Árið 2022

alrún púnktur komm er á lífi. Jú jú … Bara í dvala, bara í dvala. 
Rumskaði til þess eins að hripa niður árið 2021

janúar

Í janúar fór ég í dagsferð til Kaupmannahafnar til að hitta Aldísi og Svölu. Ég fór líka í sumarbústaðaferð yfir helgi með góðum vinkonum. Annars bara rólegheita mánuður. 

Bækurnar sem ég las voru:

 • Undskyldningen / Hanne-Vibeke Holst
 • Spejlmanden / Lars Kepler
 • Hvunndagshetjan / Auður Haralds
 • Systumegin /Steinunn Sigurðardóttir
 • Arnaldur Indriðason deyr / Bragi Páll

febrúar

Við héldum upp á afmælið hans Fúsa í Aarhus yfir helgi á góðu hóteli, fórum á Moesgaard safnið og prófuðum floating. Sáum líka Vildmand í bíó með Kúltúrklúbbnunum.
Eftir þessa helgi tók við krabbameinsferli hjá Fúsa en hann greindist með krabbamein undir tungunni. Það var afgreitt fljótt og örugglega með aðgerð. Þegar ég opnaði bloggsvæðið mitt, sem ég hef ekki gert síðan í mars, sá ég að það var til færsla um þetta ferli, sem aldrei fór út. Hún er hér.

Bækurnar sem ég las voru:

 • Lageret, huset, Maria /Jonas Eika
 • Stóra bókin um sjálfsvorkun /Ingólfur Eiríksson
 • Dansarinn /Óskar Guðmundsson

mars

Við vorum viku í sumarbústað við Holbæk á Sjálandi með stelpunum, tengdasyninum, mömmu og bróðursonum mínum.

Bækurnar sem ég las voru:

 • 60 kg af kjaftshöggum /Hallgrímur Helgason
 • Svinehunde /Lotte og Søren Hammer
 • Meter i sekundet /Stine Pilgaard

apríl

Fúsi fór til Englands í viku. Fúsi, Svala og ég fórum til Búdapest yfir helgi.
Söluferlið á Møllegade 21 hófst með því að fá þrjár mismundandi fasteignasölur í heimsókn. Við völdum Home.

Bækurnar sem ég las voru:

 • Svínshöfuð / Bergþóra Snæbjörnsdóttir
 • Minn hlátur er sorg / Friðrikka Benónýs
 • Bøn for Tjernobyl / Svetlana Aleksijevitj
 • Útlaginn /Jón Gnarr
 • Natrium Clorid / Jussi Adler-Olsen
 • Norske løve / Jógvan Isaksen

maí

Mánuðurinn fór að mestu í að snurfusa húsið okkar fyrir sem minnstan pening til að gera það klárt fyrir myndatöku og sölusýningar. Það þurfti líka að taka á móti fólki sem kom til að gera ástandsskýrsluna, orkuskýrsluna ásamt fleirum sem komu að sölunni.
Við fengum góða gesti frá Noregi yfir helgi í lok mánaðarins.

Bækurnar sem ég las voru:

 • Farangur /Ragnheiður Gestdóttir
 • Brosað í gegnum tárin / Bryndís Schram
 • Kløe / Fríða Ísberg

júní

Við seldum húsið okkar og keyptum annað á aðeins 10 dögum! Júní byrjaði því sérlega vel.
Um Hvítasunnuhelgina fórum við til Kaupmannahafnar. Dagskráin bauð upp á 25 ára afmæli lillunnar okkar, óperu í Óperunni, fermingu og húsaskoðanir. Við vorum með fjögur hús á listanum, öll í og við Køge. Það fjórða og síðasta fékk að vera með því ég vildi vera viss um að það væri ekkert fyrir okkur. En það reyndist vera húsið á Elverhøjen sem við kollféllum fyrir. Hvítasunnuhelgin endaði á óvæntasta og skemmtilegasta partýi ársins hjá góðum vinum í Sønderborg. 
Söluferlið í kringum Møllegade var stórskemmtilegt og ég elskaði að taka til, gera hreint og fínt. Við máluðum ekkert og það eina sem ég keypti fyrir myndatöku og sýningar, voru þrjár plöntur á tilboði, sem dafna núna hjá okkur á Elverhøjen. En við vorum þreytt eftir þetta hektíska ferli og því var tveggja vikna sumarfrí í júní kærkomið. Tveimur dögum fyrir frí, settumst við niður með Google Maps og skipulögðum ferðalagið. Viðkomustaðirnir urðu Köln, Ingelheim við Rhin, Trooz í Belgíu og Amsterdam.  Þessi rúma vika var mjög góð og nærandi, við fórum á nokkuð mörg söfn, siglingar og þefuðum uppi góða matsölustaði. Reynslunni ríkari ákváðum við að ferðast helst ekki aftur um á þessum slóðum að sumri til. Hitinn var of mikill.
Í lok júní fórum við í stúdentaveislu og í bíó á Elvis Presley myndina. 

Bækurnar sem ég las voru:

 • Læknamafían / Auður Haralds
 • Elías /Auður Haralds.

júlí

Það markverðasta sem gerðist í júlí, var að Aldís kom í heimsókn og hjálpaði mér að fara í gegnum öll gömlu barnafötin og gömlu fötin mín. Við dunduðum okkur við þetta á bakvið hús í góðu veðri. Síðasta Flensburgarferðin (í bili) með Ágústu var farin. Eitthvað sem við höfum átt saman í mörg ár.
Fúsi og Svala fóru til Íslands. Ég valdi að vera heima.

Bækurnar sem ég las voru:

 • Meydómur / Hlín Agnarsdóttir
 • Ofvitinn /Þórbergur frændi Þórðarson
 • Í Unuhúsi / Þórbergur frændi Þórðarson
 • Nágrannavarsla /Unni Lind

ágúst

Við héldum kveðju/afmælisveislu á mánudeginum þann 1. ágúst. Enn og aftur sannast að það skiptir engu hvaða vikudag einhverju er fagnað. 51 gestum var boðið og 41 mættu. Veðrið lék við okkur í bakgarðinum á Møllegade – fyrrverandi húsinu okkar sem hentar svo vel til viðburða utandyra. Ég ítrekaði það líka við nýju eigendurna og útlistaði hvar og hvernig á lóðinni væri best að halda veislur og partý, allt eftir fjölda og veðri. Ég vona að þau eigi eftir að njóta þess jafn mikið og við gerðum.
Við fengum líka gesti frá Íslandi í ágúst – þá fyrstu það árið.
Þann 15. ágúst fórum við til Sjálands til að taka við Elverhøjen og ég fór í, það sem ég hélt að væri atvinnuviðtal, á gjörgæslunni í Køge. En það reyndist bara óformlegt spjall um hvernig ég vildi hafa vaktirnar og þess háttar. Þetta var það auðveldasta atvinnuviðtal sem ég hef farið í síðan 2008.
Annars vörðum við síðustu vikunum í að pakka niður og gera húsið klárt til afhendingar.

Bækurnar sem ég las voru:

 • Þernan /Nita Prose
 • Anna frá Stóruborg / Jón Trausti
 • Om hundrede aar / Anna Elisabeth Jessen

september

Við skúruðum okkur út úr Møllegade í byrjun kvölds þann 4. september, lokuðum og læstum gámnum og tékkuðum okkur inn á Alsik hótel í Sønderborg. Okkur fannst vel við hæfi að kveðja bæinn á þann háttinn með tilheyrandi útsýni og afslöppun. Þann fimmta afhentum við nýju eigendunum húsið og héldum á vit nýrra ævintýra á Sjálandi.
Veðrið hafði leikið við okkur allan ágúst og hélt því áfram í september sem gerði allan flutninginn mikið auðveldari.

Fúsi byrjaði í nýju vinnunni þann 7. september og ég naut þess að vera heima allan mánuðinn enda með Vask í aðlögun á nýju heimili og umhverfi. Við fengum mikið af góðum gestum í september og hæst bar þegar Aldís og Greg ásamt frönskum vinum þeirra komu eina helgina og við fórum á fótboltalandsleik í Parken.

Um miðjan september fór ég til Íslands í fyrsta skipti í næstum 10 mánuði. Ástæðan var jarðarför hálfbróður míns á Akureyri sem lést úr krabbameini. Mér tókst að nýta ferðina vel og fór meðal annars í Skógarböðin, niður í Loðmundarfjörð og Seyðisfjörð, á mjög góða tónleika með Mugison og margoft í berjamó.

Bækurnar sem ég las voru:

 • Undir yfirborðinu / Freida McFadden
 • Höggið / Unnur Lilja Aradóttir

október

Ég byrjaði að vinna á gjörgæslunni á háskólasjúkrahúsinu í Køge og fannst gott að koma á gjörið aftur eftir að hafa verið á vökudeild í 18 mánuði. Þremur mánuðum seinna er ég enn ánægð.

Það héldu áfram að koma gestir héðan og þaðan og þess á milli héldum við áfram að koma okkur fyrir. Við fórum líka á tónleika með Sigur Rós í KB hallen.
Við Svala fórum saman á Arken; listasafn í Ishøj. Það er skemmtilegt og yfirstíganlegt safn.
Fyrsti hverfahittingurinn var á sjálfri hrekkjavökunni. Börn og fullorðnir hittust við varðeld í einum garðinum frá klukkan fimm til sex og grilluðu puslur og meððí. 

Bækurnar sem ég las voru:

 • Ástarsaga /Steinunn Ásmundsdóttir
 • Hvor flodkrebsene synger / Delia Owens

nóvember

Fyrstu helgina í nóvembermánuði fór ég til Stokkhólms að heimsækja Aldísi og Greg. Það hélt áfram að vera gestkvæmt hjá okkur og meðal annarra kom mamma og var hjá okkur í viku.
Við Svala fórum á frumsýningu nýju myndarinnar hans Hlyns Pálmasonar; Volaða land. Ég lyftist svolítið upp í sætinu þegar skyndilega var kallað: „Snæsa“ í myndinni og þegar ég fór að horfa betur, reyndist þetta vera mín gamla vinkona þarna á hvíta tjaldinu. En hún og maðurinn hennar spiluðu stórt hlutverk við tökur á myndinni ásamt því að leika í henni. 

Bækurnar sem ég las voru:

 • Aprílsólarkuldi / Elísabet Jökulsdóttir
 • Tálsýn / Rannveig Borg Sigurðardóttir

desember

Og gestagangurinn hélt áfram. Margir höfðu haft áhyggjur af að okkur myndi leiðast á Sjálandi, eigandi enga vini hér, en það hefur verið af og frá. Við höfum lítið verið ein. Pabbi kom til okkar í viku og Aldís, Svala og Greg héldu jól hjá okkur. Þetta voru þau bestu og mestu rólegheitajól í mörg ár. 
Á aðventunni var annar hverfahittingur en í þetta sinn var það hið hefðbundna jólaglögg og eplaskífur frá klukkan tvö til fjögur. Hverfið okkar virðist sallafínt.
Í desember var farið í bíó á Avatar og Elsker dig til tider. Bíóið í Køge er stórgott og er með sýningar frá morgni til kvölds.
Áramótin voru fullkomin, bara við þrjú og ég farin að sofa upp úr tíu. 

Bækurnar sem ég las voru:

 • Sláturhús 5 / Kurt Vonnegut
 • Ég og Jóhanna / Jónína Leósdóttir

Það sem árið kenndi mér, er að spara í því smáa líka. Orkukreppan skall á og í fyrsta sinn á mínum fullorðinsárum. Skyndilega fór hvert kílówatt að skipta máli í stóra samhenginu. Ég fór að vera duglegri að nota lok á potta og pönnur við eldamennskuna, slökkva fyrr á ofninum og nýta eftirhitann, slökkva á sjónvarpinu um leið og ekki er verið að horfa á það, slökkva á innstungunum (taka úr sambandi, t.d. hleðslutækin), minnka vatnsnotkun enn meira og þvo þvott og leirtau eftir því hvenær rafmagnið er ódýrast, sem er oftast á nóttunum. Já og draga fyrir gluggana á kvöldin. 

Áramótaheitið í ár er að eignast eitthvað af svörtum fötum. Það var reyndar líka áramótaheitið 2022 en ég náði því alls ekki. Þetta kom til þegar ég var stödd í garðveislu hjá vinum okkar fyrir 2-3 árum síðan og ein frúin hrósaði mér fyrir litríkan kjólinn minn og sagði að við(VIÐ)ættum að vera duglegri að ganga í litum. Ekki alltaf bara velja svart.
Þetta fór þveröfugt ofan í mig og ákvað ég þarna að hætta að ganga í litum – sem hefur síður en svo tekist. Þegar ég keypti mér föt um daginn varð græn dragt með ljósum blómum fyrir valinu og bol, alsettan túlipönum og fuglum í öllum regnbogans litum.
Svona ganga áramótaheitin mín.

3 Responses to “Árið 2022

 • Takk fyrir frænka min

 • Sigríður Hinriksdóttir
  1 ár ago

  ??

 • Halldór Jóhannsson
  1 ár ago

  Sæl og blessuð 🙂
  Gaman að lesa,en guð minn góður hvað þú ert mikil bókaormur 😉
  Kærar kveðjur.
  Halldór Jóh.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *