Systkinasynirnir í Sönderborg

Ég var með fyrrverandi mágkonu mína á línunni þann 4. apríl síðastliðinn og skyndilega fann ég fyrir ofboðslegri þörf fyrir að fá son hennar, sem er bróðursonur minn, til mín. Ég viðraði þessa hugmynd og daginn eftir var búið að panta flugmiða. Og ekki nóg með að bróðursonur minn væri að koma, heldur var sú sama hugmynd viðruð við systur mína svo að systursonur minn kæmi líka. Daginn eftir að flugmiðarnir voru pantaðir eða þann 6. apríl, flugu þeir til Kastrup. Það hefði mátt halda að það hafi gerst eitthvað afar akut og alvorligt, eins og maður segir á dönsku. Eins og líf og limir hefðu legið við. En nútíminn er engin trunta. Hlutunum er hrint í framkvæmd eftir hentisemi og allt er hægt.

Umræddu frændur mínir eru Viktor Nói sem er ellefu, alveg að verða 12 og Aron Kristinn sem er 10 og alveg að verða 11. Þetta með „alveg að verða“ er mikilvægt. Ég man eftir þessu hjá Svölu minni sem var/er alltaf með hlutina á hreinu. Hún var 7 og 1/3 árs, 9 og 1/2 árs, já eða 15 og 3/4 árs. Hún er nýhætt að skilgreina aldur sinn á þennan hátt enda að detta í tvítugt. Við komuna til Danmerkur þótti áríðandi að skilgreina aldurinn í eitt skipti fyrir öll. Aron tjáði Viktori það að hann væri ekki enn orðinn unglingur, þar sem hann væri bara að verða 12, en til að vera unglingur þarf maður að vera þretTÁN. En þrátt fyrir þetta hafði Aron samt sem áður fengið 8 unglingabólur á lífsleiðinni, sem mamma hans hafði kreyst og þótt hún væri snyrtifræðingur, var það hrikalega vont.

Þeir tjáðu mér að flugferðin hefði gengið afar vel, það var reyndar ekki hægt að kaupa neitt með beinhörðum peningum um borð í WOWair, heldur bara korti en flugfreyjurnar voru svo indælar og skemmtilegar að þær gáfu þeim gos. Viktori fannst þær þó nota ívíð mikið af brúnkukremi. Það sást því þær voru svo sléttar.

Fyrstu dagana sem drengirnir dvöldu hjá okkur, viðraði vel til trampolínssamveru með nágrannadrengnum sem einnig heitir Viktor og einnig með kái, sem þótti alveg stórmerkilegt þar sem nágrannadrengurinn er af erlendu bergi brotinn.

Þeir komu eins og áður sagði á fimmtudeginum. Foreldrar drengjanna fengu að fylgjast með veru þeirra hérna í Sönderborg í einkahópi á snapchat, svona til að halda þeim rólegum og sýna fram á að allt væri í stakasta lagi.

…Þangað til ég fæ skilaboð á laugardeginum frá systur minni um að gjöra svo vel og setja barnið í sturtu og láta hann skipta um föt! Hún virkaði æst.

Ég gegndi og sendi svo ekki fleiri einkasnöpp á foreldrana.

Einn af mínum ókostum er sá að halda það að allt sem mér finnst gott eða skemmtilegt, hlýtur öllum öðrum að finnast gott og skemmtilegt. Þess vegna hlaut frændum mínum að finnast skógurinn frábær. Við gerðum tvær tilraunir:

„strákar, sjáið trén, þetta er beyki…“

„strákar, sjáið laufin sem eru að springa út…“

„strákar, sjáið allar litlar köngulærnar sem þekja jörðina, þær voru að fæðast… (hefði betur látið það ósagt)“

Þeim fannst ég heldur gönguóð og voru guðslifandi fegnir þegar glitti í bílinn eftir 6,5km langa strandar og skógargöngu. 

Þetta er Aron, hann er í landsliðinu í Taekwondo. Hann er í ágætis formi.

Þetta er Viktor, hann spilar fótbolta og þykir efnilegur. Er líka í ágætis formi.

Við, strákarnir og ég, vorum sammála um að 6,5km löng ganga væri alls ekki nóg á einum degi. Bauð ég þeim því í Jump house (trampólínhús) í Flensburg, svona til að halda þeim í forminu. Eftir trampolínhúsið bauð ég þeim út að borða. „Strákar, ég ætla að bjóða ykkur út að borða…“.

Þeir: „á McDonalds???“

Ég: „hehe neiiii, ég ætla að bjóða ykkur á veitingarstað…“

Þeir: „á Burger king???“

Elsku englarnir mínir voru þarna ekki búnir að átta sig á óbeit minni á þessháttar stöðum. Ég bauð þeim á hamborgarastað við Norður Torg Flensburgar, þar sem hægt er að fá borgara í allt öðrum gæðaflokki en Burger king og McDonalds. Strákunum fannst þetta töff staður þangað til það uppgötvaðist að ekki var hægt að fá kokteilsósu. Það þótti frekar lásí en Aron dó þó ekki ráðalaus og hrærði hana bara saman sjálfur á disknum sínum. Síðan fóru þeir saman á klósettið og rak í rogastans þegar þangað var komið… Mädchen og Jungs og engar myndir af kynjunum á hurðunum… hvoru megin í ósköpunum áttu þeir að fara. En allt bjargaðist þetta fyrir horn og voru þeir sáttir við staðinn þegar uppi var staðið.

Daginn eftir var rigning. Það hafði borist beiðni frá Íslandi um að versla föt á annan drenginn og eru slík verkefni ekki uppáhalds verkefninin mín, en læt mig hafa það. Til að auðvelda mér verkið hafði ég hugsað að splitta strákunum, taka bara þann sem átti að versla með, en úr varð að báðir komu með. Verkefnið reyndist ekki svo erfitt eins og ég bjóst við. Málið er einfalt. Fötin eiga að vera eins þröng og stutt og mögulegt er. Ef maður er að verða 12 ára, tekur maður ca 8 ára stærðir. Og annað er ekki til umræðu. Við fundum í sameiningu 3 flottar gallabuxur í stærð 8 ára, sem farið var með inn í mátunarklefa. Þær fyrstu reyndust mjög svalar á alla kanta. Ég sagði drengnum að máta næstu. „Afhverju?“ spurði hann.

„Nú, þú áttir að kaupa tvennar…“ svaraði ég.

„Já, þessar eru flottar, ég kaupi bara tvennar svona“ sagði hann og benti á fyrstu buxurnar.

Einfaldara og auðveldara getur það ekki orðið. Ég hugsaði með mér að margir gætu lært af þessum verslunaraðferðum.

Þegar heim var komið, var ákveðið að prófa nýju fötin og jú, þetta var þröngt og stutt, eins og er í tísku. Mér fannst þó buxurnar vera heldur stuttar og jafnvel styttri en í búðinni. Kom þá í ljós að Viktor hafði skellt sér í buxur sem keyptar voru á litla bróður hans sem er 5 ára, aaalveg að verða 6 (í september).

Á miðvikudeginum var líka rigning og það varð að hreyfa drengina. Hreyfingarleysi gerir engum gott. Þeim, Svölu og Jakob var smalað upp í bíl og keyrt til Weissenhauser strand sem er vatnsleikjagarður á norðausturströnd Þýskalands.

Á fimtudeginum fengu þeir að sofa út… til 10.30. Þegar þeir voru vaktir, kvörtuðu þeir sáran yfir að hafa ekkert fengið að sofa út í Danmörku. Ekki veit ég við hverju þeir bjuggust af mér… þeir hitta mig alltaf svo stutt í einu og halda því að ég sé eins og smjör í steikjandi sól. En það er ég ekki.

Föstudagurinn langi var tileinkaður páskaeggjum. Eftir að hafa leitað dauðaleit af földum eggjum í garðinum okkar, fórum við á páskabingó hjá Íslendingafélaginu í Sönderborg. Til þess eins að vinna ekki neitt.

Eftir 9 daga dvöl var þeim skutlað aftur til Kastrup. Í þessari 9 daga dvöl höfðu þeir setið í bíl í rúmlega 12 klukkutíma eða um 12ookm.

Þessir drengir eru svo frábærir að:

-þeir fengu flest sem þeir báðu um, þeir fengu að sofa út að mínu mati (voru vaktir í seinasta lagi kl 10 nema þennan eina dag sem þeir fengu að sofa til 10:30), þeir fengu að fara í sturtu þegar þeim hentaði og fengu að eyða hverri einustu dönsku krónu sem þeir höfðu með sér. Þeir fengu flest sem þeir báðu um enda vita vonlaust að neita þeim um neitt sem ekki drepur þá.

En hugsið ykkur hvað það er frábært þegar foreldrarnir treysta manni fyrir börnunum sínum. Í heila 9 daga. Í útlöndum. Mér finnst það frábært.

Takk fyrir mig.

 

 

2 Responses to “Systkinasynirnir í Sönderborg

 • Sæunn Geirs
  7 ár ago

  Elsku Dagný…hann Viktor Nói var alsæll eftir dvölina hjá ykkur Fúsa og er búin að segja mér sögur þusund þakkir fyrir að leifa honum að koma hann á eftir að lifa lengi á þessari ferð. Kveðja frá okkur Sæunn og Palli Keflavík <3

  • Gaman að heyra kæra Sæunn. Við nutum þess líka að hafa þá. Þeir voru eins og draumur í dós; skemmtilegir, kurteisir og góðir.
   Okkur hlakkar bara til að fá þá næst.
   Kær kveðja til ykkar allra <3

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *