Magga… – …Alrún

Ég var svona aðeins að velta fyrir mér þessum spádómi í síðustu færslu.

Muniði þegar hófurinn á Möggu (hryssunni minni) kom í bollann? IMG_3039-3

Síðan í gær hef ég velt Möggu enn meira fyrir mér. Ég virðist tengjast henni þrátt fyrir fjarlægðina. Magga er grá og mig minnir að hún sé fjögurra vetra. Eða þriggja. Man það bara ekki alveg. Hún er stórvel ættuð en ég man heldur ekki undan hverjum. Ef það er ekki Hrafn, Sörli, Kjarval eða Otur þá man ég bara ekki neitt. Ég á víst margt ólært fyrst ég er orðin hestaeigandi aftur. Kannski ætti ég að orða þetta seinasta öðruvísi… Ég kann þetta allt saman, ég þarf bara að rifja upp.

  • Ég þarf að horfa eftir múkki
  • Ég þarf að láta hana ganga inn undir sig
  • Ég þarf að ráða járningarmann af kostgæfni
  • Ég þarf að nota almennileg mél og múl
  • og jafnvel þyngja að framan.
  • Síðan má hún alls ekki verða fylfull eftir hvern sem er!

Hún Magga mín.

Get ég látið hana heita Möggu? Hvað ef hún verður fræg? Fengi fyrstu verðlaun og yrði hæstdæmda hryssa í sögu Íslands? Lyfti svo hátt að fólk færði sig frá í kílómeters radíus? Yrði svo reist að brýr yrðu teknar niður í öryggisskyni?

Þá getur hún varla heitið Magga?

Auk þess er drottning Dana kölluð Magga af íslenskum gárungum. Og ég er mikill andstæðingur danska konungsríkisins.

Mér finnst gælunafnið Magga flott á íslenskum konum.

Og alveg fínt á hesti líka… nema hún verði fræg.

Svona ef ég á að gæta hagsmuna minna og hugsa örlítið í markaðssetningu, held ég að hún verði að heita Alrún.

Sérstaklega ef hún verður fræg.

Alrún frá Möllegade 21. Nei, það væri líklega ekki hægt. Man ekki heldur frá hvaða bæ hún er…

En hún er grá en verður hvít og gullfalleg.

UnicornÞið sáuð hófinn í bollanum. Það er alveg ljóst að hún verður svona eins og þessi á myndinni (fyrir utan þetta horn). Draumkennd og heillandi. Með ofurkrafta vegna nafnsins Alrún. Hún á eftir að vernda okkur og veita okkur gæfu og góðs gengis um aldur og ævi.

Já þetta var nú aldeilis góð afmælisgjöf frá honum föður mínum. Gjöfin sem kom mér í opna skjöldu og ég hugsaði strax; hvenær og hvernig á ég í ósköpunum að heyja ofan í hana?

Nú get ég ekki beðið eftir að sjá hana, kynnast henni og greiða þetta fallega fax.

Nennir einhver að taka mynd af henni fyrir mig, held að hún sé í Eyjarfirði akkúrat núna. Man það samt ekki alveg.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *