Holdvot í Bergen

Ég skellti mér til Bergen í vikunni. Þeir hringdu á mánudaginn seinnipart með tilboð um fjórar næturvaktir og var brottför á þriðjudagsmorguninn. Þegar ég fer í svona ferðir, tek ég eins lítið með mér og ég mögulega get. Ég veit fyrirfram að ég þarf stundum að dröslast með tösku meira en bara inn og út úr leigubílum. Á mánudagskvöldið stóð ég því og reif í hár mér, því Bianco kuldaskórnir sem ég fann inn í skáp og Aldís hafi átt hérna í denn komust ekki með góðu móti í töskuna og ég mátti alls ekki, samkvæmt honum Sigfúsi sérfræðingi, standa á töskunni til að þjappa. „Ætlarðu endanlega að rústa tölvunni  OG myndavélinni þinni???“ Ég vissi bara að ég færi ekki upp á neitt einasta af þessum sjö fjöllum í kringum Bergen í spánskum leðurskóm með hæl. Og gönguskórnir eru á Íslandi. Kuldaskórnir urðu því að fara með. Sem og dúnúlpan. „Farðu bara í kuldaskónum og dúnúlpunni“ sagði hann. Hahahaha, átti þetta að vera brandari? Ég hló allavega af einskærri tillitsemi. Að fara í dúnúlpu og kuldaskóm í gegnum þrjá flugvelli…? Ehhh nei. Maður fær síðri afgreiðslu. Það er staðreynd.

Ég opnaði mig á snappinu um daginn og viðurkenndi að einu sinni hafði ég farið í gráum jogging buxum og strigaskóm í gegnum fjóra flugvelli á sama deginum, en að ég hefði verið löglega afsökuð. Hafði verið búin að vinna í ótrúlega marga tíma á fáum dögum og fór beint í flug eftir næturvakt. Ætlaði bara að hnipra mig saman og sofa. Og það var eins og við manninn mælt, ég mátti þakka fyrir að fá vatn. Og var rekin út úr snyrtivörudeildinni í fríhöfnunum þegar ég ætlaði að nota málningardótið þeirra og laga mig aðeins til. Sem maður kemst auðveldlega upp með ef maður er klæddur í betra tauið.

Endirinn varð sá á þriðjudagsmorguninn að ég fór í kuldaskónum en tróð dúnúlpunni í veskið mitt. Fór sem sagt milliveginn í flug.

Ég hafði aldrei áður komið til Bergen. Eða Björgvins eins og bærinn hét á Norðurlöndunum í gamla daga; vinin á milli fjallanna.

Þegar ég kom í miðbæinn ætlaði ég að taka leigubíl á fimm stjörnu hótelið sem fyrirtækið hafði pantað fyrir mig.

Ég sá strax leigubílaröð og eins og þið vitið, verður maður að taka fyrsta bílinn í röðinni. Jafnvel þótt fyrsti bíllinn sé kassalaga Mazda og næsti bíll sé Mercedes Bens E – coupé. Ég ákvað að bíða aðeins til að sjá hvort það kæmi ekki einhver annar og tæki Mözduna.

Eftir að hafa spígsporað þarna um í nokkrar mínútur án þess að Mazdan færi og ég farin að skjálfa úr kulda í bergenísku rigningunni og aðeins klædd þunnum pæjujakka með dúnúlpuna í veskinu, settist ég hundfúl inn í Mözduna. Ég meina, þetta var ekki fimm mínútna taxatúr, heldur tuttugu mínútna og því hefði verið betra fyrir skrokkinn minn að sitja í Bensinum.

Fimm stjörnu hótelið mitt, sem í raunveruleikanum var farfuglaheimili, lá langt upp í fjallshlíð. Það tók mig korter að labba í vinnuna. Niður 75 gráðu halla. Í rigningu öll kvöldin. Og síðan upp 75 gráðu halla þegar ég var búin á næturvöktunun. Í rigningu alla morgna.

Á fimmtudeginum ákvað ég að fara upp á fjallið sem ég bjó í. Það heitir Ulriken og er 643 metra hátt. Þar sem ég hafði gleymt broddunum heima var mér ráðlagt að ganga ekki upp. Því tók ég kláfinn. Reyndar á ég ekki brodda, en ef ég ætti, hefði ég gleymt þeim heima.

Þegar upp var komið skall á vonskuveður svo sá ekki út úr augunum og þá var ég mikið þakklát fyrir dúnúlpuna sem þó er aðeins vatnsheld upp að vissu marki, samt betri en pæjujakkinn) og húfu sem var þó ekki nóg því upp á fjalli duga þunnar glansbuxur skammt. IMG_3071

Og ég hafði hengt myndavélina um hálsinn á mér, engin taska eða neitt (tók of mikið pláss) og ekki ætlaði ég að opna úlpuna fyrir mitt litla líf til að hleypa vélinni inn á mig… Örstuttu seinna varð skyggnið núll.

Síðan kom haglél… IMG_3099

Og ég hugsaði: „Hvað var ég að æða hingað upp á fjall, ílla klædd og alein með næturvaktartimburmenn, ekki einu sinni með nesti… aðeins með nakta myndavél“. Kláfurinn ætlaði að koma eftir þrjú korter að sækja mig. Það getur margt gerst á þremur korterum. Sérstaklega ef stakkurinn verður eftir heima. Eða skelin eins og það heitir í dag. Ég gleymdi nefnilega að taka skelina með, þ.e.a.s. ef ég ætti skel.

En það birti til…IMG_3092IMG_3077

Og tveimur mínútum áður en kláfurinn kom var orðið veðurlega bjart þótt klukkan benti til snarlegra ljósaskipta.

IMG_3122 IMG_3109

Ég fór niður aftur með þökk í hjarta fyrir að hafa ekki orðið úti á ókunnugu fjalli sem heitir Úlrik.

Niðri rigndi. Ég fór undir sæng.

Seinna fór ég í vinnuna, þá ringdi líka.

Daginn eftir vaknaði ég snemma og sá að veðrið var þurrt og fallegt. Dreif mig því niður í miðbæ til að geta sagst hafa séð Bergen.

Þegar ég var komin niður í bæ, var byrjað að rigna.

Á fjórum tímum fór ég á eitt kaffihús, tvo veitingarstaði, eina búð og eitt fjall.

IMG_3143 IMG_3147

Fløyen er lítið bæjarfjall, aðeins 399 metra hátt en sjensinn bensinn að ég hafi nennt að labba upp í myrkri og mígandi rigningu! Kannski hefði ég nennt ef ég hefði haft broddana og skelina (sem ég á ekki) með. IMG_3155Og hversvegna ekki að nota „banann“?

Þegar upp kom, ringdi bara meira… Jesús Kristur, hvað það getur rignt í þessum bæ.

IMG_3177 IMG_3175

Þegar ég kom niður lá leiðin beint á veitingarstað sem heitir Pingvinen og lókallinn hafði mælt með. Dimmur, þröngur og heimilislegur staður þar sem maður þarf að troða sér á milli á barnum til að njóta fiskigratíns og kartöflna með miklu smjöri. Mæli með honum.

Um kvöldið þegar ég fór á næturvaktina hafði aukið í bæði regn og blástur. Ég þurfti að taka töskuna með mér í vinnuna því ég átti flug strax morguninn eftir.

Að fara niður 75 gráðu halla, með tösku á hjólum og 20 metra á sekundum í bakið er nánast ómögulegt. Þarna var ég eiginlega komin með nóg af annars þessum gullfallega stað.

Komin með nóg af farfuglaheimilinu þar sem herbergið mitt var utan netsvæðis. Þar sem morgunmaturinn var með slepjulegu ólífrænu áleggi og án ávaxta. Komin með nóg af hrísgrjónagraut kl. 5 á nóttunni. Komin með nóg af RIGNINGU OG ROKI. Langaði heim.

Lagði af stað fljúgandi í öskrandi roki og beljandi regni þannig að það var ekki svefnfriður í flugvélinni. Það er svo óþægilegt þegar hausinn slæst alltaf við flugvélarvegginn og það endar með stóru mari. Maður sefur allavega ekki fast. Síðan húkkaði ég mér far (ekkert flug á laugardögum til Sönder sem passar) með ókunnugum manni í Roskilde og lét það eftir mér að sofa „undurfallega“ í aftursætinu, vel vitandi að hann væri að gefa mér auga í speglinum. Tel mig lukkunar pamfíl að hann hafi ekki stoppað og reynt að kyssa mig… Ég meina, ég bauð upp á það… fræðilega séð… með hálflukt augun og hálfopinn munninn. Undursamlega kynþokkafull að mínu mati.

Stundum er bara einum of gott að koma heim!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *