Árið 2021

Enn eitt árið er á enda. Árið 2021 sem einkenndist af kóróna í fyrri hálfleik og kosningum og útstáelsi í sinni hálfleik. Árið sem liðið er endaði vel, samt munaði mjög mjóu þegar þegar Fúsi kom heim frá Íslandi þann 29. desenber, rétt fyrir miðnætti. Við heilsuðumst og stuttu seinna sló það mig að hann gæti hafa fengið í sig kórónasmit á Íslandi. Það hefði nú verið til að kóróna mjög svo krefjandi seinni hluta desembermánaðar. Fúsi kom við í testi á flugvellinum í Kastrup og það skynsamlega hefði náttúrulega verið að bíða eftir svari áður en tungur okkar vöfðu sig um hvor aðra. En það er auðvelt að vera vitur eftir á.

Við sluppum þó og fórum inn í nýtt ár veirulaus og með sælara móti með gamlárskvöldið sem ég var næstum búin að missa af. Klukkan 6.20 þann 30. desember, var ég á leiðinni í vinnuna og hlustaði á morgunútvarpið. Þá sagði útvarpskonan eitthvað á þá leið; “já í dag, daginn fyrir gamlárskvöldið mikla …„ Ég var næstum búin að taka U-beygju á hraðbrautinni og heimta hástöfum einn dag í viðbót. Ég var svo viss um að það væri bara tuttugasti og níundi. Ég var alveg í ruglinu. Og líka Fúsi. Hvorugt okkar hafði rætt áramótin. Nema það að okkur hlakkaði mikið til að verja þeim bara tvö ásamt Vaski. Stelpurnar voru enn á Eiðum og ég var á dagvöktum yfir áramótin. Auk beiðni yfirvalda um að halda fámenn áramót. En matinn höfðum við ekki rætt og hvað þá verslað. Þegar vaktinni þennan dag var lauk, settumst við niður og ákváðum matseðilinn fyrir gamlárskvöldið 2021. Og það besta var að það voru engar kröfur, engar væntingar, ekkert stress. Við ákváðum að elda það sem okkur langaði í, að mestu leyti úr því sem til var. Úr varð frábært gamlárskvöld þar sem planið var að fara að sofa upp úr tíu en vegna fjölda hefðbundinna símtala var klukkan að verða hálf tólf þegar ljósið var loksins slökkt.
Við horfðum því ekki á áramótaskaupið þetta kvöld.

Skaupið er nefnilega sýnt alltof seint! Það er kominn tími til að færa það aftur á bak og því til rökstuðnings vísa ég í þessa samantekt sem Ásgeir Ingvason birti  á Íslendingar í útlöndum hópnum um daginn:

Hagstofunni reiknast til að um 47.000 Íslendingar búi erlendis, eða nærri 13% þjóðarinnar. (þ.e.a.s. brottfluttir / búsettir innanlands)
Samkvæmt heimildum á vefnum er hlutfallið 17,5% hjá Írum, 14,1% hjá Nýsjálendingum og 14,0% hjá Portúgölum, og hafnar Ísland í fjórða sæti. Við skákum meira að segja Mexíkó, þar sem hlutfallið er 12,2%.
Við tölur Hagstofunnar má síðan bæta öllum þeim Íslendingum sem búa erlendis í lengri og skemmri tíma án þess að breyta búsetuskráningu sinni hjá hinu opinbera. Á þetta t.d. við um flesta násmenn erlendis, og flesta þá eldri borgara sem verja stærstum hluta ársins í hlýjum og ódýrum löndum við Miðjarðarhafið.
Ef við mynduðum eitt bæjarfélag væru Íslendingar erlendis næststærsta bæjarfélagið á eftir Reykjavík, með 49% fleiri íbúa en Kópavogur og 76% fleiri íbúa en Hafnarfjörður.
Eru Íslendingar erlendis n.v. jafnmargir og samanlagður íbúafjöldi Akureyrar, Reykjanesbæjar og Garðabæjar.
Og ef við værum eitt kjördæmi þá hefðum við yfir að ráða rúmlega 7 þingsætum af 63.
Það hve margir búa erlendis hverju sinni segir ekki alla söguna, því það er mikið flæði af fólki til og frá landinu. Ekki er auðvelt að finna tölur yfir hversu margir Íslendingar hafa búið erlendis einhvern tíma á lífsleiðinni en á dæmigerðu ári flytja um 500 til 700 íslenskir ríkisborgarar búsetu sína frá útlöndum til Íslands. Á dæmigerðu ári flytja sirka 2-3 Íslendingar aftur til Íslands fyrir hverja 4-5 sem flytja til útlanda.
Ef við berum búsetutölurnar saman við fæðingartölur má áætla að um það bil annar hver Íslendingur búsettur á Íslandi hafi einhvern tíma búið erlendis.
Þetta þýðir bara eitt. Að við Íslendingar í útlöndum þurfum að stofna stjórnmálaflokk og fyrsta málið á dagskránni væri að færa skaupið til klukkan níu á dönskum tíma. Þá gæti ég horft og samt farið að sofa klukkan hálf ellefu.

Fyrri hluti aðventunnar var alveg þrælgóður. Ég uppgötvaði að ég bjó mér til minn eigin huglæga aðventukrans. Mér leiðast nefnilega aðventukransar á borðstofuborðinu vegna þess að þeir sem ég hef myndast við að gera í gegnum árin, hafa alltaf verið fyrir mér. Ef að þeir hefðu minnstu heyrn væri ég alltaf að segja: færðu þig eða farðu frá. Þess vegna hef ég sagt skilið við hefðbundna aðventukransa. Í staðinn ætla ég framvegis að gera minnst fjóra skemmtilega hluti á aðventunni. Takið eftir; minnst fjóra hluti. Á þessari aðventu fór ég á skemmtilegan fyrirlestur á bókasafninu, í hitting hjá leshringnum, nokkrum sinnum á kaffihús, út að borða með góðum vinum og í pizzupartý hjá vinkonu með vinkonum. Við Fúsi fórum einnig á listasýningu og til Kaupmannahafnar. Allt þetta á þremur fyrstu kertunum. Þetta hentar mér betur en að föndra eitthvað sem eiginlega pirrar mig meira en gleður. Svo ákvað ég líka í fyrra að kaupa ekkert jólaskraut fyrr en eitthvað af því sem ég á, er ónýtt. Og þar sem ekkert hefur eyðilagst síðustu tvö árin, hef ég ekki getað keypt neitt. Þetta er liður í að vera góð við móður Jörð.

Þegar ég lít til baka finnst mér árið hafa verið stórfínt þó það hafi verið svolítið flatt framan af eða fram í maí á medan allt var meira og minna lokad. Fyrir utan að ég byrjaði í nýrri vinnu. Það tók svolítið á og varla hægt ad kalla flatt ferli. Ekki síst þar sem vinnuskiptin urðu með dramatískara móti. Ég átti að hætta á gjörinu 31. janúar og byrja á nýju deildinni 1. febrúar. Stuttu fyrir mánaðarmót kom tilkynning frá stjórn spítalans um að ég yrði, hvort sem mér líkaði betur eða verr, að halda áfram á gjörinu (ekki mínu, heldur í næsta bæ) um óákveðinn tíma vegna kóróna. Það sem var lang erfiðast við þetta, var að hafa ekkert um það að segja hvar eða hvenær ég ætti að vinna. Ég réði engu. Ég gat ekki sagt nei. Ég reyndi en var tjáð að neitun væri brottrekstrarsök. Ég hefði getað fengið læknisvottorð (nýtt mér krabbameinsspilið) en slíkt hentar mér ekki nema í gríni. Mér missti algjörlega stjórnina í lífinu að mér fannst og það var mjög óþægilegt. Til allrar hamingju lægðu kórónaöldurnar og ég gat byrjað í nýju vinnunni tveimur vikum síðar.

Vid Fúsi gerðum það besta úr samfélagslegu aðstæðunum og þreyðum við þorrann, góuna, einmánuðinn og hörpuna með því skoða landið okkar í formi gönguferða á ókunnugum slóðum, dvelja í bústað á nýjum stað og fara til Kaupmannahafnar. Ásamt því ad hitta vini og gera almennt það sem okkur þykir gaman.

 

Þegar allt opnaði aftur í maí, braust ég út eins og fönexungi úr eggi. Ég var snögg að panta flug til Íslands. Í júní fórum við síðan til Stokkhólms, í ágúst til Berlínar, í september til Íslands, í oktober til Stavanger og í desember til Íslands. Við fórum allt á bílnum nema til föðurlandsins.  Þetta ár er reyndar met ár í keyrslu þar sem ég hef keyrt um 17.000 km bara í vinnuna. Síðan eru nokkrar Kaupmannaferðir á kílómetramælinum ásamt öðrum innanlandsferðum. Mér taldist sex Kaupmannahafnarferðir á árinu og þá eru ekki taldnar með ferðar þar sem ég hef ekki stoppað nema á flugvellinum. Minna má það ekki vera þegar annar afleggjarinn býr í borginni. Sjálfu sumarfríinu vörðum við í rökum bústað á norðvestur hluta landsins. Fyrri hluta ársins máttum við sama og ekki neitt, seinni hlutann máttum við allt og ég nýtti mér það.

Afrek sem slík hafa ekki verið í hávegum höfð nema kannski það ad ég byrjaði á peysu í sumarfríinu og er nú, 5 mánuðum seinna, komin niður að handarkrikum. Einhverjir myndu telja það vel af sér vikið, aðrir ekki.

Nú kemur liðurinn sem aðeins hluti lesenda hefur gaman af. Sem er fullkomnlega í lagi. Við höfum gaman af mismunandi hlutum og erum með mismunandi áhugamál. Þegar þessum lið er lokið, kemur langt strik. Þá vitiði það. Þá eruð þið aðvöruð.

Ég renndi í gegnum nokkrar bækur á árinu – ég er sátt við magnið þótt innst inni myndi ég vilja komast yfir fleiri bækur því það eru svo ótal margar sem mig langar til að lesa. Og alltaf bætast nýjar og nýjar á “listann„ sem reyndar finnst ekki því hann myndi bara lengjast og yrði þar af leiðandi meiri streitufaktor eða ánægja. Við Fúsi höfum alveg síðan við kynntumst haft það fyrir vana að lesa á kvöldin áður en við förum að sofa. Eftir því sem aldurinn færist yfir mig, er ég farin að endast styttra í lestrinum og slekk ljósið fyrr. Eða kannski bara meðvituð um að tryggja mér nægan svefn – eitthvað sem ég var svakalega kærulaus með hér áður fyrr. Þess vegna hef ég lagt það í vana minn á frídögum og þegar ég er á kvöldvöktum að sækja mér kaffibolla þegar ég vakna, setjast upp í rúminu og lesa eins lengi og mig lystir.
Leshringurinn Glóra var einnig virkur og hafði ég gaman af að lesa bækur sem ég valdi ekki alltaf sjálf og síðan tala um þær við aðra.
Sú bók sem kom mér mest á óvart á árinu var Systir mín raðmorðinginn vegna þess að ég bjóst ekki við miklu. Sá höfundur sem ég tók ástfóstri við og á nú mynd af mér með, er Niviaq Kornelíusen. Sá höfundur sem mér þykir alltaf vænna og vænna um, er Tove Ditlevsen. Sú bók sem hafði mest áhrif á mig var Forsvindingsnumre. Sú bók sem kom mest aftan að mér var Ó, Karítas. Jesús minn, ég nefnilega vissi ekki að ég væri að fara hlusta á fantasíu sem grænu slími og gulum vörtuveggjum. Þeir höfundar sem ég ætla héreftir að hugsa mig tvisvar um áður en vel bækur eftir þá aftur eru Stefán Máni, Kristín Marja Baldursdóttir, Anna Ekberg (sem er reyndar tveir karlmenn) og Ragnar Jónsson. Jú og af augljósri ástæðu, Emil Hjörvar þar sem ég er alls ekki fyrir fantasíur innihaldandi grænt slím. Þær bækur sem mér fannst best lesnar upp voru Ég er Malala og Konan við 1000 gráður. Sú bók sem fræddi mig mest var Klubben. Eftirfarandi bækur fræddu mig líka: Sapiens, Þarmar með sjarma, Går du nu, er du ikke længere min datter, Guds bedste børn, Tabita, Haabet, Ég er Malala, Blomsterdalen, Fíkn og Forsvindingsnumre.
Elsta bókin er Hroki og Hleypidómar en hún kom fyrst út 1813. Í bókunum hef ég ferðast um næstum allt Ísland, Noreg, Stockholm, næstum alla Danmörku, Moskvu, Pakistans, Japans, Nigeríu, Englands, Bandaríkjana, Þýskalands, vesturströnd Afríku og Amerísku Jómfrúaeyjanna (áður dönsku)
Ég las eða hlustaði á eftirfarandi bækur og þær fá eina til fimm stjörnur. Undanfarin ár hef ég gefið eina til þrjár stjörnur en mér finnst það of þröngt. Á Instagram gef ég eina til fimm og því við hæfi að gera það líka hérna. Ef um leshringsbók er ad ræða, stendur Glóra í sviga við bókina. Bækur á íslensku eða eftir íslenska höfunda verða með bláum texta, þær dönsku með rauðum.

  1. Ég er Malala  e. Malala Yousafzai ***** Lesin upp af Völu Kristínu Eiríksdóttur og stundum gleymdi ég að Vala væri ekki Malala eða Malala væri ekki Vala, svo vel las Vala.
  2. Gata mæðrana e. Krístínu Marju Baldursdóttur *** Flöt en sæmileg afþreying.
  3. Gríma e. Bennýju Sif Ísleifsdóttur **** Gerist á Eskifirði. Það var plús. Allt fyrir austan er plús.
  4. Nautið e. Stefán Mána  ** Líklega sú síðasta sem ég les eftir SM. Dýraógeðið gekk fram af mér.
  5. Konan sem elskaði fossinn e. Eyrúnu Inga *** Flott saga og fræðandi. En ég tengdi ekki við Siggu – hún pirraði mig smá. Eða tengdi of mikið – kannski af því að ég þekki nokkrar “Siggur„ (nafnið Sigga er málinu ótengdt).
  6. Ásta e. Jón Kalmann (Glóra) *** Ég man varla um hvað hún var (vandræðalegt) nema að það voru rosalega margar flottar setningar í henni eins og t.d.: Hun havde indtaget store mængder smertestillende medicin. Noget som i sig selv er logisk nok hvis livet volder så stærke smerter. Mig minnir að mér hafi fundist hún langdregin. Við lásum hana á dönsku og þýðingin var mjög góð. 
  7. Forsvindingsnumre e. Amalie Langballe ***** Úff, hún var eins og grjót í maganum á mér því ég tengdi svo við hana – ég á það til að vera rosalega framtíðardramatísk.
  8. Kokkáll e. Dóra DNA ***** Mér fannst hún mjög áhugaverð og sérstaklega hvernig dæmið snérist við.
  9. Holt og skál e. Jón Trausta ***** Allt sem ég hef lesið eftir er JT er gott.
  10. Hroki og Hleypidómar e. Jane Austin ***** Vá snobbið! Bókin er hin besta skemmtun.
  11. Norwegian wood e. Haruki Murakami(Glóra) **** Mjög melankólsk og mikið um sjálfsmorð og geðveiki.
  12. Systir mín raðmorðinginn e. Oyinkan Braithwaite ***** Mjög góð bók. Kom mjög á óvart.
  13. Fölsk nóta e. Ragnar Jónsson * Getur einhver rifjað upp fyrir mér um hvað hún er?
  14. Ó, Karítas e. Emil Hjörvar * Bókin með slímið og lifandi vörtuveggina í Búðardal.
  15. Eldarnir e. Sigríði Hagalín **** Áhugaverð og vel skrifuð. Ég er hrifin af öllum bókunum hennar.
  16. Hús tveggja fjölskyldna e. Lynda Cohen Loigman**** Góð afþreying. Í bókinni er stórt leyndarmál um hver eigi hvaða barn. Í bókinni sem ég er að lesa núna (Undskyldningen eftir Hanne Vibeke Holst) er líka stórt leyndarmál um hver sé faðir barnsins
  17. Hvíti dauði e. Ragnar Jónsson ** Hún fær tvær stjörnur fyrir að gerast á Kristnesi. Pabbi bjó þar einu sinni og vann á sjúkrahúsinu þegar ég var lítil. Annars man ég ekki um hvað hún er. Einnig finnst mér Ragnar lýsa hugsunum og vangaveltum persónana of mikið. Það er ekki alltaf sannfærandi og oft óþarfi. Sko, að mínu mati.
  18. Dræb ikke en sangfugl e. Harper Lee (Glóra) ***** Rosalega góð og einlæg bók sem eldist mjög vel. Mæli eindregið með.
  19. Íslandsklukkan e. Halldór Laxness **** Fær bara fjórar stjörnur af því að mér finnst Sjálfstætt fólk og Salka Valka betri.
  20. Barndomens gade e. Tove Detlevsen (Glóra) ***** Tove er held ég bara minn uppáhalds danski rithöfundur. Ég elska látleysið og á sama tíma dýptina. Og tungumálið hennar og skrifstíllinn er einstakur.
  21. Meistarinn og Margarita e. Mikhail Bulgakov **** Loksins las ég hana og það skemmtilega var að fyrir tilviljun vorum við Svala að lesa hana á sama tíma þegar við vorum saman á hóteli í Stockholmi í sumar. Hún er svolítið þung en samt góð.
  22. Homo Sapienne e. Niviaq Korneliusen ***** Saga fimm persóna sem flettast snilldarlega vel saman. Þemað er sjálfsmynd, samkynhneigð og transfólk.
  23. Haabet e. Mich Wraa ***** Svo vel skrifuð og fræðandi bók um þrælaverslun, þrælaflutning og þrælahald Dana á sykurnýlendunum í Karabíska hafinu.
  24. Oplyst e. Tara Westover ***** Áhugaverð bók um öfgamormónafjölskyldu í Bandaríkjunum.
  25. På date med en morder e. Anna Ekberg * Fyrsta bók Anna Ekberg sem heitir Havets børn er rosalega góð. Þessi er mjög léleg. Ég uppgötvaði á blaðsíðu 32 að eiginmaðurinn sem er auðvitað heilaskurðlæknir væri að sjálfsögðu morðinginn.
  26. Krókódíllinn e. Kathrine Engberg *** Alveg ágætur krimmi. Ég hlustaði á hana á íslensku og hún var frekar illa lesin upp að mínu mati.
  27. Suget, eller vasker du vores fuckfingre med dine tårer e. Ida Marie Hede **** Mjög góð en stundum varð ég móð við lesturinn. Þess vegna bara fjórar stjörnur.
  28. Korter e. Sólveigu Jónsdóttur **** Góð afþreying og samtímasaga sem gerist í Reykjavík.
  29. Lukketid e. Christina Bojsen Træden ** Að hluta til lókal bók þar sem starfsfólkið stundar kynlíf inni í skolherberginu á sjúkrahúsinu í Sønderborg. Það var skemmtilegt að lesa um það og auðvelt að sjá það fyrir sér.
  30. Blomsterdalen e. Niviaq Korneliusen ***** Best best best. Þemað er sjálfsmorð ungs fólks á Grænlandi og það að fitta ekki inn í aðra menningu.
  31. De e. Helle Helle ***** Mínimalistisk og þrælgóð.
  32. Blóberg e. Þóru Karítas Árnadóttur ***** Ó svo sorgleg og þvílík örlög aðalpersónunnar. Fræðandi bók um örlög margra kvenna á fyrri öldum.
  33. Hun sem våger e. Caroline Eriksson **** Á Instagram gaf ég henni fjórar stjörnur, ég man ekki afhverju.
  34. Blóðrauður sjór e. Lilju Sigurðardóttur *** Ágætis meðalglæpasaga.
  35. Þarmar með sjarma e. Gunila Enders ***** Mjög fræðandi og skemmtilega sett upp.
  36. Klubben e. Mathilda Gustavsson ***** Ég ætlaði að gefast upp í byrjun en það var eitthvað sem hélt mér. Bók sem allir ættu að lesa. Sérstaklega allir miðaldra og eldri.
  37. Líkkistusmiðirnir e. Morgan Larsson ***** Snertir mörg mikilvæg málefni. Alveg mjög góð afþreying.
  38. De søvnløse e. Kim Leine *** Síður en svo besta bók KL.
  39. Konan við 1000 gráður e. Hallgrím Helgason ***** Upplesturinn hjá höfundi er einstakur. Og sagan er svo stór. Mæli eindregið með.
  40. Sapiens e. Yuval Noah Harari ***** Svo fræðandi og styrkjandi. Allt mannkynið ætti að lesa hana.
  41. Guds bedste børn e. Morten Pape ***** Það eru í alvörunni til tvíburaforeldrar í Danmörku sem eiga hvorki bíl né barnavagn.
  42. Tabita e. Iben Mondrup (Glóra) ***** Ein ein bókin sem tengist Grænlandi. Lýsir vel muninum á blóðböndum og öðrum böndum.
  43. Ungdom e. Tove Ditlevsen ***** Tove aftur. Aftur tossegod!
  44. Marrið í stiganum e. Evu Björg *** Man varla um hvað hún er en man samt að hún gerist á Akranesi. Var samt alveg fín. Jú, nú man ég. Það voru of margar persónur og erfitt að halda utan um þær, sérstaklega afþví að ég hlustaði á hana.
  45. Aðventa e. Gunnar Gunnarsson ***** (Í þriðja skipti sem ég hlusta á hana á aðventunni)
  46. Går du nu, er du ikke længere min datter e. Anne Bitch ***** Þetta er bók um vanrækslu. Ótrúlega fræðandi og vel skrifuð bók um dóttur sem á mömmu sem er alkóhólisti og andlega veik. Hún beitir bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Þær tilheyra millistéttinni, mamman er vel menntuð og velmáli farin og dóttirin Anne er alltaf vel til höfð og gengur vel í skólanum. Þrátt fyrir að Anne biðji ítrekað um hjálp, hjálpar engin. Bókin er sannsöguleg – Anne er að skrifa um sjálfa sig og sína fjölskyldu.
  47. Gespenster e. Kalle Arvidson ** Alveg fín á köflum en samt var ég farin að lesa blaðsíðutalið meira en textann í lokin.
  48. Fíkn e. Rannveigu Borg Sigurðardóttur ***** Mér fannst svo áhugavert að lesa bæði sögu beggja. Bæði fíklar á hvorn sinn hátt og sjúkleg meðvirkni í gangi.
  49. Olía e. Svikaskáld ** Fyrstu tvær sögurnar voru okey en síðan frekar ble …
  50. Gafst upp á Amma biður að heilsa og Meter i sekundet.

Bók ársins var (trommusláttur) BLOMSTERDALEN eftir Niviaq Korneliusen. Ég gleymdi að anda í síðasta kaflanum!

_____________________________________________________________________________________________________

Stelpurnar okkar una sáttar við sitt. Aldís er hjá Johnson & Johnson í Stokkhólmi og Svala í Kaupmannahöfn í dönskunáminu sínu og hjá danska ríkisútvarpinu (P1).
Það urðu stórvægilegar breytingar í vinnumálum hjá Fúsa. Fyrirtækið sem hann hefur verið hjá í 17 ár, skipti um nafn. Áður hét það Sloth Møller, nú heitir það OJ.

Á öllum djömmunum á þessu ári upplifði ég einslags júfóríu eða sæluvímu – ég dansaði og dansaði. Og dansaði. Það var eins og ég hefði verið lokuð inn í búri í langan tíma og skyndilega sleppt út. Ég fór á tónleika, í fertugs og fimmtugsafmæli og á stórt vinnutengt jólahlaðborð eða ætti ég kannski frekar að segja julefrokost? Því það er munur á skilst mér. Á jólahlaðborði er borðað og hlustað á lifandi tónlist. Á julefrokost er borðað, sungið, skemmt og dansað við lifandi tónlist í formi hljómsveitar og sídan öllum smalað upp í rútu og keyrt heim.

 

Ég hlakka til ársins 2022 sem enn er óskrifað blað. Ég strengdi engin áramótaheit og markmiðin mín snúast um að hitta fjölskylduna mína og vini sem oftast og halda áfram að tileinka mér umhverfisvænan lífsstíl. Litlu hlutirnir geta líka orðið að stórum.

Lifið heil.

dss

3 Responses to “Árið 2021

  • Halldór Jóhannsson
    2 ár ago

    Kærleikskveðjur.Dóri

  • Gleðilegt ár min kæra

  • Margret
    2 ár ago

    Gleðilegt ár 2022. Og takk fyrir þennan góða pistil.Með Kærleikskveðju !??

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *