Um mig

Ég heiti Dagný Sylvía Sævarsdóttir, er fædd 1975 á Seyðisfirði og uppalin á Tókastöðum í Eiðaþinghá þar sem við vorum mestmegnis með hesta og kindur. Stærstum hluta æskunnar varði ég á heimavist í Grunnskólanum og í Alþýðuskólanum á Eiðum. Í fríum fór ég til pabba í paradísina á Akureyri þar sem hann bjó við hliðina á Bláa Turninum (sjoppunni) á horninu á Norðurgötu og Gránufélagsgötu. Þar gat ég líka labbað í sund. Það var það besta.

Árið 1993 kynnist ég Fúsa (Sigfúsi Jónssyni) sem er frá Fellabæ city, nánar tiltekið aðalgötunni þar sem hlutirnir gerðust í þá daga. Örsjaldan á ég það til að nota Fúsa minn eða Gamla Gaur í bloggið, en það er bara örsjaldan.

Við eignuðumst tvær dætur, Aldísi Önnu ´95 sem er orðin stúdent og flutt að heiman og Ásrúnu Svölu ´97 sem er í öðrum bekk í menntó.

Aldis 049 FB ©Patricio Soto(Þessi mynd er tekin í júni 2014 þegar Aldís varð stúdent. Ljósmyndari: Pato Soto)

Árið 2001 fluttum við til Sönderborgar í Danmörku í ævintýraleit. Fúsi sem var smiður, lærði tæknihönnun og hefur verið hjá sama fyrirtækinu síðan. Ég fór krókaleiðir og endaði á að læra hjúkrunarfræði, síðar gjörgæsluhjúkrun og er núna að mjatla diplómu í klíniskri kennslu. Starfa á gjörgæsludeildinni hér í bæ, ásamt því að vera klínískur kennari. Deildinni bregður stundum fyrir í blogginu og þá undir nafninu „Gjörið“.

Árið 2007 giftum við okkur og keyptum hús, nánast við enda göngugötunnar í Sönderborg. Mér finnst mjög gott að búa í miðbænum í göngufæri við allt það helsta en fíla mig líka vel í sveitinni hjá mömmu á Eiðum.

Fyrir þremur árum fluttum við  inn Íslenskan fjárhund frá Íslandi því nágranninn hafði fengið sér 12 hænur. Okkur fannst tilvalið að búa til sveitaumhverfi í miðbæ Sönderborgar. Við völdum íslenskan því sú tegund er sú eina sem mögulega skilur okkur. Þar sem Aldís og Svala eru meira með öðrum en okkur vegna aldurs og aðstæðna, er Vaskur í þeirri stöðu að vera „litla barnið“. Hann er þrælskemmtilegur og elskar okkur út fyrir endimörk alheimsins en þjáist af ólæknanlegri kjörheyrn. Þrátt fyrir það er hann óhemju gáfaður og sér að mestu leyti um þrif á sjálfum sér sjálfur. IMG_9569

Þó svo að okkur líki stórvel í Danmörku, eru ræturnar klárlega á Íslandi og þá sérstaklega fyrir austan. Héraðið, Loðmundarfjörðurinn og Seyðisfjörðurinn eru í uppáhaldi, ásamt ótal öðrum stöðum.

Við horfum á fréttirnar á RÚV á hverju kvöldi, einnig á Útsvar og Landann. Það er aldurinn.

Þið finnið mig á: 

Facebook: Alrunarblogg

Instagram: alrun75

Snapchat: alrun

Twitter: alrun75

 

 

 

 

 

2 days ago

Alrunarblogg

Þegar ég bið Sigfús um að taka myndir af mér fyrir Instagram eða bloggið, þarf ég alltaf að stilla honum upp fyrst, því hann er ekki beinlínis frábær ljósmyndari. En hann kann svo margt annað.
Í dag var mígandi rigning og Fúsa fannst mjög gaman að taka myndir.
...

View on Facebook