AFTUR?

Það lýgilega gerðist á dögunum að Fúsi greindist með krabbamein í munni – nánar tiltekið í tungunni. 

Þið spyrjið eflaust praktískrar spurninga og þess vegna svara ég þeim með det samme. 

Hvernig uppgötvaðist þetta?

Fúsi fór til tannlæknis til að láta gera við rótarfyllingu. Tannlæknirinn sá blett undir tungunni og sendi hann til sérfræðinga í Esbjerg. Esbjerg tók sýni, rannsakaði það og sendi til spítalans í Odense (héreftir OUH (Odense universtitetshospital)). OUH setti Fúsa í það sem kallað er accelerated ferli sem útlegst líklega sem hraðferli en það er alltaf gert ef minnsti grunur leikur á krabbameini. 

14. febrúar fór Fúsi til OUH í skoðun og tóku þeir nýtt sýni.

18. febrúar kom svarið úr sýninu sem sýndi að þetta væri krabbamein. Fúsi fékk líka áframhaldandi plan sama dag:

  • 22. febrúar: Jáeindaskönnun (PET), tölvusneiðmyndataka og undirbúningur fyrir aðgerð.
  • 23. janúar: Svarið úr jáeindaskannanum og lokaundirbúningur fyrir aðgerð.
  • 1. mars: Aðgerð. 
  • 9. mars: Skoðun á skurðunum og lokasvar.

Við erum talsverðir reynsluboltar í svona ferli og vitum að það hentar okkur vel að gera þessa hluti saman. Þess vegna fórum við saman til OUH þann 22/2. Við áttum að mæta klukkan korter i sjö. Engin bið og allt gekk smurt. Á meðan Fúsi var í PET skannanum, sem tekur um tvo klukkutíma, drakk ég kaffi í morgunsólinni og talaði í símann við alla ættingjana sem voru vaknaðir. Þeir voru þrír talsins. 

Eftir skannann var  tekið röntgen af tönnunum, tannlæknaskoðun, blóðprufur, hjartalínurit og viðtal við talþjálfa. Þetta síðastnefnda kom eins og vægt högg í magann. Allt hafði gerst svo hratt sem gerði það að verkum að OUH náði ekki að senda dagskránna til okkar og vissum við því ekki að Fúsi ætti að tala við talþjálfa á þessum tímapunkti. Alvarleikinn rann enn meira upp fyrir okkur. 

Daginn eftir fengum við svar úr Jáeindaskannanum sem ekki hafði sýnt sýnilega dreifingu á krabbameininu. Eftir það töluðum við við svæfingarlækni og þá var Fúsi tilbúinn fyrir aðgerð, praktískt séð. 

Það hefur margt fólk undrað sig á að það skuli vera hægt að fá krabbamein í munninn. Það er hægt að fá krabbamein nánast allsstaðar í líkamann þar sem frumurnar geta allsstaðar ruglast vegna einhverskonar áreitis sem orsakar rugling.

Krabbamein í munni orsakast í langflestum tilfellum af reykingum og eða áfengisdrykkju.
Fúsi hætti að reykja fyrir um 10 árum síðan.

Aðgerðin þann 1. mars gekk vel og Fúsi gisti eina nótt á OUH í góðu yfirlæti á einkastofu með útsýni yfir á kvensjúkdómadeildina og stofu 6 þar sem ég lá einu sinni. Er það ekki svolítið kaldhæðnislegt?


Heimsóknin á OUH þann 9. mars kom vel út. Krabbameinið reyndist á fyrsta stigi og meðferð er lokið. Hér eftir er eftirlit á þriggja mánaða fresti hjá krabbameinslæknunum. Nú þurfum við bara að samræma eftirlitin okkar því eins og er, skarast þau. Og reiknast mér rétt, eigum við eftir að fara samtals í fimm eftirlit það sem eftir er af árinu. Sem er bara alveg út í hött! 

Ruglaða líf
Krumpaða líf
Klístraða líf

Þessi greining kom okkur algjörlega í opna skjöldu. Hvernig í ósköpunum gátum við bæði, svona ung, fengið krabbamein? Og bæði upplifað heilsu okkar og tilveru ógnað á þennan og á sama hátt? Þetta er enn ein krabbameinsgreiningin innan fjölskyldunnar og oft finnst mér ég vera að kafna í krabbameini. Og þegar svona er, er drulluþungt að þurfa að hringja í börnin sín og foreldra til að tilkynna þeim slíkar fréttir. Mér finnst þetta ósanngjarnt sem er ný tilfinning því mér fannst það ekki um mitt krabbamein, þá var ég bara hluti af tölfræðinni og ég sætti mig við það. Síðan þá höfum við gert svo margt til að forðast slík veikindi. Reynt að lifa heilbrigðu líferni og sérstaklega með það í huga að fyrirbyggja krabbamein. Reynt at haga okkur eins Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin, danska matvælastofnunin og Krabbameinsfélagið mæla með. 

Á sama tíma finn ég fyrir endalausu þakklæti og feginleik gagnvart heilbrigðiskerfinu þar sem við upplifðum okkur aftur í frjálsu falli en kerfið strax kom til bjargar með því að strekkja undir okkur öryggisnet og grípa okkur. Heimilislæknirinn okkar hafði samband við Fúsa við heimkomu og lét vita að þau séu til staðar og sömuleiðis þeir aðilar sem koma að endurhæfingu en þeir voru tilbúnir með tíma og plan strax eftir útskrift.  

Það er geggjað að fá undir sig öryggisnet en ég vil bara ekki vera í því lengur en þörf krefur. Ég þoldi ekki að ganga um gangana á OUH í þetta skipti. Allsstaðar mætti ég fólki sem var sýnilega veikt, sat í hjólastól eða ýtti á undan sér barnavagni með vökvastöng og tilheyrandi dælum og vökvum. Í þetta sinn var ég aðstandendi og því meira ráfandi um gangana, meira bíðandi, sem gerði það að verkum að ég tók meira eftir umhverfinu í kringum mig. Ég vil ekki vera hluti af þessu umhverfi – hvorki sem sjúklingur né aðstandendi. 

Ég hef ekki sömu þörf fyrir að tala um undanfarið ferli eins og ég hafði þegar ég var sjálf að standa í mínu. Núna hef ég lítið að segja enda lítið að tala um. Þetta kom, við fórum vel og rútinerað í gegnum þetta og þetta er ekki búið. Svona klárast aldrei. Að mínu mati er akkúrat ekkert hamingjulegt, lærdómsríkt né þroskandi við þessa greiningu. Hún er bara tærandi og slítandi. Ég get ekki samglaðst öllum þeim sem gleðjast yfir að meinið var „bara“ á fyrsta stigi. Þetta var bara einum mikið. Við erum löngu búin með okkar pakka að okkar mati.

Að lokum fær að fylgja lítil dæmisaga úr fortíðinni.

Árið 2003 var ég stödd á taugalækningadeild í mínu allra fyrsta verknámi á sjúkrahúsi. Ég, ásamt kennaranum mínum vorum með stofu þar sem ung kona. langt leidd af MS, lá. Einn daginn þegar ég var að vinna var komið að loka andardrættinum og maðurinn hennar, ásamt dætrum þeirra tveimur, sem þá voru á svipuðum aldri og okkar dætur, sem sagt bara litlar stelpur, voru algjörlega niðurbrotin og grétu hátt. Ég nánast hélt niður í mér andanum til að halda andlitinu. Ég var ný í geiranum og þetta var mitt fyrsta vinnutengda dauðsfall. Kennarinn hnippti í mig, minnti mig á að anda og sagði að það væri í góðu að fella tár í slíkum aðstæðum en gráttu aldrei hærra en þau sem eiga í hlut né heldur gleðstu meira ef því er að skipta. Síðan þá, hef ég reynt að hafa þetta að leiðarljósi, bæði í leik og í starfi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *