Vaskur í lífshættu.

Við Vaskur lentum í rosalegu í dag. Svo ekki sé meira sagt. Við vorum úti að labba í asahláku og löbbuðum meðfram ströndinni, framhjá Fiskerhytten og Fredsmaj sem er vatn í jaðri skógarins með miklu fuglalífi. Vatnið var ísilagt við fyrstu sýn og á ísnum tippluðu m.a. gæsir, endur og mávar. Vaskur í íslenskur fjárhundur sem hefur ekki haft tækifæri til að smala fé og því hafa mávarnir komið í stað þess. Vaskur smalar öllum mávum. Smalar þeim eitthvað út í loftið.

Vaskur var ekki ólinni þegar við gengum fram hjá Fredsmaj og að sjálfsögðu kom hann auga á mávana og án þess að hugsa sig um tvisvar, ákvað hann að smala þeim eitthvað út í buskann. Hann hljóp á harða spretti út á ísinn sem hélt honum vel, þangað til ísinn endaði. Þar datt hann útí.

Og komst ekki upp úr aftur.

Ég stirðnaði.

Við vorum á heimleið og því vissi ég að vatnið var ísilagt langt útí allsstaðar og því þýddi ekki að láta hann synda meðfram og komast annarsstaðar á þurrt.

Ég reyndi að kalla á hann og hvetja hann en ekkert þýddi. Það var ekki séns að hann kæmi sér sjálfur upp úr. Ég verð sjaldan hrædd en þarna var ég eiginlega skelfingu lostin. Ég tók símann, hringdi í Fúsa og sagði honum hvar ég væri og að ég væri að fara út á ísinn og bjarga hundinum. Ég vissi ekki hversu þykkur ísinn var, né hversu djúpt þetta vatn væri.

Það skagar tré út í vatnið og ég ákvað að halda mig við það, því þá hefði ég eitthvað til að grípa í og toga mig upp ef ég færi ofan í líka. En tréð var ekki til stórræða því að greinarnar voru svo stökkar að þær hrukku í sundur við minnstu snertingu.

Þarna rétt fyrir ofan miðja mynd er vökin sem Vaskur fór ofan í. Greinarnar sem brotnuðu sjást á víð og dreif.

Ég hélt af stað. Fyrst á tveimur en síðan á fjórum. Skíthrædd um að það brotnaði undan mér og enn hræddari um Vask. Einnig bölvandi bæjarbúum fyrir að vera ekki úti, akkúrat þarna í svona góðu veðri. Líka bölvandi samfélaginu fyrir að hafa þann háttinn á að flestir eru vinnandi um miðjan dag í Danmörku. En ég vissi að Fúsi var á leiðinni. Það brakaði aðeins og small í ísnum en ekki mikið. Ég fór framhjá trénu og nálgaðist Vask sem var örugglega búinn að svamla í ísköldu vatninu í tvær mínútur sem mér fannst sem tveir klukkutímar. Ég lagðist niður og náði taki á kraganum hans og dró hann upp úr. Hann var fljótur í land. Trúið mér.

Ég var líka eldsnögg í land, rennblaut upp að hnjám, hvernig sem ég fór að því og þegar við vorum búin að faðmast og hrista okkur, hringdi ég í Fúsa til að snúa honum við en hann var jú á leiðinni…

Hann svaraði: „Jááá.“

Svipað og manneskja sem er með 60/30 í blóðþrýsting. Svoleiðis manneskjur tala hvorki hátt né hratt. Þær tala varla.

Ég: „Þetta er ok, ég náði honum upp úr.“

Hann: „Jááá, flott…“

Ég: „Hvar varstu annars?“

Hann: „Ég var bara að hjálpa Línu með einhverja teikningu.“

„…“

Sko, ræðum þetta örstutt. Hundurinn okkar, eiginlegur sonur, var í lífshættu. Ég var í lífshættu. Og Fúsi fer bara að hjálpa Línu. Og gleymir að láta blóðið í sér renna!

Ég veit ekki af hverju hann gleymir að láta blóðið í sér renna þegar ég er í hættu eða tilkynni honum að ég sé að fara að gera eitthvað hættulegt. Læt hann vita svo að hann geti verið í viðbragsstöðu. Fer hann í viðbragsstöðu? Nei, hann fer bara að horfa á Star Wars mynd – eða að hjálpa Línu. Og blóðþrýstingurinn langt undir öllum skynsamlegum mörkum. Það er eins og hann taki ekki almennilega mark á mér. Að öllu jöfnu gengur hjónabandið alveg ágætlega, nema þegar ég er í lífshættu, þá gengur það hörmulega.

Og nú vitiði það.

 

 

2 Responses to “Vaskur í lífshættu.

  • Þú ert hetja dagsins,bjargaðir hundinum þínum frá því að frjósa úr kulda í vatninu. En Fúsi hann á bara að skammast sín, ?hafði ekk miklar áhyggjur af ykkur og þið sem voruð í lífshættu þú og Vaskur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *