Um mig

Ég heiti Dagný Sylvía Sævarsdóttir, er fædd 1975 á Seyðisfirði og uppalin á Tókastöðum í Eiðaþinghá þar sem við vorum mestmegnis með hesta og kindur. Stærstum hluta æskunnar varði ég á heimavist í Grunnskólanum og í Alþýðuskólanum á Eiðum. Í fríum fór ég til pabba í paradísina (að mér fannst) á Akureyri þar sem hann bjó nánast við hliðina á Bláa Turninum (sjoppunni) á horninu á Norðurgötu og Gránufélagsgötu. Þar gat ég líka labbað í sund. Það var það besta.

Árið 1993 kynnist ég Fúsa (Sigfúsi Jónssyni) sem er frá Fellabæ city, nánar tiltekið aðalgötunni þar sem hlutirnir gerðust í þá daga. Við eignuðumst tvær dætur, Aldísi Önnu ´95 sem varð stúdent 2014 og hefur síðan þá flakkað á milli Eiða og Parísar. Núna býr hún í Stokkhólmi og Ásrúnu Svölu ´97 sem varð stúdent 2017. Svala býr enn heima að nafninu til, en er annars á flakki um heiminn.

Aldis 049 FB ©Patricio Soto(Þessi mynd er tekin í júni 2014 þegar Aldís varð stúdent. Ljósmyndari: Pato Soto)

Árið 2001 fluttum við til Sönderborgar í Danmörku í ævintýraleit. Fúsi sem var smiður, lærði tæknihönnun og hefur verið hjá sama fyrirtækinu síðan. Ég fór krókaleiðir og endaði á að læra hjúkrunarfræði, síðar gjörgæsluhjúkrun og vorið 2017 kláraði ég þriggja ára diplómanám í klínískri kennslu. Ég starfaði á gjörgæslunni í Sönderborg í sjö ár og í ágúst ’17 sagði ég upp og fór í afleysingar til Noregs á vegum Power Care.

Árið 2013 fluttum við  inn íslenskan fjárhund frá Íslandi því nágranninn hafði fengið sér 12 hænur. Okkur fannst tilvalið að búa til sveitaumhverfi í miðbæ Sönderborgar. Við völdum íslenskan því sú tegund er sú eina sem mögulega skilur okkur. Hsnn tannburstar sig sjálfur. IMG_9569

Þó svo að okkur líki stórvel í Danmörku, eru ræturnar klárlega á Íslandi og þá sérstaklega fyrir austan. Héraðið, Loðmundarfjörðurinn og Seyðisfjörðurinn eru í uppáhaldi, ásamt ótal öðrum stöðum.

Við horfum á fréttirnar á RÚV á hverju kvöldi, einnig á Útsvar og Landann.

Þið finnið mig á: 

Facebook: Alrunarblogg

Instagram: alrun75

 

 

 

 

 

 

3 weeks ago

Alrunarblogg

Hæ.
Mig langaði bara á einu bretti, að þakka kærlega fyrir allar kveðjurnar tengdar bloggfærslunum undanfarna mánuði, bæði á Facebook, á Messenger og á sjálfu blogginu við hverja færslu. Þær síðastnefndu eru pínu uppáhalds því þær geymast best. Ég er hrikalega léleg að svara og að þakka fyrir mig, einhvern veginn fallast mér bara hendur... Svo er líka svo mikið að gera hjá mér...
En eftir síðustu færslu, get ég farið að blogga aftur "venjulega" og minna dramatískt, það gengur ekki ekki að græta ykkur lon og don.
Ég ætlaði að henda í eina færslu núna með morgunkaffinu en ég næ því líklega ekki því ég þarf aðeins að "vinna heima," þ.e.a.s. vinna skrifstofuvinnu og síðan er ég að fara á förðunarnámskeið í Óðinsvéum eftir hádegi. Já og svo þarf ég að brjóta saman þvott.
Enn og aftur, takk.
...

View on Facebook