Súpan í þrengingunum.

Það þrengir að mér og mér finnst ég vera með heimskara móti þetta vorið. Það er varla að farið sé út fyrir hreppalínuna. Heldur ekki út fyrir túngarðinn. Ég minnist ekki að hafa farið til útlanda síðan um miðjan febrúar en þá var farið fyrir fjörðinn og alla leiðina til Glücksburg eða um 50 mínútna akstursferð. Ég hef ekki farið til útlanda fyrir alvöru síðan í desember. Og engin utanlandsferð í vændum. Ekkert er í vændum og því hefur mér ekki liðið svona heimskri í fjölda ára. Nú er ég ekki að tala um að ég upplifi mig fávísa, vitgranna eða hreinlega vitlausa, heldur er ég að tala hérna í fornu máli  en Heimskur þýddi upphaflega sá sem heldur sig heima við og aflar sér ekki þekkingar á ferðum. 

Mér finnst gaman að þvælast um, gaman að gista á mismunandi stöðum, standa í mismunandi sturtum. Gott að sofa í öðrum rúmum með galopinn glugga.

En það verður ekki á næstunni.

Þess vegna þrengir að mér þessa dagana. Svo mikið að í nótt dreymdi mig að ég væri að keyra út Eyjafjörðinn og ætlaði suður, en fór vitlausu meginn við fjörðinn og utan í Hrísey hægra meginn, nema hvað, vegurinn var afar hæðóttur, upp og niður, og áður en ég veit af endar vegurinn og ég steypist niður og horfi á sjóinn nálgast á ógnarhraða úr fleirihundruð metra hæð. Ég vakna að sjálfsögðu áður en bíllinn skellur í sjónum. Þegar mig dreymir og ég vakna, held ég oftast áfram að dreyma. Í nótt eyddi ég löngum tíma í bílnum á leiðinni niður. Ég velti virkilega fyrir mér hvort best væri að losa beltið, opna glugga og ýta sætinu eins langt niður og hægt er. Eða ekki. Og á meðan ég spekúleraði svona mikið var ég á ógnarferð, beinustu leið niður. Þetta hrap varð til þess (eða ég kenni því um) að ég svaf vært fram eftir morgni. Fúsi vakti mig klukkan korter í sjö og spurði hvort ég ætlaði ekki í vinnuna? Jú það hélt ég nú. En ég legg alltaf af stað klukkan korter í sjö. Eða ætti að gera það. Stundum er hún tíu mínútur í sjö og þá hjóla ég eins og skrattinn sé á hælunum á mér. Ég á að vera mætt 06:55 og ekki seinna en það. Í morgun mætti ég mikið seinna, þrammaði inn á Gjörið í kynþokkafullu klossunum mínum og bauð góðan daginn. Vinnufélagarnir brostu ertingslega til mín og spurðu hvort ég hefði sofið vel. Ég brosti mínu breiðasta á móti og sagði: „já“ og þakkaði þeim síðan fyrir að spyrja. Mér þykir vænt um að þeir spyrji því það sýnir að þeir bera mikla umhyggju fyrir mér. Síðan spurðu þeir hvort ég héldi að ég væri forstjóri á Gjörinu því að ég mætti eiginlega þegar mér hentaði. Ég svaraði þeim að ég héldi ekki neitt, ég væri forstjóri Gjörsins. Þau hristu hausinn, helltu heitu kaffi í bolla og réttu mér.

Afhverju ferðu ekki bara eitthvað til útlanda? spyrjið þið. Fyrst þér finnst þú vera svona tjóðruð.

Svarið er: Ég er að skrifa lokaritgerð og þessi ritgerð er númer sex á þremur árum. Númer átta á níu árum. Sex ritgerðir hafa verið skrifaðar samhliða hundrað prósent vinnu og mikið meira en það ef Noregsvinnan er talin með. Tilhugsunin um að eyða nánast öllum mínum frídögum fram á sumar í ritgerðarskrif, murkar lífið úr mér, hægt og rólega svo að það brennur, svipað og ef ég lægi í baðkari fullu af brenninetlum. Þessi ritgerð hefur hneppt mig í fjötra. Ég ætla aldrei aldrei aldrei aftur í skóla. Aldrei.

Daglega dagdreymi ég um næsta haust. Allt sem ég ætla að gera þá og hvernig ég hef hug á að breiða úr mér á alla vegu. Þetta er ný tegund af dagdraumum hjá mér. Venjulega eru þeir súrrealistiskir en ekki núna. Ég sé í hyllingum hvernig ég á eftir að njóta þess að vera í fríi á öllum frídögunum.

En hafið ekki áhyggjur, örvæntið ekki, andlega hliðin er ekki úr jafnvægi þrátt fyrir þetta harmakvein.

Í gær var ég meira að segja í svo góðu skapi að ég lagði sál mína og svita í að gera súpu sem bragðaðist svona sallavel. Síðan lærði ég til korter yfir ellefu.

En súpan, mér datt í hug að deila henni með ykkur af einskærri góðmennsku og hjartahlýju.

Það virðist vera margt í henni og ég hugsaði með mér þegar ég renndi yfir allt þetta óríentalska innihald: „andskotans, djöfulsins, helvítis rugluppskrift, ég á ekkert af þessu“. En það reyndist ekki rétt. Það eina sem ég þurfti að kaupa var sítrónugras, sveppir, kókosmjólk og kóríander. Ég notaði kjúkling í staðinn fyrir lax því við áttum kjúkling. Það leynist nefnilega margt í myrkrinu í ísskápnum.

Kókossúpa með laxi og engifer. 

1/2 laukur

4 feit hvítlauksrif

1 grænt chili

1 stilkur sítrónugras

1 msk jómfrúarólífuolía

1 tsk gúrkumaja

40g engifer (rifinn fínt)

2 lime (börkur og safi)

3 msk fiskisósa

2 tsk sterk chilisósa

2 msk sykur (held að það verði ekki heimsendir ef honum er sleppt)

1 l grænmetiskraftur

2 dósir af kókosmjólk

600g lax (eða kjúklingur)

250g hvítir sveppir

sjávarsalt

svartur pipar úr piparkvörn

Punt: Rautt og grænt chili og ferskur kóríander

Meðlæti: hrísgrjón og gott baquette.

Aðferð:

 1. Fínhakkið lauk, hvítlauk og chili. Skerið sítrónugrasið í fínar sneiðar.
 2. Steikið laukana í ólíu þangað til þeir verða gegnsæir, Bætið chili, sítrónugrasi, gúrkumaju og engifer út í. Látið þetta malla á lágum hita í 1 mínútu.
 3. Skolið lime´ið og rífið börkinn. Setjið lime-börkinn, safann úr lime´inu, fiskisósu, chilisósu og sykur saman við hitt.
 4. Setjið grænmetiskraftinn og kókosmjög saman við. Látið þetta sjóða í augnablik og þar á eftir, malla í 5 mínútur. Þarna er best að notast við Span eldavél. Ef svoleiðis græja er ekki til á heimilinu er best að fara og kaupa svoleiðis, þess vegna á afborgunum. Málið er bara að eignast hana. Bætið laxinum við. Ef notast er við kjúkling, er betra að steikja hann einhversstaðar í byrjun ferlisins. Látið súpuna sjóða aftur og þar á eftir malla í 10 mínútur.
 5. Skolið sveppina og skerið þá í fernt. Bætið þeim við súpuna og látið malla í 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar.
 6. Berið súpuna fram með chili og kóríander (Það gefur rosalega gott aukabragð), ásamt hrísgrjónum og brauði.

Eldunartími: ca. 30 mín.

Magn: fyrir 4 manneskjur (nóg fyrir okkur þrjú í tvo daga).

Næring á manneskju (miðast við lax):

 • orka: 1320 kcal
 • protein: 81g
 • fita: 60g
 • kolvetni: 120g
 • trefjar: 2,6g

Uppskriftin er þýdd úr: I form nr4 2017. Bls. 77

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *