Gleðilegan janúar

Janúar, elsku janúar. Lokins ertu byrjaður og byrjar vel.

Ég verð alltaf hrifnari og hrifnari af þessum mánuði sem er svo indæll að leysa jólin af. Sólin hækkar og þó svo að ég strengi ekki áramótaheit né sé með einhver meiriháttar markmið í bígerð, þá er samt eftirvænting. Nýtt ár, ný byrjun.

Það eina neikvæða við janúar er rykið sem sést allsstaðar með hækkandi sól. Reyndar sé ég það ekki ef að ég horfi ekki á það. Aðferð sem ég tileinkaði mér á fyrstu árum míns eigins búskapar og hefur reynst mér vel.

Ég sat í dag og skoðaði almanakið alveg fram í júní og skipulagði gróflega nokkra stærri viðburði. Allt viðburðir sem láta mig hlakka til. Það er svo mikilvægt fyrir mig að hlakka til einhvers.

Í gær fór ég til Kaupmannahafnar til að hitta stelpurnar. Aldís var að koma frá Íslandi og stoppaði í fjóra tíma áður en hún tók lestina til Stokkhólms. Við fengum okkur frokost á Fowl í sólinni í norðvesturhluta borgarinnar. Aldís færði okkur fréttir frá föðurlandinu sem að við gleyptum í okkur ásamt samlokum með steiktri sellerírót og frönsku appelsíni. Mér fannst appelsínið við hæfi í landi þar sem gætir svona mikilla franskra áhrifa. Ekki það að ég verði meðvitað vör við frönsk áhrif í því daglega en þegar vel er að gáð, eru þau allsstaðar. Ekki síst í tungumálinu.

 

Frokost og síðan kaffi og kaka. Eruð þið ekki sammála að svona bragðast mikið betur úti í janúar en úti í júní?

Við fórum aftur niður á Nørrebrogade og Aldís byrgði sig upp af dönskum nauðsynjum. Hlutum sem ekki fást í útlöndum og erfitt er að lausrífa sig frá. Ég skil hana – mér líður eins með prins póló.
Litla systirin nestaði stóru systirina með rúgbrauði og ávöxtum fyrir langa lestarferð. Þær eru orðnar eitthvað svo fullorðnar! Hugsið ykkur.

Dagsferð til Kaupmannahafnar er á við sterka vítamínsprautu. Á föstudagskvödið gerði Svala sitt besta til að tala mig til, ég var alveg á því að vera bara heima. En svo sammældust Aldís og ég um það að hún skrifaði í flugtaki í gærmorgun (laugardagsmorgun). Þá myndi ég vita hvort flugið væri á áætlun. Það myndi nefnilega ekki borga sig að fara fyrir færri tíma en fjóra. Því lagði ég af stað þegar Aldís skrifaði. Við erum álíka lengi, hún frá Keflavík, ég frá Sönderborg.

En það kom að kveðjustund – Aldís lagði af stað til Stokkhólms.

Svala átti að vera að læra undir próf en við gátum bara ekki hætt að vera saman. Ég fékk að velja veitingastað fyrir kvöldmatinn og varð Malhalle, líbanskur staður, fyrir valinu. Ég er stórhrifin af matnum þeirra. Eftir hann og eftir kaffibolla heima hjá Svölu, hélt ég heim á leið í kafaldsbyl á köflum og með elektróteknótónlist á hæsta styrk því hátalarnir í bílnum bera hana.

Til allrar hamingju eru þrjár vikur eftir af janúar og nóg eftir á skemmtidagsskránni. Og ekki allt er stórt. Sumt á dagsskránni er bara bók (bækur) eða bíómynd (Dont look up) eða spennandi uppskrift sem bíður eftir að vera prófuð eða kaffihúsahittingar, já og peysan sem ég er að prjóna. Ég hlakka til að halda áfram með hana.

Gleðilegan janúar.

Lifið heil.

dss

 

One Response to “Gleðilegan janúar

  • Helga Dögg Sigurðardóttir
    2 ár ago

    Líbanskur er æði.
    Alltaf gaman að lesa bloggið þitt 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *