Tvennt á föstudagskvöldi.

Í dag er tvennt sem liggur mér á hjarta.

Það fyrra:

Fúsi fór í bíó í gærkvöldi með öðrum karlpeningi. Þeir fóru að sjá Bond. James Bond. Nú er ég líklegast ekkert að eyðileggja fyrir neinum þar sem nánast allt fólk sem opnar fréttasíður síðustu daga, hefur varla komist hjá því að lesa um myndina og vita þá væntanlega að aukapersónan Q, sem er mjög klár vísindamaður, er komin út úr skápnum. Q er sem sagt samkynhneigður.
Um þetta voru miklar skoðanir innan hópsins eftir myndina. Hópurinn skiptist nokkurn veginn í tvennt. Yngri og eldri. Þeim yngri fannst þetta bara aukaatriði, Q væri áfram bara klár vísindamaður óháð kynhneigð. Þeim eldri (ekki þó öllum) fannst þetta nánast eyðileggja myndina. Q gæti bara ekki verið hommi og ef að Ian Fleming kæmist að þessu myndi hann snúa sér við í gröfinni. Og einn bætti við að nú væri heldur betur komið gott af öllum þessu pólitíska rétttrúnaði og #metoo þegar 007 var orðin að svartri konu! 

Það seinna:

Þegar efnahagshrunið átti sér stað á Íslandi haustið 2008 spurðu Danirnir mig oftar en einu sinni: Hvernig hefur fjölskyldan þín það? Halda þau vinnunni? Halda þau eignunum? Hefur þetta mikil áhrif á þau? Eru þau ókei? Og oftar en ekki var bætt við: Það er gott að þú ert hérna hjá okkur í Danmörku núna.
Þessa dagana erum við með hjúkkunema sem er nýbyrjuð hjá okkur. Á þriðjudaginn, á öðrum deginum hennar, sátum við um 20 starfsmenn á kaffistofunni og borðuðum hádegismatinn okkar. Eins og venjulega hringdu símar og bjöllur, stólar voru dregnir til og frá, Brauðristin skaust upp, örbylgjuofninn dinglaði að hann væri búinn, kallað var yfir hópinn, svarað til baka og ofan í allt, spjallað um daginn og veginn. Ég sat stutt frá nýja nemanum og í framhaldi af einhverri umræðu spurði ég hana hvaðan hún væri? Afganistan, svaraði hún.
Þegar ég er spurð hvaðan ég sé, fylgja oftast athugasemdir um hversu mikið fólki langi til að heimsækja Ísland en að kuldinn hafi hingað til aftrað því frá því. Eða að það hafi einu sinni millilent í Keflavík og auðnin var awesome. Eða að það hafi einu sinni verið í skóla með Ásgerði Sigurðardóttur (Asgedúa Sígúrdardóttía), hvort ég þekki hana? Nobb, aldrei heyrt á hana minnst.
Þarna á þriðjudaginn setti okkur sem sátum í nágrenninu hljóð þegar neminn svaraði Afganistan. Engin sagði neitt í örugglega 3 sekúndar sem liðu eins og heil eilíf. Loks sagði Gugga gamla hikandi: Það er gott að þú ert hérna hjá okkur núna. Neminn svaraði: Já, en hluti af fjölskyldunni minni er enn í Afganistan.
Og hvað haldiði að við höfum sagt?
Ekkert. Fokking ekkert. Það eina sem mér datt í hug að spyrja, var hvort hún þekkti Tamana (bekkjarsystur Svölu). En ég hafði vit á að gera það ekki. 
Snertifælnin yfirtók okkur – þá sjaldan í þessu fagi og örstuttu seinna leystist hópurinn upp vegna hringinga, kalla og stofugangs. 

Það er tvennt ólíkt að vera frá Íslandi og Afganistan. Nálgunin er svo mismunandi þótt fólkið sé í grunninn eins. 

Myndin er tekin á Íslandi en ég held að hún gæti þannig séð líka alveg verið frá Afganistan útaf gulbrúna litnum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *