Við hjónin kusum…

Um daginn var ég á næturvakt á Gjörinu. Klukkan var rúmlega 6 og sátu tvær hjúkkur á spjallinu. Þær dásömuðu danska kóngahúsið og allt sem því fylgir og ég hlustaði með sívaxandi gæsahúð (þið ykkar sem hafið fylgst með mér í einhvern tíma, vitið að ég er síður en svo fylgjandi kóngahúsum). Að lokum stóðst ég ekki mátið og spurði ofurvarlega: „finnst ykkur kóngahúsið ekkert dýrt fyrir okkur skattborgarana?“

Nei, síður en svo! Þær settu í brýrnar og sögðu að forseti væri jafndýr, ef ekki dýrari!

Ég benti þeim á að, að öllu jöfnu ætti forseti ekki hallir út um allt land og að stórfjölskylda forseta væri ekki á svimandi háum launum til dauðadags fyrir að gera ekki handtak.

Tja, kannski ekki, svöruðu þær. En þeim fannst lýðræðið skipta miklu máli. Ef það væri kóngahús, þá væri lýðræði því það væru fleiri á þingi. Ef það er forseti er mikið minna lýðræði því hann er valdamestur og þingið er í raun aukaatriði. (Vil nú samt taka það fram að Danir eru ekki vitlaus þjóð þó svo að einstaka hafi ekki kynnt sér muninn á kóngahúsi og lýðræði).

Umræðuefnið „kóngahús“ er mjög viðkvæmt og vandmeðfarið í Danmörku. Og hvað þá kl. 6 á morgnana þegar maður þráir ekki neitt annað en rúmið sitt. Ég ákvað því að æsa mig ekki, heldur benti þeim nánast hvíslandi á að forseti væri kosinn af þjóðinni og hefði sáralítið vald. Þær sögðu bara „nåh“ og héldu áfram að tala um hvað konungsfjölskyldan væri falleg og fallega klædd. Ég stóðst ekki mátið og sagði að Henrik „kóngur“ væri skástur. Ég er ekki viss um þessar tvær vilji hjálpa mér á næstunni ef ég þarf að skipta vöktum.

En hvað með það, við vorum þó sammála um eitt… okkur þremur finnst lýðræði skipta máli.

800px-gaimard34

Þess vegna fórum við Fúsi og kusum í gær. Við vorum þau fyrstu í Sönderborg.

Fyrir mér hefur þetta alltaf verið svipað og að ganga inn í kirkju. Það kemur einhver hátíðleikastemming yfir mann. Maður fer í betri fötin, heilsar formlega og í stað þess að trampa, þá hálf læðist maður inn í kjörklefann.

Það gerir þó ekkert til að skreyta sig smá.

Það mikilvægasta er bara að láta ekki eins og þetta sé hversdagsleiki, við eigum að fagna lýðræðinu með blöðrum og söng. Svona svipað og við Fúsi gerðum í 18 tíma löngu ferli á snappinu alrun.

Og talandi um snappið, þá snúast lokaorð Austurgluggans um það í dag. Með sveitalegu ívafi. Þannig að drífið ykkur í Kaupfélagið og fjárfestið í aðal blaði Austurlands. Ykkur er líka alveg frjálst að klippa myndina af mér út og ramma inn, eins og mamma gerir.

Um helgina verðum við Fúsi síðan með snapp sem heitir islendingaruti og ætlum að nota hugmyndaflugið til að gera það svolítið skemmtilegt. Fúsa hlakkar mikið til.

En það allra mikilvægasta er samt sem áður að við nýtum okkar atkvæði til forsetakosningana og kjósum vel.

__________________________________________________________________________________________________

Fyrir Íslendinga búsetta í Sönderborg: 

Til ykkar kæru landar, sem ætlið að kjósa í forsetakosningunum.
Hægt er að skrifa til íslenska konsúlsins hérna í Sønderborg og „panta“ tíma, þar sem hann er ekki alltaf við á skrifstofunni . Hann heitir Torben Esbensen , email er te@esbensen.dk
Hann er oft við fram til kl. 18 á skrifstofunni sinni á Kongevej. Inngangur beint á móti Borgen.
Athugið að hann afhendir einungis kjörseðil, það er síðan okkar að koma seðlinum í póst og senda á viðeigandi sýslumann (síðasta skráða lögheimili á Íslandi).

Munið vegabréfið. 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *