Paris og prinsessurnar

Frumburðurinn og ég fórum til Frakklands aðfaranótt fimmtudags 13. mai. Fórum á fætur kl 2.45 og keyrðum svefndrukknar af stað til Hamburg. Þar sem engin var umferðin settum við nýtt persónulegt hraðamet á vegi nr 8 enda ekkert annað að gera til að halda sér vakandi! Ferðinni var nánar tiltekið heitið til RuS í Hamburg þar sem við ætluðum að parkera bílnum. Frábært parkeringspláss, með frábærri þjónustu fyrir lítinn penging! Mælum með þessu! Síðan var það flugferðin… með hellingsseinkun í Hamburg og bustúrum útí vél og bustúrum úr vélinni inn í flugstöð á Charles de Caulle. Þaðan í RER til Notre Dame og volla… komin á hótelið! Við bjuggum á hóteli sem er á götu sem heitir Rue St. Andre Des Arts og er útfrá Place St. Michael. Geggjuð staðsetning!!! Sala tók á móti okkur á hotelinu. Hann sagðist þekkja mann frá Akureyri… spurði svo hvort Akureyri væri ekki voða lítill bær sem við jánkuðum. Spurði svo hvort allir þekktu hvorn annan á Akureyri. Því jánkuðum við líka. Þá fannst honum svaka spælandi að muna ekki hvað akureyringurinn heitir því við hefðum jú getað sagt honum fréttir af honum! Þennan dag fórum við í Notre Dame, Jardin Du Luxembourg, sáum Pantheon og tókum svo Metro upp í Sacré Cæur um kvöldið. Yndislegur staður og frábær stemming.

Á föstudeginum röltum við eftir vinstri bakka Seine og alla leið vestur að Eiffel. Tók okkur aðeins 1 kl.t. frá því við stilltum okkur upp í biðröðinni í Eiffel og þangað til við vorum komnar upp í topp. Vorum nefnilega búnar að panta og borga miða via netið. Munar hellings tíma svo við mælum með því. Upp í Eiffel var nístingskuldi… þungskýjað og frekar kvasst. En samt flott 🙂 Tókum tröppurnar niður og virtum fyrir okkur smíðina… finnst persónulega turninn sjálfur og hönnuninn flottari og meira „imponerende“ heldur en útsýnið. Síðan um kvöldið var Segway túrinn okkar sem við vorum búnar að panta. Skemmtilegur og fróðlegur túr og þrælskemmtilegt að þeysast um á Segway. Fórum m.a. að Ecole Militaire, Hotel Des Invalides, yfir Pont Alexandre III, Place DE La Concorde og Louvre. Það var haldin „veitingarstaða“ pausa og þegar búið var að sporðrenna franska lambaskankanum var komið myrkur. Paris er án efa flottust í myrkri.  Eiffel skartaði sínu fegursta og kl 22 byrjaði hann að blikka… trilljón ljósperur blikkuðu í 5 mín! Klikkað flott!!! og já, mæli með því að fara upp í Eiffel í myrkri… held það sé miklu flottara! Fórum svo aftur að Eiffel þegar Segway var búið til að sjá hann blikka kl 23. Eftir það var Metroinn tekin heim á hotel 🙂

Á Laugardeginum fengum við morgunmatinn upp í herbergi því það voru öll borð upptekin í litla morgunmatarsalnum. Pakksaddar löbbuðum við galvaskar með VisaDan yfir eyjarnar, framhjá Palais de Justice og Hotel De Ville (ráðhúsið) og til Des Halles. Des Halles shoppingcenter hefur verið verslunarstaður síðan ca.1100 e. krist 😉 E-ð var nú keypt og spáð og spegulerað! Þangað til við fengum báðar höfuðverk… eftir 90 mín. Eftir það röltum við heim með alla pokana og steinsofnuðum. Fórum svo í siglingu á Seinen um kvöldið og mælum við ekkert með því… bara tíma og peningaeyðsla. Maður sér ekkert sem maður er ekki búin að sjá. Sala fransmaðurinn í móttökunni á hótelinu, þessi sem þekkir akureyringinn, hristi hausinn þegar hann sá okkur aftur og fannst ótrúlegt að það kæmu íslendingar á hotelið sitt. Við værum bara 300000 og heilir 2 væru á litla hotelinu hans! Honum fannst Aldís og ég líka alveg eins… spurði hvort að allir íslendingar litu svona út! 🙂

Á sunnudeginum skein sólin 🙂 Loksins! Við leigðum okkur Velib-hjól. Það var æði! Hjóluðum til Louvre, fórum inn um leynilega innganginn sem Segwayguiden Tim sagði okkur frá. Keyptum miða í lítilli sjoppu í kjallaranum og þurftum aldrei að standa í röð 🙂 Börðum Mona Lisa augum og fórum fljótlega út aftur. Fólksfjöldinn og ranghalarnir fóru alveg með okkur. Lögðum okkur hjá glerpyramídanum og sleiktum sólina. Síðan voru ný hjól sótt og lá leiðin yfir Place Le Da Concorde þar sem umferðaslysatíðni er hæst í Paris. En það var sunnudagur 🙂 Við hættum okkur útá Champs Elysees þar sem hjól deila „hjólastíg“ með strætó og taxa! (svoleiðis er það á flestum götum í Paris). Ég verð nú að játa að mér var ekki sama þegar við vorum að nálgast Sigurbogann… hjálmlausar og í vangefni umferð! En á leiðarnenda komumst við og tilbaka til Placa De La Concorde á lífi og án þess að hafa tekið eftir Louis Vuitton „búðinni“ á leiðinni heim! Greinilega með lífið í lúkunum á hjólunum. Aldís var búin að fá nóg og fór og skilaði sínu hjóli og fór síðan upp á hotel og átti „quality“ tíma alein, sem hún nýtti í óeðlilega löngum sturtutúr (saunatúr) og á rölti um götuna okkar eyðandi peningunum í baguette á einum af baguettebörunum. Ég hjólaði áfram í austur til Bastillen. Æðislegt veður og það er BEST að vera á hjóli í Paris (þrátt fyrir hjólamenninguna sem er frekar ný og því aftarlega á hryssunni). Um kvöldið eftir að hafa lagt okkur (endalaust þreyttar ;)) fórum við í labbitúr og skoðuðum Sorbonne og borðuðum á pínulitlum mexistað.

 

Mánudagur, heimferðardagur… eftir að vera búnar að pakka og tjekka okkur út, stilltum við okkur í ískalda biðröð við Notra Dame til að komast upp í turninn. Áttum það nefnilega eftir. Dóum næstum úr kulda og biðum bara í kl.t. eftir að kaupa miða. Upp í Notre Dame var mikið hlýrra og biðin þess virði. Mæli mikið með túr þangað upp. Þegar við komum niður settumst við inn og hvíldum okkur og hlýjuðum 🙂 Katedralen er æði og ég gæti búið inn í honum! Fórum svo á kaffihús við hliðina á og fengum okkur hádegismat. Þar funduðum við og fundum út að við áttum 6 metromiða eftir og nokkra klukkutíma í brottför. Tókum ákvörðun um að berja Moulin Rouge augum…. en ekki hvað??? Eftir að hafa séð myndina ca 2000 sinnum urðum við bara! Rjóðar í kinnum gegnum við framhjá yfirgengilega mörgum sexshop og strippstöðum og vupti! Þá blasti myllan við okkur 🙂 Enn áttum við metromiða eftir… svo komið var við hjá Sacré Cæur aftur. Veðrið var æði… heiðskýr himinn og hitinn passlegur! Áttum virkilega erfitt með að standa upp af tröppunum og koma okkur af stað. Þetta er eiginlega uppáhaldsstaðurinn minn í Paris.

Frá Sacré Cæur fórum við heim á hotel, náðum í bögglana okkar, tókum RER útá völl og vorum komnar heim í Möllegade kl 23. Þetta var yndisleg ferð í alla staði þar sem Frakkar tóku á móti okkur eins og prinsessum og kölluðu okkur prinsessur allsstaðar allantímann 🙂

Þetta var upprifjunar- og minnisblogg til að gleyma ekki hvað við gerðum og sáum 😉

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *