Heima í sól og bókum.

Ég er komin heim. Það besta við vinnuna mína eru fríin. Þetta sagði ég reyndar líka um gömlu vinnuna mína. Sérstaklega næturvaktirnar. Það allra besta við næturvaktirnar var að skipta um föt, hjóla heim og fara að sofa. Þetta sagði ég blygðunarlaust. Metnaðurinn var og er ekki meiri. Þið sem hafið verið á næturvöktum þekkið líklega steinrotstilfinninguna þegar maður leggst á koddann. Eiginlega eina tilfinningin sem jafnast á við góða fullnægingu – ásamt flugtaki. Nema þegar þetta tvennt er sameinað; fullnæging og svo að fara að sofa. Það er lang best í heimi. Betra en góður humar. Þess vegna voru helgarnæturvaktirnar bestar hérna í denn í Sönderborg. Þá var ektamaðurinn enn upp í rúmi þegar ég kom heim.

Í þessum skrifuðu orðum er ég með vel þykka maskararönd undir báðum augum og í joggingfötum. Það hvarflar ekki að mér að breyta því, því sólin skín og kaffið er ótakmarkað. Hamingjusami hundurinn, sem fékk blóðmör í gær, mænir á mig og bíður eftir að ég segi með minni væmnustu og mest mjóróma röddu: „Eium vi a fara útað labba? Eium vi a fara í skóginn? Ohh dú ert svo dætur“ Stundum verðum mér flökurt af að hlusta á sjálfa mig tala við hundinn en ég get bara ekki að þessu gert. Þetta er hluti af sjálfstæða taugakerfinu eða det autonomiske nervesystem eins og það heitir á dönsku. Því sama og stjórnar m.a. líffærunum.

Það var svo sjúklega gott að koma heim í gær. Ég var orðin heldur framlág, þrátt fyrir að hafa sofið í fluginu til Danmerkur sem tók bara klukkutíma, í biðinni á Kastrup, í fluginu til Billund sem tók bara hálf tíma og í bílnum á leiðinni heim. Ég er alveg ágæt í að sofa hvar sem er. Á svona stöðum vef ég trefli eða klút fyrir andlitið, halla mér aftur og sofna. Klúturinn er til að varna því að hrekkjótt börn eða unglingar fari að kasta karamellubréfum upp í mig. Við heimkomu faðmaði ég Fúsa, Svölu og hundinn meira en góðu hófi gengdi. Þeir létu sig hafa það, en Svala mín, sú hreinskilna og frábæra dóttir, ýtti mér frá sér og sagðist þurfa að anda. Anda? Held nú að hún hefði getað andað seinna. Ég reyndi að múta henni með bingókúlum en hún lét ekki segjast. Vissi að hún fengi hvort eð er bingókúlur. Hún er ekki fædd í gær. Hún er á 21. aldursári. Síðan lagði ég mig í klukkutíma og vaknaði við að Fúsi hafði sótt sushi. Og hvítvínsflösku út í skúr. Bara fyrir mig. Hann er ekki vanur að nenna að sækja áfengi út í skúr. Nema þegar mikið liggur við.

Þegar Aldís og Svala voru litlar, áttum við aldrei vídeóupptökuvél en höfðum fengið svoleiðis lánaðar við og við og eigum því upptökur frá æsku stelpnanna. Loksins núna, vorum við að láta yfirfæra þetta af kassettum yfir á DVD diska. Því var DVD kvöld í gærkvöldi þar sem við horfðum á upptöku síðan 2003. Aldís sem var 7 ára, hafði verið að sýna dans í Vojens og eftir sýninguna, sátum við í gömlu Mözdunni og borðuðum nesti og ræddum það helsta. Það helsta þennan dag, var stríðið í Írak sem Aldís fræddi okkur um. Saddam Hussein og Bush voru vondir og stjórnuðu þessu stríði. Þá heyrðist í Svölu sem var 5 ára: „Og Hitler líka.“ Við leiðréttum það og sögðum henni að Hitler væri allur. Þær vildu samt báðar meina að Hitler hefði fundið upp stríð. Aldís hélt áfram og sagði að Hussain og Bush ætluðu að drepa Dalai Lama. Og aftur heyrðist í Svölu: „Og Hitler.“ Í huga Svölu var Hitler alls ekki allur. Einnig sagði hún okkur að írönsku bekkjarsystur Aldísar fyndist Hussaim „dum“.

Mikið óskaplega vildi ég getað ferðast aftur í tímann, þó ekki nema bara til að geta faðmað þær að vild og þakið þær með kossum án nokkurrra mótmæla. Þær voru talsvert umburðarlyndari þegar þær voru 5 og 7 ára en þær eru í dag, gagnvart svona löguðu.

Það er svo gott að vera komin heim. Var ég kannski búin að segja það? Ég hef ekki verið heima síðan í febrúar. Þegar ég lagðist upp í rúm í gærkvöldi og lokaði augunum í eitt augnablik af sælu, hélt ég að ég svifi á skýji við hliðina á Guði upp í himnaríki, en svo opnaði ég augun og sá að ég lá bara í rúminu mínu og Fúsi við hliðina á mér. Sama sælan.

Í dag er Fúsi að vinna og því hellingur af „me time“. Planið er að lesa og fara út í sólina. Veit ekki hvort ég geri á undan. Ég þarf nefnilega að lesa. Og þarf líka D-vítamín. Bæði jafn mikilvægt.

Síðasta daginn minn á Íslandi um daginn, fór ég að venju og verslaði. Mínar föstu verslanir eru Bónus og Eymundsson. Ég keypti:

 • Blóðmör
 • Kaffisúkkulaði
 • Bingókúlur
 • Bingóstangir
 • Prins póló
 • Æðibita
 • Rommý
 • Vígroða eftir Vilborgu Davíðsdóttur
 • Sauðfjárávarpið eftir Hákon Jens Behrens
 • Millilendingu eftir Jónas Reyni Gunnarsson (af því að hann er tengdur Fúsa á þann háttinn að báðir eru Fellamenn).
 • Afadalabarninu eftir Guðrúnu frá Lundi hnuplaði ég úr bókahillunni á Eiðum. Líklega skila ég henni ekki aftur því ég hef hugsað mér að erfa hana.

Ég er farin að panta hluti hjá foreldrum okkar Fúsa í arf. Svo óforskömmuð er ég. Þetta eru ákveðnar bækur en ég geri mér kannski ekki grein fyrir hvernig þeim líður með þetta. Dauðinn hlýtur að nálgast óðfluga með hverri heimsókn. Er ókei að ég erfi þessa bók? Og þessa? Og allar þessar? Þau segja alltaf já. Bæði mamma og tengdó. Pabbi segist bara eiga eina bók sem hann les aftur og aftur og verður orðin svo gatslitin þegar kallið kemur að hún dettur líklega í sundur. Þá hef ég lítið við hana að gera. Held að hann sé að leyna mig einhverju til að forðast deilur á milli okkar systra. Annars, ef bróðir minn les þetta, þá honum til hughreystingar hef ég ekki pantað Snjólaugu Braga. Maggi, þær eru þínar. Holdið er torvellt að temja. Lokast inn í lyftu. Allir eru ógiftir í verinu…Versgú.

Ég er farin út. Kannski ég taki Millilendingu með mér, setjist á bekk með útsýni yfir á Kegnæstangann. Sameini lestur og D-vítamín og hreyfi mig sem minnst.

Eigið frábæran dag.

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *