alda í kringum hjartað. Þetta er ástaralda. Og ástaraldan skellur á mér eins og brim sem brotnar á skeri. Þetta er góður bolli. Ég þurfti á þessum að halda eftir að Gamlinn læsti mig inn í herberginu.

Nú hefði ég bráðum fengið nýjan hring og ótakmarkaða ást og hamingju…

…ef hann Sigfús minn hefði ekki eyðilagt þetta fyrir mér og sagt að það var Stebbi hennar Beggu sem hefði drukkið úr þessum á sunnudaginn var…!

Já nei, ég tek ekki að mér fleiri bollaspádóma. Nema náttúrulega þið borgið mér fyrir það.

——————————————————————–

P.s. Ef þið viljið vita hvað varð um laufin á myndunum getið þið komist að því á Snapchat: Alrun

P.s.s. ef þið endilega viljið, skal ég segja ykkur það. Ég gaf Fúsa þau af einskærri væntumþykju.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *