Fúsi fimmtugur

Það tók mig tæplega viku að sjá til þess að Fúsi yrði fimmtugur, sem er alveg stórmerkilegt því það tók mig bara eitt kvöld að verða fertug.

Fúsi vildi ekki veislu, hann vildi ekkert vera að gera of mikið mál úr þessu, minnugur afmælisins míns sem honum þótti heldur mikið vesen og vinna. Fyrir afmælið mitt setti hann upp tjaldið og raðaði upp nokkrum stólum. Ég gerði rest. Og eins og áður sagði tók það mig eitt kvöld að verða fertug.

Þann 14. febrúar hófst undirbúningurinn fyrir afmælið hans Fúsa. Algerlega honum óafvitandi sendi ég út boð á vinina og pantaði hitt og þetta. Þann 15. febrúar eldaði ég matinn, bakaði köku algjörlega honum óafvitandi ásamt því að pakka inn öllum gjöfunum til hans.

Síðan rann sjálfur afmælisdagurinn upp, ég sagði honum að liggja kjurrum í rúminu og á meðan hann gerði það, þeyttist ég eins og stormsveipur um eldhúsið og útbjó enskan morgunverð, bara fyrir hann í tilefni dagsins. Það er þó nokkur fórn skal ég segja ykkur því mér er alls ekki vel við þess háttar fitubrákarfæðu. Fúsi og hundurinn Vaskur voru hæstánægðir.

Síðan sagði ég Fúsa að setjast í sófann og hafa það náðugt til kl. 17.00 eða í 7 klukkutíma. Ég þyrfti að hafa restina af húsinu út af fyrir mig. Hann gegndi því. Á meðan bardúsaði ég í eldhúsinu, flutti til húsgögn og snurfusaði.

Síðan var bankað. Og bankað. Og bankað. Húsið okkar fylltist af gestum, Fúsa algerlega að óvörum. Hann sagði bara: „Ha? Er verið að banka? Hver skyldi það nú vera?“

Ég var náttúrlega alveg í essinu mínu yfir því að hafa tekist að koma honum svona gjörsamlega í opna skjöldu. Eldandi og bakandi fyrir framan nefið á honum án þess að hann fattaði neitt. He he he.

Seinna um kvöldið þegar allir gestirnir voru farnir, spurði ég hann hvort hann hefði virkilega ekki grunað neitt??? Jú, hann fór víst að gruna eitthvað strax á þriðjudeginum… WHAT? Hey, stoppum aðeins hérna… Og sagðirðu ekki neitt? spurði ég. Nei, ég vildi leyfa þér að halda að þú værir að koma mér á óvart, sagði hann og brosti sínu blíðasta.

Jæja, ég var ekki búin með öll spilinn enn sem ég taldi mig hafa á hendi. Ein afmælisgjöfin var nefnilega bara kort með leiðbeiningum um að pakka ákveðnum hlutum niður í tösku á föstudeginum, daginn eftir afmælið hans. Að mínu mati var afmælið nefnilega ekki búið. Eftir vinnu setti ég síðan Fúsa og töskuna í bílinn og keyrði af stað. Þegar út á hraðbraut var komið, spurði ég hann hvort hann vissi hvert við værum að fara. Nei, sagði hann. Sagðist ekki hafa hugmynd um það og við þetta svar iðaði ég öll í sætinu.

Ég keyrði eins og herforingi sem leið lá yfir landarmærin og yfir til Þýskalands. Enn grunaði Fúsa ekki neitt, horfði bara bláum og sakleysislegum augum út um framrúðuna.

Ekki einu sinni þegar ég keyrði inn í Glücksburg, hafði hann hinn minnsta grun. Ég lagði fyrir utan fallegt hótel og þá loks kveikti hann á perunni. Við tékkuðum okkur inn og þegar við komum upp á herbergi, spyrði ég hvort hann hefði alls ekki grunað neitt…? Jú, ég vissi að við værum að fara á hótel í Þýskalandi, svaraði hann. Nú, og sagðirðu ekki neitt? spurði ég. Nei, ég vildi leyfa þér að koma mér á óvart, svaraði hann og brosti sínu breiðasta.

Aha.

Þetta er kannski það sem til þarf til að láta hjónabandið ganga upp. Að gefa hvort öðru nægilegt rými til að einstaklingurinn fái að blómstra. Svona eins og Fúsi gerði við mig núna í vikunni. Eða gerir flesta daga. Umburðarlyndi hans og og þolinmæði gagnvart mér eiga sér engin takmörk, ég get svo svarið það. Hjónaband er fyrir okkur einskonar fyrirtæki. Það er góðæri, það kemur kreppa. Hæðir og lægðir, skin og skúrir. Ekkert má drabbast niður, endalaust viðhald og jafnvel viðgerðir. Ef fyrirtækinu er ekki sinnt, fer það á hausinn. Svo einfalt er það nú.

Ég geri kröfu á Fúsa að vera smekklegur. Einn af lyklunum af farsælu hjónabandi er að vera vel til hafður. Ég neita að fara í Kaupfélagið með einhvern lúða mér við hlið. Vissuð þið að Fúsi fæddist feitur? Og fitnaði bara fyrstu mánuðina? Það er til mynd af honum þar sem hann liggur afvelta og ósjálfbjarga á gæru. Þar er hann 7 mánaða. Um 9 mánaða aldurinn toppaði hann sig en síðan fór hann að hreyfa sig og borða hollara og þetta rann af honum.  Ég hef alla okkar sambúð lagt mitt af mörkum til að halda honum spengilegum og hefur það tekist bærilega þótt núna og fyrst núna, eftir 24 ár, sé farið að halla undan fæti. Er ég mjög meðvituð um þennan halla og hefur því nestið hans Fúsa staðið mestmegnis af blómkáli og gulrótum síðastliðið ár. Það má hvergi slá slöku við í viðhaldi og uppbyggingu hjónabandsins.

Já alveg rétt, við vorum komin á hótel í Glücksburg í Þýskalandi. Þar sem Fúsi er nýlega búinn í hnéviðgerð og getur ekki labbað lengri leiðir, klæddi ég hann í slopp og inniskó, ýtti honum inn í hótellyftuna og fór með hann niður í Wellnessdeildina.

Þar fengum við handklæði og leiðbeiningar um hvernig maður ber sig að í þýsku wellnessi. Þetta var ekki flókið. Við byrjuðum á að stinga okkur undir sturtuna, saman að sjálfsögðu enda bara einn sturtuklefi með 6 sturtum í. Síðan fórum við í infrarauða saunað, svo í lífræna saunað, þá varð okkur mjög heitt þannig að við fórum aftur undir sturturnar þar sem 5 aðrir voru fyrir, karlar og konur. Sturtunum var bara skipt bróðurlega á milli fólks. Fúsi er ekki vanur þessari sauna / wellness / sjósundsmenningu þar sem blátt bann er við sundfötum, bæði í sturtum, sauna eða í gufum. Bæði sturtuferðin og saunaið þar sem þýskur kvenmaður leyfti 80 gráðu heitu loftinu að leika um það allra heilagasta á afar opinn hátt varð til þess að hann missti alveg einbeitninguna og gleymdi sloppnum sínum einhversstaðar, gleymdi að setja handklæðið utan um sig á ferð sinni á milli staða og sprellaðist bara þarna um, snúandi sjálfum sér í hringi. Akkúrat þarna vissi ég ekki hvort betra væri að halda áfram að ala hann á blómkáli og gulrótum eða hvort ég ætti að skifta yfir í rjóma og smákökur því maðurinn sem hafði staðið á móti mér í sturtunni var að vissu leyti heppinn að vera í verulegri yfirþyngd því það rétt grillti bara í eineygða kónginn.

En ég var ekkert að fetta fingur út í háttarlag Fúsa í wellnessinu, hann þarf sitt rými rétt eins og ég.

Eftir hafa eytt um tveimur klukkustundum í wellnessinu, dubbuðum við okkur upp og fengum okkur kvöldmat. Okkur hafði hlakkað mikið til enda bæði orðin glorsoltin. Okkur var vísað til borðs af fínum þjóni og okkur til undrunar sat sat sú þýska sem hafði leyft heita loftinu að leika um sig alla ásamt sínum manni vinstra megin við okkur og hægra megin sat eineygði kóngurinn ásamt spúsu sinni. Þetta endurtók sig í morgunmatnum. Ég get lofað ykkur að þetta venst.

En ef við lítum á stóra samhengið í þessu öllu saman, þá hefði mér aldrei dottið í hug sem 17 ára árið 1993, að ég ætti eftir að ferja Fúsa í gegnum fimmtugs afmælisdaginn sinn. Það var bara verulega ánægjulegt.

 

 

One Response to “Fúsi fimmtugur

  • Kristinjulia
    7 ár ago

    Þið eruð æði kveðja og afmælis knús

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *