Árið 2016

Hingað inn er ég mætt, á síðustu sentimetrum þessa árs. Því ætti ég sjálf að fagna! Inn á þetta ástkæra blogg mitt sem mér þykir svo vænt um en vanræki alltof mikið.

Á síðustu metrunum er við hæfi að gera upp árið, gera annál og stikla á stóru. Ég ætla að hafa þetta í yfirskriftum í stafrófsröð og undirtitlum og halda mig á alvarlegu nótunum með tilheyrandi myndum.

AFREK

  • Á vorönninni tók ég 4. hluta af klíníska kennara náminu og naut þess. Fannst gaman að gera ritgerðina og lagði mig alla fram. Fékk hæstu einkunn og í framhaldi af því setti leiðbeinandi minn mig í samband við frægan kenningarsmið innan kennslufræðanna þar sem ég tók þátt í að staðfesta að kenningar hennar virka í nútíma kennslu inn á deildum sjúkrahúsanna. Allt saman hljómar þetta afar vel og merkilegt. Við hittumst einu sinni á haustmánuðunum þar sem hún óskaði eftir nánara samstarfi en þar datt ég af hestinum eins og maður segir stundum. Ég hef ekki látið í mér heyra síðan.
  • Í mars lærði ég að hekla. Byrjunarstykkið mitt var teppi sem innihélt 120 dúllur og reiknaðist mér það til að ef ég heklaði eina dúllu á dag, yrði teppið tilbúið í seinasta lagi 6. júlí 2016. Jafnvel fyrr því suma dagana ætlaði ég að hekla upp undir 5 dúllur. Í dag 30. desember eru 6 dúllur tilbúnar og þyrfti helst að rekja 4 af þeim upp því það hefur eitthvað skekkst til í þeim.
  • 16. desember skilaði ég ritgerð fyrir 5. hluta klíníska kennaranámsins. Að klára þá ritgerð var fyrir mig mikið afrek. Allur áhugi og öll löngun til að skrifa ritgerð var flogin á brott og sat ég með þyngsli í kviðarholinu og barðist hatrömmum bardaga við að komast í gegnum þetta.

DAUÐSFÖLL OG FÆÐINGAR

  • Hvernig sem ég brýt heilann man ég ekki eftir neinum ættingja sem dó á árinu. En árið sem er að líða er engin undantekning frá undanförnum árum. Ótímabær dauðsföll bönkuðu upp á í ákveðinni fjarlægð og það merkilega er, að eftir því sem maður eldist, verða ótímabæru dauðsföllin í kringum mann fleiri. Það dauðsfall sem snart mig hvað mest var þó á sinn hátt tímabært en samt skellur.  Þann 10. nóvember vaknaði heimurinn við að Leonard Cohen var allur. Það var lítið annað á fóninum þann mánuðinn en hans rödd sem á eftir að lifa svo lengi sem leyfilegt er að spila tónlist.
  • Ég man ekki eftir neinni fæðingu, hvorki hjá fjölskyldu né nánum vinum.

FERÐALÖG

  • Í febrúar fórum við Fúsi til Íslands í heilar tvær vikur. Fyrri vikunni eyddum við á höfuðborgarsvæðinu, stálhress og kúltiveruð. Seinni vikunni eyddi ég mest í rúminu á Eiðum nær dauða en lífi. Ég fékk hita! Ég hringdi í lækni! Ég var nokkuð viss um að ég væri komin með kerfisbundna sýkingu því mér fannst þvagframleiðsla líkamans eitthvað grunsamlega lítil. Læknirinn sagði mér að drekka te og borða panódíl. Ég gerði það og fór síðan út… og varð enn lasnari. Drakk meira te og borðaði fleiri panódíl og fór aftur út. Missti í kjölfarið af langþráðu þorrablóti. Þarna lærði ég að fara ekki út í brunagadd með 39 stiga hita. IMG_4201
  • Í mars fór ég til Tönsberg í Noregi að vinna. Það var þá sem ég tók ákvörðun um að byrja að nota hjólahjálm aftur vegna þess að ég var með „ungan“ mann um 60tugt sem hafði dottið hjálmlaus af hjóli. Það átti að útskrifa hann á elliheimili í ástandi sem oft er kallað grænmeti við fyrsta tækifæri. Á elliheimilinu myndi síðan taka við bið eftir lungnabólgu til að hægt væri að ljúka þessu lífi.  Það var líka þá sem ég heklaði 3 af 6 tilbúnum dúllum.
  • Um páskana fórum við fjölskyldan til Hamburg. Það eftirminnilegasta úr þeirri ferð er líklega þegar Svala mín dró mig á fætur við sólarupprás á páskadag til að fara á Fischmarkt. IMG_5204
  • Í apríl fór ég til Elverum í  Noregi en ekki til að vinna heldur í hreina fyllerísferð. Við æskuvinkonurnar úr Þinghánnum vorum að halda upp á að við værum allar komnar á fimmtugsaldurinn og því var 5 daga fyllerí tilvalin leið til þess.603103_10151370891851368_1333478948_nÞessi mynd var tekin þegar við hittumst í Elverum árið 2006. Við höfum lítið breyst síðan.
  • Í júní fór ég til Bergen í Noregi til að vinna og gekk ósofin á Ulrikken eldsnemma morguns eftir síðustu næturvaktina. Komst að því í þeirri göngu að ég er mögulega með astma og einhversskonar gigt annað slagið.
  • Í júlí fór ég til Íslands með frumburðinum. Við eyddum nokkrum dögum í Eyjafirðinum og restinni fyrir austan. img_5993
  • Í September fór ég til Bergen í Noregi til að vinna og eignaðist nýtt áhugamál í leiðinni eða kannski réttara sagt, fékk þráhyggju fyrir byggingarkrönum.
  • Í Oktober fórum við Fúsi og Vaskur til Svíþjóðar að heimsækja Lillu frænku og Lars.

img_6619

Það var í þeirri ferð sem Vaskur missti kló og þurfti að binda um loppuna í um tvær vikur.

img_6845

  • Í nóvember fór ég til Stavanger í Noregi til að vinna. Ég eyddi næstum jafnmiklum tíma í Sandnes hjá Ingunni litlu frænku og fjölskyldunni hennar og í vinnunni. Þannig að þetta var mjög góð ferð.
  • Í desember fórum við Fúsi og Svala til Parísar til að heimsækja Aldísi. Eins og hefðbundnum túristum sæmir skoðuðum við merkisstaði og byggingar, fórum á safn og á óteljandi veitingarstaði. 2016-12-10-16-47-44

Fleiri voru utanlandsferðirnar ekki í ár, ef frá eru taldnar allar dagsferðirnar til Þýskalands þar sem bæði var var farið í klifurgarð, Ikea, gönguferð og óteljandi skemmtiferðir til Flensburg til þess eins að heimsækja veitingarstaði, kaffihús og fá hlátursköst, oftast í félagsskaps Ágústu en líka með fjölskyldunni.

FJÖLMIÐLAR

Árið 2016 hef ég ratað óvenju oft í fjölmiðlana miðað við áður. Þar má nefna:

  • Austurgluggann með mín föstu lokaorð á nokkurra vikna fresti
  • Austurgluggann í opnu viðtali
  • Fréttablaðið vegna snappsins Íslendingar í útlöndum (islendingaruti)
  • Rás2 vegna þess sama
  • DRP4 (útvarp) vegna fótboltaleiksins í sumar þar sem við hituðum upp í innkeyrslunni okkar.
  • Austurfrétt með hitt og þetta.

FJÖLSKYLDAN

  • Fúsa hrakar jafnt og þétt. Heyrnin verður verri með hverjum deginum, sem og sjónin. Hárið þynnist og hásinin er söm við sig. Miltað hefur sem betur fer ekki böggað hann í dágóðan tíma og rifbeinin gréru vel. Þó þarf líklegast að leggja hann inn á sjúkrahús á nýju ári og verður líklegast snappað vel um það, hvort sem hann vill eða ekki.
  • Aldís flutti til Le Vesinet  í ágúst til að vinna sem au-pair hjá franskri fjölskyldu. Hún elskar að vera þarna og spókar sig um í París næstum daglega.
  • Svala er á þriðja og síðasta ári í menntaskóla og stendur sig með prýði.
  • Vaskur á afmæli í dag (31/12) og pissaði á stofugólfið rétt fyrir miðnætti í tilefni dagsins. Flugeldarnir urðu honum ofviða.

GESTIR

  • Í maí kom Baldur Lomm með sína fjölskyldu
  • Í júní kom Elvar Lomm með sína fjölskyldu
  • Í ágúst kom Ásta Lomm með sína fjölskyldu

Okkur fannst mjög gaman að hafa eitt svona Lommasumar.

  • Einnig komu Jón tengdó og Sigga konan hans í júní.
  • Og nú rétt fyrir jólin nutum við þess heiðurs að fá mömmu, Magga bróðir og gaurana hans sem héldu jólin hátíðleg með okkur.

img_7091

TÓNLEIKAR

Árið var óvenju tónleikalítið hjá okkur hjónum en þó er mikil bót í máli að þeir tónleikar sem við fórum á voru allir mjög góðir.

  • Ég fór á Óskalagatónleika Óskars Péturssonar í Fjarðarborg. Ég fæ enn fiðring í vissa staði við tilhugsunina um þegar hann söng lagið Dagný beint til mín. Það sem þessir gömlu kallar geta haft áhrif…
  • Við fórum á Reykjavík projekt í Flensburg þar sem Egill Ólafsson, Ragnheiður Gröndal og Heinz Ratz sungu og spiluðu af fingrum fram. Það var þá sem ég varð svo bullandi bílveik á leiðinni heim því „Sóldögg“ keyrði svo glannalega. Bílveikin hafði ekkert með hvítvínsdrykkju í lítratali okkar frænkna að gera!
  • Í desember fórum við á Best of Bowie í Sönderborg. Ekki voru væntingarnar miklar en vá hvað var gaman.

SKEMMTUN

  • Sú skemmtun sem stendur upp úr á árinu er 50tugs afmæli Stínu vinkonu þar sem mér var sýndur sá heiður að vera veislustjóri. 13615079_10209876962223563_1028974109734960746_n

Í öllu annríkinu í júní mánuði tókst prjónaklúbbnum að sjóða saman afmælisvídeó fyrir Stínu okkar sem sýnir dæmigerðan dag í lífi hennar.

  • Snapchattið hefur vaxið og dafnað á árinu og það hljómar kannski einkennilega fyrir þá sem ekki þekkja til, en samband við ættingja og gamla vini hefur endurnýjast og styrkst í gegnum það, ásamt því að ný tengsl hafa myndast. Við Vaskur tókum einn dag á hundasamfélaginu þar sem „hárið“ á Vaski var klippt og litað. Seinna var ég með Íslendingar úti snappið þar sem við Ágústa með Fúsa á hliðarlínunni sprelluðum á brókinni í þrjá daga og gerðum okkar besta til að sýna Sönderborg (og Flensburg) í sinni bestu mynd. Snappið hefur einnig ratað í fjölmiðla og þar má t.d. nefna Fréttablaðið, Austurgluggann og Rás2.
  • Omaggio! Nú undrist þið líklega að ég hafi vasa undir flokknum Skemmtun. Í dag er Omaggio minn 1 árs og eins vikna. img_7147

Þessi vasi sem í upphafi var afar óvelkominn inn á heimilið en vann hug minn og hjarta innan fárra mánaða. Þessi nú heittelskaði vasi sem hefur valdið því að upphrópunin „oh my god…“ – er nú orðin „omaggiooo“, hefur gengið í gegnum hverja útlitsbreytinguna á fætur annarri og er eftirsóttari en sveittur bolur Ronaldos á meðal almennings. Á núverandi útliti skartar hann Dyrfjöllunum, Stórurð, Gagnheiðinni, Strandartindinum og Seyðisfirði þar sem glitrar á síldina.

Ef áhugi er fyrir að fylgjast nánar með lífi Omaggio er snappið mitt alrun.

Kæru lesendu, kæru vinir.

Gleðilegt ár og takk fyrir árið sem er að líða.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *