Páskaferð til Hamburg

Sælt veri fólkið.

Vonandi voru páskarnir ykkur ánægjulegir.

(Það er svo langt á milli færslna hjá mér að ég eldist áberandi mikið með hverri færslu og heilsa eftir því).

Ég datt í lukkupottinn og var í heljarinnar löngu fríi. Svo löngu að mér fór að leiðast og lagði til að við fjölskyldan færum í utanlandsferð. Fjölskyldan mín segir ekki nei við slíku boði.

Eftir að hafa skoðað löndin í kringum okkur, varð Þýskalandi fyrir valinu, nánar tiltekið Hamburg. Þar var allt opið sem þurfti að vera opið og engin hætta á að við sveltum sárum sulti.

Á fimmtudaginn var tekin ákvörðum um að fara og hvert. Á laugardagsmorguninn héldum við af stað.

Ég hafði bókað hótel í St. Georg hverfinu sem er hinumegin við lestarstöðina.

IMG_4993

Ekki að við nýttum okkur lestirnar neitt að ráði, enda við með tvær jafnfljótar, ef ekki fljótari.

Laugardeginum var eytt í rölt.  Já nei nei, við versluðum ekkert. Ekki baun í bala. Hver sem nú trúir því. Þrátt fyrir að við gengum upp og niður Mönckebergstrasse. Og fram hjá Europa Passage þrisvar. Já nei, eins og ég hef marg oft sagt ykkur, fæ ég höfuðverk, hjartaverk, bakverk, magaverk, mjaðmaverk og fótaverk bara við tilhugsunina um verslun í svona aðstæðum. Ég tilkynnti stelpunum að þar sem þær væru nýbúnar að vera í London og Berlin hefðu þær ekkert inn í búðir að gera. Þær gengdu. Fúsa sagði ég bara að halda sig við hliðina á mér. Hann gengdi líka. Eins og alltaf alla daga. IMG_5104

Hamburg er næst stærsta borg Þýskalands og áttunda stærsta borg Evrópu. Það búa um 1,7 milljónir í sjálfri borginni og á svæðinu búa um 5 milljónir.

IMG_5062

Hamburg er efnaðasta borg Þýskalands og ber þess greinileg merki. Hver byggingin af annarri glæsilegri, hvort sem hún er ný eða gömul.

IMG_5085Hér sést St. Nikolai turninn sem verið er að lappa upp á þessa dagana. Frá 1874-1876 var hann hæsta bygging heims. Í seinna stríðinu vörpuðu bandamenn eldsprengjum á borgina og dóu um 30.000 manns í þeirri árás. Kirkjan varð fyrir einni en eftir stóð þó turninn. Ég stóð þarna í töluverða stund, hallaði mér aftur, horfði á turninn og þakkaði fyrir að vera ekki múrari. Eða stillansa-samansetjari.

Hamburg hefur fleiri brýr en Amsterdam, Feneyjar og London til samans. Brýrnar eru um 2500.

IMG_5077

Þetta „æði“ sést á flestum brúm út um alla borg. Hversu mörg kíló eru t.d. á þessari brú?

IMG_5169

Eða á þessari niður á Landungsbrücken? Við skulum vona að verkfræðingarnir hafi á sínum tíma gert ráð fyrir fleiri tugi þúsunda hengilása úr járni þegar þeir reiknuðu út burðarþolið árið 1839. Persónulega finnst mér þetta klént og lýta brýrnar. Og ætla ekki að hafa fleiri orð um það þótt ég gæti svo sem skrifað heila færslu um fyrirbærið og þá á neikvæðu nótunum.

Þegar þetta rölt allt var yfirstaðið fórum við út að borða á Lange Reihe. Þar sem við kinkuðum kolli til fólks á næstu borðum og „guten Appetit“ var muldrað til hægri og vinstri. Það eru allir svo kurteisir í Hamburg. Fólk kann sig. IMG_5135

Ég hafði vit á því að panta hótel með góðum koddum og spa-i. Eftir kvöldmatinn fórum við í djúsí sloppa og slöppuðum af í gufu og sauna.

Ég er vön sauna og veit vel að þangað inn fer maður ekki í sundfötum, ekki heldur í gulu jarðarberjabikini eins og ég hafði pakkað í töskuna. En ég er vön að vera bara með kynsystrum mínum og brá mér því nokkuð í brún þegar ég opnaði saunaklefann og sá typpalinginn hanga niður með bekknum.

Ég skellti neðri kjálkanum á sinn stað, tók utan af mér handklæðið, breiddi það út og lagðist endilöng til hliðar við manninn. Veit nefnilega að ég lít betur út liggjandi en sitjandi. Mikið betur. Maðurinn byrjaði að stynja og strjúka sér en ég tók því ekki persónulega því af fenginni reynslu veit ég að þetta er tilheyrandi sauna hegðun. Ég fór nefnilega einu sinni í sítrónusauna hjá saunagúru í Esbjerg og ég var eina konan (þar voru reyndar allir í sundfötum). 12-15 karlmenn stundu, struku sér og bjuggu til einhversskonar jógahljóð neðan úr kviði. Eftir u.þ.b. 10 mínútur var mér orðið svo óglatt að ég varð að fara út og ég get sagt ykkur að ég var ekki vinsæl. Það má nefnilega alls ekki opna hurðina í þessháttar gjörningi. Alls ekki punktur.

En þarna í þessu spa-i slöppuðum við af, lásum bækur og borðuðum vínber.

Seinna þegar ég var lögst á himneska hótelkoddann hringdi síminn minn. Það var Svala úr næsta herbergi sem hafði fengið þá hugmynd að fara á Fischmarkt í dagrenningu. Þessi fiskimarkaður er opinn frá 05:00-09:30 á sunnudagsmorgnum allt árið um kring og þótt hann heiti Fiskimarkaður, þá er þetta hefðbundinn markaður með tilheyrandi básum, hrópum og köllum. Þetta er eitt af sérkennum Hamburgar.

Ég sagði við Svölu: „jú jú elskan mín, ég skal koma með þér…“ 

Úff.

Klukkan var orðin margt og vitandi að nóttin yrði klukkutíma styttri (vegna sumartímans), var ég viss um að Svala myndi gugna og að ég fengi að sofa frameftir í þessu guðdómlega rúmi. Ég hafði líka náð fjarstýringunni af Fúsa eftir þó nokkurn barning en það stytti svefntímann töluvert. Já hvað er málið með svona gaura eins og hann Sigfús og hótelsjónvörp??? Zappandi hring eftir hring fram á miðja nótt? Og það eru einungis þýskar stöðvar og múslímastöðvar. Hann skilur hvorki þýsku né múslímatungumál. Samt zappar hann?

En eldsnemma hringdi síminn. Það var Svala hin hressa. Hún gaf mér 20 mín til að hafa mig til og þegar ég drattaðist niður í lobbý, sat hún þar, búin að finna út úr lestarkerfinu og spotta lítið bakarí.

Nú spyrjið þið ykkur: „Afhverju fóru Fúsi og Aldís ekki með á markaðinn í dagrenningu?“ 

Aldís var lasin og Fúsi uppgefinn eftir næturlangt zappið.

IMG_5152

Við Svala áttum frábæra morgunstund með fólki úr öllum áttum: ferðalöngum eins og okkur, bæjarbúum að versla í matinn, djömmurum beint af Reeperbanen og ýmsum öðrum.

Þarna var söngur og spil í hverjum krók og kima.

IMG_5165

Þessir sungu t.d. Sie sind schön hástöfum og horfðu djúpt í augun á okkur. Við bráðnuðum eins og smjör í heitri sólinni.

Eftir að hafa farið í spa-ið aftur fyrir hádegi og borðað hádegismat á Café Paris, settist Svala litla undir stýri og rúntaði með okkur í rigningunni út um alla Hamburg. Meðal annars skoðuðum við Speicherstadt, Elbphilharmonie (tónlistarhúsið þeirra), Reeperbahnen og Grosse Freiheit (gatan þar sem Bítlarnir slógu í gegn).

IMG_5204

IMG_5115

IMG_5095

12911001_1114963838545725_1104568275_n

Auf Wiedersehen

Og um leið minni ég á Snapchattið mitt: alrun (Dagny Saevars)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *