Þegar ég rakaði á mér ökklana afþví að það ætluðu tveir að nudda mig og margt margt fleira

Síðasta vika var það viðburðarrík að litlu munaði að ég hefði fengið magasár, svona fræðilega séð. Það sem bjargaði mér frá því var að hún var afskaplega skemmtileg. Á köflum.

Mánudagurinn: Sat á mínum flata við þetta blessaða verkefni mitt, komin í tímaþröng og tilheyrandi stress. Hafði dregið með eindæmum vikuna áður að gera eitthvað af viti, vantaði þá algerlega alla löngun og innri hvatningu. Hafði ekki séð neinn tilgang með að gera eigindlega og megindlega rannsókn í eina og sama verkefninu sem mátti ekki fylla nema hálfa tylft í sjálfum textanum og reyndi í alvörunni að copy/paste-a úr annarra manna verkefnum án þess að það sæist. En á mánudeginum tókst mér að hysja upp um mig buxurnar, reyra snærið og gera þetta að mínu.

Um kvöldið hjólaði ég í hávaða roki og rigningu yfir í hinn hluta bæjarins í myndatöku. Og þau ykkar sem hafa eitthvað verið að misskilja, þá voru gærur, reykvél og dúnmjúkar kattarhreyfingar ekki hluti af þessari töku! Jú, þetta var ykkar misskilningur, því það er ykkar að sortera sannleikann úr bullinu á öðrum samfélagsmiðlum þar sem ég eyði dýrmætum tíma mínum endrum og eins.

Þriðjudagur: Aftur það sama yfir daginn, þangað til seinni partinn og um kvöldið en þeim tíma eyddum við í hópi Seyðfirðinga og Fellamanna. Ég lærði nýjan brandara sem kemst næstum með hælana þar sem hinn brandarinn minn hefur tærnar. Þessi brandari er með hljóði og því óhentugur hér inni. Ég komst líka að því að það er til mállýska sem heitir seyðfirska, þótt Seyðfirðingar vilji síður en svo gangast við því.

Miðvikudagur: Það sama og síðastliðnu tvo daga. Auk þess fékk ég boð um ókeypis fóta og axlarnudd kvöldið eftir hjá einhverju nuddfyrirtæki sem ég hafði aldrei heyrt um áður (Forever living), sem ég að sjálfsögðu þáði. Um kvöldið fór ég á næturvakt sem ég var sett á fyrir misskilning. Það er mannlegt að misskilja.

Fimmtudagur: Ég svaf ílla, vaknaði og það voru glerbrot ÚT UM ALLT! Í rúminu og á gólfinu. Ég gat hvergi stigið niður. Ég andaði djúpt og nuddaði augun og þá hurfu þau. Ég settist niður við verkefnið, tæplega sólarhringur í skil og lét mig hlakka óheyrilega til fóta og axlarnuddsins. Við vorum fjórar sem var boðið í þennan lúxus. Ég velti mikið fyrir mér hvernig þetta færi fram svona á meðan ég diskúteraði eigindlegu aðferðina sem ég hafði notað. Hvort væru átta starfsmenn að nudda okkur. Tveir á hverja. Einn á fætur og einn á axlir. Ég ímyndaði mér að þetta nuddfyrirtæki væri með sérútbúna stóla úr góðu leðri, dempaða lýsingu og jurtalykt í loftinu. Ég gat ekki beðið. Það var mæting kl. 19:00. Ég fór út með Vask, skellti síðan í mig kvöldamatnum og var tilbúin, fimm mínútum áður en vinkona mín ætlaði að sækja mig. Þá mundi ég allt í einu eftir að ég var með forljótt sex vikna gamalt naglalakk á tánum og feld í stíl. Fór úr skóm og sokkum á augabragði, fjarlægði lakkið og greip sköfuna. En það var ekki tími til stórræða og því var aðeins feldurinn á ökklunum fjarlægður. Það hlaut að vera nóg. Varla færi nuddarinn mikið lengra upp. Þegar við vorum allar fjórar komnar saman í bíl vinkonunnar, kom í ljós að ég var ekki sú eina. Önnur hafði fjarlægt tveggja mánaða gamalt lakk af tánum, nánast á útitröppunum og sú þriðja fór í vax á fína stofu og rétt náði heim fyrir brottför.

En við hefðum getað sparað okkur ómakið. Forever living er ekki nuddfyrirtæki með leðurstólum og dempaðri lýsingu, heldur snyrtivörur og snapsar í heimakynningu. Það hafði aldrei staðið fótanudd heldur bara fótabað í skilaboðunum. Það voru engvir átta starfsmenn, heldur bara ein kona sem átti bara heima þarna og gat hlaupið 16 km án þess að vera í formi og án þess að blása úr nös, einungis vegna þess að hún tók eitthvert vítamín sem kostaði jafnmikið og ágætis samlokugrill út úr búð. Hún var svo náttúrleg að gleraugun hennar voru með náttúrulegra móti.

Við þurftum að fara í fótabaðið sjálfar, engin sá sléttrökuðu ökklana mína nema ég og axlarnuddið fór fram í öllum fötunum og tók í mesta lagi fimm mínútur. En gott var það!

Kvöldið var þó ekki ónýtt, við drukkum aloavera snapsa og hlógum.

Föstudagurinn: Bara svo að þið vitið það, þá skila ég alltaf mínum verkefnum og ritgerðum í góðum tíma. Í fyrra skilaði ég á föstudegi þegar skilafresturinn var á mánudegi. (Ég var á Íslandi). Núna tókst mér að skila kl. 11: 57:37 og fresturinn rann út kl. 12:00. Skilaaðferðin er ekki eins og í gamla daga, ekki prentað út og skilað í kassa, ekki heldur sent á meili. Nei, núna er skilað í gegnum kerfi og kerfið lokast kl. 12.00.

Ég hélt að ég myndi andast þarna á föstudaginn. Svo ekki sé minna sagt. Ég lenti í asnalegu veseni, tók asnalega sénsa og skilaði á asnalegum tíma. Geri þetta ALDREI aftur.

Ég er mjög oft spurð að því hvað ég sé að læra. Enda ekki nema von. Ég þarf sjálf að rifja upp hvað þetta nákvæmlega heitir. En ég er að afla mér kennsluréttinda í klíniskri kennslu og heitir svoleiðis “ Heilsudiplóma í heilsumiðlun og klíniskri kennslu“ samkvæmt google translate. Þetta tekur mig þrjú ár ef að ég tek einn hluta á önn með fullri vinnu. Ég er hálfnuð.

Föstudagskvöldinu eyddi ég svo niður á göngugötu innan um gospelsöng og glögg. Eftir það fór ég í gott afmæli.

IMG_3059

Í gær ákvað ég að skreyta. Kominn tími til að hleypa jólaandanum inn. Ég kveikti á Létt Bylgjunni og leiddi hana út í hátalarana. Þannig tryggir maður að það sé jólatónlist á fóninum. Við mikinn fögnuð Sigfúsar. Já, eða ekki. Því Létt Bylgjan er ekkert að skafa utan af jólalögunum og spilar kannski í meira lagi lög sem valdi manni óþarfa gæsahúð og vandræðagangi. Ég ímynda mér að stúdíóið þeirra sé í pastellitunum og að þau borði síróp í öll mál af skeið.

Í gærkvöldi spurði ég Fúsa hvort hann vildi horfa með mér á jólamynd…?

„Heyrðu góða, ekki vera ganga of langt í jóla… að gera mig að einhverju jólabarni…“ og síðan klóraði hann sér vel og vandlega á ákveðnum stað.

Gleðilega aðventu.

P.s. við eigum 8 ára giftingarafmæli á morgun, ef þið viljið fylgjast með hvernig ég held upp á það, þá finnið þið mig á snappinu undir alrun og hér getið þið séð úr hverju gjöfin á að vera sem Fúsi á að gefa mér.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *