Einn kjúklingur fimm sinnum í matinn.

Nú ætla ég að skrifa um kjúkling því að ég afrekaði í kvöld að borða kjúkling fjóra daga í röð og það merkilega var að þetta var alltaf sami kjúklingurinn ásamt tveimur lærum. Færslan inniheldur líka vöffludeig, heilan helling af grænmeti og sýrðan rjóma. Já og bygg.
Kjúklingur er af persónulegum ástæðum æ sjaldnar í matinn hjá okkur nú orðið og auk þess er hann rándýr. En lærin voru á tilboði af því að þau voru að renna út. Og nú eruði örugglega löngu búin að spyrja í hljóði: Hvernig entist þeim einn kjúklingur ásamt tveimur lærum í fimm máltíðir? Jú sjáiði til, stelpurnar okkar eru fluttar að heiman og við Fúsi erum farin í megrun, bæði tvö og hana nú. Fyrsta kvöldið var sitthvor vængurinn í matinn, næsta kvöld hálf bringa á hvort okkar og svona koll af kolli.

Ég er að grínast.

Ég þekki seiðkonu sem veit hvað hún syngur og sú sannfærði mig um að heimalagaður kjúklingakraftur (bone broth) væri allra meina bót. Því ekki að prófa og þess vegna var þessi rándýri kjúklingur keyptur sem var svo kannski alls ekki svo dýr þegar upp var staðið þar sem hann brauðfæddi okkur í fjóra daga samfleytt.

Á laugardagsmorgun hófst mallið – fundinn var til stærsti pottur heimilisins og kjúklingurinn, lærin tvö ásamt heilum helling af laukum og rótargrænmeti og nokkrum matskeiðum að edikki bætt í. Þegar þetta var búið að sjóða í hátt í fimm tíma, uppgötvaði ég að ég hafði gleymt að taka kjúklinginn upp úr og hreinsa af honum kjötið. Stokkið var til og ekki þurfti nema rétt að halda í rassinn á honum, þið vitið … þar sem stélfjaðrirnar sitja fastar og við fylltum alltaf með súkkulaði þegar stelpurnar voru yngri sem var reyndar ekki góð hugmynd því að þær og Fúsi slógust alltaf um þennan hluta kjúklingsins, enda ljúffengur með afbrigðum þegar súkkulaðið hafði bráðnað. Kjúklingamáltíðirnar voru alls ekki skemmtilegar hérna í denn og enduðu alltaf með ósköpum. Til þess að leysa þessar erjur á milli fegðininna, fór ég einu sinni í kjötborðið í Kvickly (Kaupfélaginu) og spurði hvort þau seldu staka kjúklingarassa (kyllingerøve) en það gerðu þau ekki. Þá hætti ég bara að hafa kjúkling í matinn og nú vitiði ástæðuna fyrir því.

Við tókum sem sagt bara í rassinn á kjúklingnum um miðjan dag á laugardaginn, hristum örlítið og viti menn, kjötið hrundi af honum. Beinagrindin var sett aftur í pottinn og áfram mallaði hún ásamt grænmetinu fram eftir kvöldi.

Ég hef verið einstaklega dugleg að borða grænmeti síðast liðið ár, þannig vill það stundum verða þegar heilsan kemst í háska, og því á ég alltaf slatta af grænmeti í ísskápnum. Ég hafði líka verslað aðeins inn um leið og ég keypti kjúklinginn og lærin tvö.

Á laugardagskvöldið var höfðum við  hefðbundið kjúklingasalat í matinn með því grænmeti sem til var. Auk þess var ég svo heppin að eiga fetaoststykki, þið vitið, þennan rjómakennda í fernunni sem er svo góður.

Hér í sýslunni er veitingastaður sem heitir Pönnukökuhúsið eða Pandekagehuset ef rétt skal være. Þetta er skemmtilegur og sveitalegur staður sem býður eingöngu upp á pönnukökur, bæði með matarfyllingum og með kaffinu. Þetta eru alveg ágætar pönnsur með ágætisfyllingu ef fólk fílar skífuskorna tómata og gúrkur ofan á iceberg salatblaði sem síðan er sett ofan á kjöt eða fiskmetið. Þetta er eins og ég skrifaði, alveg ágætt, en heldur bragðlaust fyrir minn smekk. En það er bara minn smekkur. ALLIR aðrir segja að pönnsunar þarna séu mergjaðar.

Síðasta fimmtudag hafði ég steikt vöfflur en ekki notað allt deigið sem ég setti inn í ísskáp. Í hádeginu í gær, þegar ég stóð fyrir framan ísskápinn glorsoltin eftir púl garðvinnu, vitandi að húsbóndinn væri á leiðinni inn, enn soltnari en ég, kom ég auga á vöffludeigið og hugsaði: aha … þetta get ég notað.
Ég tók löngu útrunna mjólk með úr í ísskápnum og þynnti deigið vel svo að úr varð pönnukökudeig. Þarna sem ég stóð og pískaði deigið og hitaði pönnuna, ákvað ég að toppa pönnukökurnar í Pönnukökuhúsinu. Ég bakaði fjórar pönnsur og í fyllinguna notaði ég:

  • iceberg
  • tómata (smátt skorna)
  • hvítlauk í skífum
  • fennikel
  • radísur
  • fetaostinn

Ég mýkti líka lauk, hvítlauk og toppkál (næstum því það sama og hvítkál) á pönnu og bætti svo perlubyggi saman við. Ég hafði soðið bygg á fimmtudaginn og átti afgang í ísskápnum því að ég sýð viljandi oft mikið af því. Út í þessa blöndu bætti ég ágætlega soðna kjúklingnum saman við.
Mig langaði í einhverja sósu með þessu og þá voru góð ráð dýr, engar sósur til á heimilinu … en þá rak ég augun í dós með sýrðum rjóma. Og kryddblöndu frá Kims átti ég uppi í skáp. En ef ég hefði ekki átt hana, hefði ég notað safa úr sítrónu og graslauk og blandað saman við sýrða rjómann. Hitt var bara auðveldara og ég orðin meira en glorsoltin.

Úr varð sú besta matarpönnukaka sem að ég hef á ævinni smakkað!

Í gærkvöldi var síðan Kjúklingaspaghetti en það líktist því miður einhverju sem hundurinn gæti hafa ælt upp úr sér þó að það hafi bragðast eins og mannamatur. Í það var ég bara að nota hitt og þetta af því sem til var.

Í hádeginu í dag gerði ég Kjúklingabyggpönnu. Ég steikti restina af toppkálinu, lauk, hvítlauk, gulrætur, restina af perlubygginu og kjúkling á pönnu. Þetta er orðinn mjög algengur hádegismatur á mínu heimili, reyndar fyrir utan kjúklinginn en í staðinn bara meira grænmeti. Þetta er svo auðvelt, fljótlegt og það er alltaf eitthvað til í ísskápnum til að skella á pönnuna.

Og í kvöld, síðasta kjúklingamáltíðin … tatadarra … var Kjúklingatortillur!

Ég átti tortillurnar í frystinum en hvað með allt hitt? Jú það var sami fetaosturinn, sömu radísurnar, fennikilinn, blaðlaukur, rauðlaukur, hvítlaukur, iceberg, gúrka og … KJÚKLINGUR. Sósan er sú sama og ég notaði í pönnukökurnar.

Úr því smotteríi sem ég verslaði á föstudaginn urðu til allar þessar máltíðir. Ég fæ svo góða tilfinningu djúpt ofan í maga, þegar mér tekst að nýta allt sem til er svona vel og um leið komast upp með að fara ekki í búð í marga daga í röð.
Auk þess á ég líka til marga lítra af galdraseyði í frystinum sem mun bæta mig og kæta.

En fyrst ég er byrjuð að skrifa um mat í þessari færslu, þá freistast ég til þess að segja ykkur hvað Fúsi borðaði í kvöld. Mig grunar að þið eigið ekki eftir að trúa mér, segja mig vera að bulla en ég sver fyrir það, að þetta er nær sannleikanum en sjálf bíblían án þess þó að ætla að fara að þræta um hversu nálægt eða fjarri sannleikanum hún sé.

Þannig er mál með vexti að Fúsi fór til Aarhus í morgun og kemur heim annaðkvöld. Hann gistir á hóteli. Í gærkvöldi sótti hann sér hrossabjúgu í bjúgnabyrgðaskúffuna sína í frystinum og sauð, ásamt kartöflum. Þetta stappaði hann saman með miklu smjöri á venjulegum matardiski. Viltu ekki setja þetta í plastbox ástin mín, spruði ég. Nei, ég borða bjúgu af diski, svaraði Fúsi og vafði plastfilmu utan um diskinn og bjúgnakássuna, svipað og búslóð á pallettu er vafin og stakk disknum síðan ofan í tösku þar sem aukafötin og tannburstinn voru fyrir. Í morgun brunaði hann til Aarhus með kvöldmatinn tilbúinn í töskunni.

Ég heyrði svo í honum í kvöld, stuttu áður en ég fór að gera Kjúklingatortillurnar mínar og spurði hvað hann væri að gera. Hann svaraði að hann væri uppi á hótelherbergi og  að borða bjúgun sín. Ég heyrði að hann var alsæll og spurði hvort hann væri bara að borða þau köld eða hvort það sé örbylgjuofn á herberginu. Nei nei, ég fór bara niður í Lobbý og bað þau um að hita þetta upp fyrir mig. Hvað gerðirðu segirðu??? Ég trúði náttúrulega ekki mínum eigin eyrum. Já það stendur á heimasíðu hótelsins að þau vilji allt fyrir gestina gera og að það megi spyrja um allt, svaraði Fúsi og smjattaði vel á einum af mörgum fitukögglum sem læðst hafði með í bjúgað.
Ég greip fyrir andlitið og stundi, þú ert að grínast í mér, er það ekki? Þú baðst þau ekkert um að hita þetta upp … Jú, mér finnst þetta mikið betra heitt, svaraði hann.
Jeminn dúdda mía og hvað svo, spurði ég og vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta. Nú, ég fór bara með diskinn niður í Lobbý og bað manninn um að hita þetta upp fyrir mig og hann kallaði á þjón sem að skoðaði diskinn og spurði hvað þetta væri og fór svo inn í eldhús til að tala eitthvað við kokkinn. Kom svo aftur og sagði að hún gæti hitað þetta en hún brosti ekki baun, en tók samt diskinn og fór með hann.
Og hvar beiðst þú á meðan? Í Lobbýinu? Nei nei, bara við innganginn að veitingasalnum, þetta var rosalega flottur veitingasalur og fullt af fólki að borða þarna og svo kom hún með diskinn og það rauk alveg upp úr honum, hann var alveg sjóðandi heitur. Ég fann ilminn um leið og hún opnaði dyrnar að eldhúsinu, sagði Fúsi og smjattaði sem aldrei fyrr á sinni ástkæru bjúgnastöppu.

 

4 Responses to “Einn kjúklingur fimm sinnum í matinn.

  • Margret Guðmundsdottir
    5 ár ago

    Ha,ha, ha! Frábærir matardagar hjá þér. En gott að Fúsi var í öðrum bæ með hrossabjúgun !

  • Ásdís
    5 ár ago

    Líst vel á þetta, s

  • Helenidovoky
    4 ár ago

    Halló.

    Þar sem ég get sótt XEvil fyrir frjáls á vefsíðuna þína?
    Fékk upplýsingar frá Stuðning þinn. XEvil er í raun besti áætlun fyrir kapteinn leysa, en ég þarf nýjustu útgáfu af honum.

    Takk.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *