Sauðburður í beinni

Lokaorð Austurgluggans í síðustu viku.

Sauðburður í beinni. 

Við höfum búið í Danmörku í 15 ár og í öll þessi ár hef ég ekki verið viðstödd fæðingu lambs. Og varla séð lítil lömb. Fyrr en nú.

Í 4 ár hef ég verið Snapchat notandi en Snapchat er vinsælt snjallsíma – samfélagsmiðlaforrit. Mörgum finnst það nú ekki gáfulegasta afþreyingin og hægt að verja tímanum í margt annað. En svona er nútíminn og með nútímanum koma möguleikarnir. Í vor hef ég séð óteljandi lömb koma í heiminn og fara á spena.

Þessa dagana er  eitt af fyrstu verkunum mínum á morgnana  að opna Snapchat og athuga hvort fæðst hafi lamb á Mýrum við Hornafjörð. Ef ekki, þá kannski í Skagarfirði. Jafnvel er einhver að bera í beinni  Í Þistilfirði þar sem litlu lömbin eru síðan ferjuð í lambarútu eftir endilöngum krónnum þegar verið er að hólfa niður og hagræða.  Lambarútan er útfærð og smíðuð af „reyndum bændum“ á Svalbarði í Þistilfirði.

Síðan horfi ég á ærnar kara lömbin á Jökuldal og ef veðrið er sæmilegt, fer ég alla leið upp í Hrafnkelsdal þar sem kunnugleg andlit aðstoða við að hólfa þær bornu af. Fyrir vestan fylgist ég með þegar vanið er undir. Í Þistilfirði hef ég einnig fræðst um slefsýki, einkenni hennar og meðhöndlun. Ég man nefnilega ekkert eftir að hafa heyrt um þessa sýki þegar  ég var á kafi í sauðburði á níunda áratugnum. Reyndar var ég bara krakki þá, en þó ekki alveg úti að aka. Nú get ég frætt ykkur um að það er gefin AB mjólk strax eftir burð til að fyrirbyggja slefsýki. Samkvæmt Snapchat.

Á Snapchat er líka möguleiki á að tengjast dýrunum tilfinningaböndum, hvort sem það er gemlingur að nafni Gísli eða kýr að nafni Kista. Kista bjó  í Kaldakinn við Skjálfanda og fannst mér agalegt þegar henni var lógað í haust. Já og mikið óskaplega er fallegt þarna, sérstaklega út í Bjargarkrók. Samkvæmt Snapchat.

Ég er reyndar ekki sú eina á mínu heimili sem fylgist með sauðburði í gegnum Snapchat. Vaski, íslenska fjárhundinum okkar finnst lambajarm afar athyglisvert og hljómfagurt enda liggur það í genunum að finnast það. Jafnvel þótt hann hafi ekki alist upp í kringum kindur. Hann er ekki eins hrifin af hestum í raunverulegri nálægð. Þó svo að þeir séu íslenskir. Stundum kíkjum við á þá þegar við förum í skóginn hérna í Sönderborg en þeir búa á sveitabæ í skógarjaðrinum.  Ef þeir sveifla taglinu fær Vaskur andlegt áfall og ef þeir fnísa, fær hann hreint og beint hjartaáfall. En sem betur fer hrekkur hann sjálfur í gang aftur. Það yrði nú saga til næsta bæjar ef ég þyrfti að fara að hjartahnoða íslenskan fjárhund vegna þess að íslenskur hestur snýtti sér! Þannig að í rauninni hentar hundinum ágætlega að horfa á þetta allt saman í gegnum Snapchat því þá eru þau í ákveðinni fjarlægð sem er að vissu leyti vissara.

Snapchat hefur hinsvegar einn galla og hann er sá að það er ekki hægt að finna lykt af því sem er verið að senda myndir og myndbönd af. Því er nú ver og miður. En með þessari öru tækniþróun geri ég fastlega ráð fyrir að því verði komið í lag fyrir næsta sauðburð næsta vor.  

IMG_0278

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *