Fagurkerar og „límmiðinn“.

Í desember 2015 boðaði ung kona að nafni Dina til viðburðar í Kaupmannahöfn þar sem átti að brjóta röndótta blómavasa. 750 manns skráðu sig á viðburðinn. Og ekki nóg með það, það varð allt vitlaust á Netinu, fólk skiptist í tvær fylkingar; þeir sem ætluðu að brjóta blómavasa og þeir sem voru á móti því að brjóta blómavasa. Þeir sem voru á móti voru ívíð fleiri og þeim var heitt í hamsi og upphófst eldheit og haturskennd umræða um þennan viðburð.

Röndótti blómavasinn sem um var rætt var hinn 9 ára gamli danski Omaggio en hann er sonur Kähler sem er orðinn 175 ára gamall, tegund af vasa sem „allir“ verða að eiga og „allir“ gagnrýna alla fyrir að eiga. Umræðurnar undanfarin ár um blómavasann hafa oft verið heitari en pólitísku umræðurnar árið 2016.

En Omaggio er ekki sá eini sem skapar múgæsing og ofsafengnar umræður. Það gerir nefnilega hinn 136 ára gamli Iittala líka sem er finnskur að uppruna. Enda um fallega glervöru að ræða sem sómir sér vel á mörgum  heimilum. Nútíma heimili úa og grúa af annáluðum fagurkerum sem kunna að raða Iittala og Omaggio í hillurnar hjá sér eftir kúnstarinnar reglum. Stundum velti ég því reyndar fyrir mér hvað felist í hugtakinu fagurkeri. Samkvæmt nútímaorðabók þýðir það: „Sá eða sú sem ann listum og fögrum hlutum“. Danski heimspekingurinn Sören Kierkegaard skilgreindi fagurkerann aftur á móti á allt annan og margvíslegri hátt. Hann skrifaði  m.a. um hinn holdlegan fagurkera sem var upptekinn af lífsnautnum og stjórnaðist af ástríðunni og um hinn fræðilega fagurkera sem gælir við hugmyndir og fræðilega möguleika en tekur ekki afstöðu né skuldbindur sig á neinn hátt í verk. En það er ekkert að marka hvað Sören sagði, hann var nefnilega að gefa upp öndina um það leyti sem Omaggio og Iittala voru að fæðast þarna í upphafi síðari iðnbyltingarinnar. Hann hafði því ekki hugmynd um hversskonar skrautmunir voru að líta dagsins ljós og hversu miklum usla þeir ættu eftir að valda um gjörvöll Norðurlöndin. Við skulum því halda okkur við nútíma skilgreininguna. Það sem veldur mér bara hugarangri er þegar nútímafagurkerinn fær ofsafengið taugaveiklunarkast ef einhverjum „tregum“  frændanum verður á að kroppa agnarlitla límmiðan af Iittala-tertudisknum í fermingarveislunni, af því að hann hélt að límmiðin ætti ekki að vera þarna. Þá kemur einmitt spurningin, er tertudiskurinn notaður vegna notagildis eða fegurðar, eða vegna nafnsins?

Ég þekki „fagurkera“ sem óskaði sér rauðs leður eggs í 40tugs afmælisgjöf og fékk það. Eggið er gullfallegur gæðastóll og kostar 1.054.199 kr. Fólki er að sjálfsögðu alveg í sjálfsval sett í hvað það eyðir peningunum sínum en það renna á mig tvær grímur þegar Eggið er staðsett fyrir aftan sófann og fyrir framan fiskabúrið í þröngri stofunni og hún kallar sig ennþá fagurkera.

Á ofangreindan viðburð í Kaupmannahöfn mættu örfáir og fáir blómavasar voru brotnir sem sýndi að þeir sem voru á móti vasanum höfðu annað og þarfara að gera við tímann. Á meðan þeir sem elska vasann myndu vaða eld og brennistein klukkustundum saman til að eignast einn slíkann. Viðburðurinn var bara plat. Dinu, sem er bloggari, langaði ekkert að brjóta vasa. Hún hafði aftur á móti verið í hópi fólks úti á flugvelli og reynt að hindra að 19 ára gömlum, foreldralausum afgönskum strák yrði vísað úr landi og  að Dinu mati, beint í opinn dauðann. Dina bloggaði um þetta og fékk sáralítil viðbrögð. Hún ákvað því að prófa almenning og bjó til viðburðinn um að brjóta vasa og athuga hvort hún fengi meiri viðbrögð við honum. Við vitum öll hvort þessara tveggja fékk meiri athygli. Laxness skrifaði um ástríðuþrúngna fagurkera í einu af ritum sínum árið 1934 og það er kannski það sem nútíma fagurkerinn er; ástríðuþrúnginn.

2 Responses to “Fagurkerar og „límmiðinn“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *