Þrír góðir hlutir sem gerðust í gær.

1

Við Fúsi fórum með dósirnar og flöskurnar. LOKSINS. Þetta voru þrír ruslapokar með þriggja ára byrgðum og alltaf verið hummað fram af okkur báðum. Hér áður fyrr var þetta verk stelpnanna og þær fengu að eiga peninginn sem fékkst fyrir. Eftir að þær stækkuðu og voru komnar með bílpróf og gátu þar af leiðandi farið sjálfar, fóru þær held ég bara beint á McDonalds sem er beint á móti Bilka þar sem að okkar mati er þægilegast að fara með dósir og flöskur og spanderuðu peningunum þar við lítinn fögnuð móðurinnar. Við Fúsi ákváðum í gær að halda uppteknum hætti dætra okkar en þó ekki með að fara á McDonalds heldur á Café Fika sem er eitt af okkar tveimur uppáhalds kaffihúsum í bænum. En hvers vegna var þetta góður hlutur? Jú vegna þess að nú þarf ég ekki lengur að reka mig í, sparka í eða færa til yfirfulla dósapoka úti í skúr og ergja mig á að enginn nenni að fara með þá.

2

Ég kláraði að fylla út umsókn um ferðastyrk og mér finnst alltaf svo geggjað þegar ég klára hluti og get strokað þá útaf listanum mínum. Oft þegar mér finnst ég hafa mikið að gera eða margt að hugsa um, bý ég til lista til að:

# skapa yfirsýn

# hjálpa mér að muna og gera

# sjá árangurin

# fá vellíðunartilfinninguna beint í æð þegar ég lýk við eitthvað og það „hverfur“ af listanum. Ég þurfti undirskrift læknisins míns við þessa umsókn og hafði samband við hana á föstudagsmorguninn, þ.e.a.s. með engum fyrirvara því að ég þarf að senda þetta af stað á morgun og hún reddaði mér, þrátt fyrir eilíft annríki á þessari heimilislæknastöð. Vissuð þið að ég er með besta heimilislækni í heiminum? Svo hefur það líklega ekki seinkað henni að ég þegar ég fór með eyðublöðin niður á stöð, lét ég blað fylgja með þar sem ég hafði skrifað tillögu að því sem hún gæti skrifað … svona til að flýta fyrir henni. Hún notaði minn texta orðrétt.

3

Við Fúsi fórum í göngutúr með Vask niður á strönd og ég fór að príla á litlum grjótagarði. Ég veit ekki afhverju. Eða jú, ég veit afhverju, það var vegna þess að mér sýndist ég sjá frá ströndinni, að við enda grjótagarðsins væri lítill hylur og mig langaði til að sjá hvað hann væri djúpur því að sjórinn var með því allra tærasta móti og kannski myndi ég líka sjá fiska. Ég klöngrast því eftir litla grjótagarðinum og þegar ég kem út á enda, tylli ég tánni á slímugan stein – ég veit ekki afhverju, ég á að vita að slím er sleipt. En ég gerði greinilega meira en að tylla tánni því að skyndilega var allur þungi líkama míns á þessari tá og áður en ég vissi af, var ég runnin út í sjó. Hylurinn var mittisdjúpur á manneskju sem er 168cm á hæð. Afhverju var þetta góður hlutur? Jú vegna þess að þetta var hressandi og við hlóum að þessu restina af deginum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *