Í gær spurði Aldís mig, hvenær við ætluðum eiginlega að panta skólamyndirnar (var verið að taka myndir um daginn). Ég sagði henni að kíkja inn á síðuna og velja og svoleiðis. Hún fór að spá og spegulera. Síðan valdi hún…

Ég: „hvað valdirðu“

Aldís: „þessar og þennan pakka“

É: „öhhh halló, hvað ætlarðu að gera við passamynd sem er 20x30cm stór???!

A: „hengja hana upp einhversstaðar hérna (lítur í kringum sig í stofunni)“

É: „nééé heldurðu það nokkuð…“

A: „já, það er engin mynd af mér eða Svölu í stofunni“

É: „nei, við erum líka svona fjölskylda sem hengir hvorki myndir upp af lifandi né dánu fólki… er það nokkuð elskan?

A: „MAMMA, ÉG ER BARNIÐ ÞITT!!!“

(fæ alveg mauratilfinningu upp eftir bakinu við tilhugsunina um risavaxnar passamyndir upp á vegg).

Síðan er Svala núna að horfa á alveg glataðan hávaðaþátt sem heitir bingo banko. Áðan átti að Mads Christiansen að segja hvort það væri góður eða lélegur stíll að búa til far eftir þófann á gæludýrinu sínu í gipsplötu (eins og sumir gerðu við börnin sín) og hengja þetta upp í bílnum sínum eða gefa þetta í jólagjöf… Mads sagði náttlega að þetta væri glataður stíll….

Ég: „enda gat hann ekki svarað öðruvísi… það myndi eyðileggja jólin fyrir öllum að fá fótspor eftir einhvern hund í gipsplötu…“

Svala: „nei, það væri bara alltílagi…“

Ég: „NEI Svala, það væri ömurlegt…“

Svala: „mér finnst það ekki…“

Ég: „er ekki í lagi með þig ástin mín?“

Svala: „ég er BARA BARN mamma“

Finnst þetta „er bara barn“ og „er barnið þitt“ algjörlega ofnotað og klént… total dårlig stil! Lætur mann fá einhversskonar samviskubit sem algjör óþarfi er að fá.

Í gær saumaði ég og í dag saumaði ég… algjör saumakona… Elska saumavélina mína (ein af þeim fáum hlutum sem ég elska rosalega heitt) en vanræki hana skuggalega. Hef átt hana í 14 ár og aldrei farið með hana í tjekk eða smurningu. Í gær voru nokkrir byrjunarörðuleikar en ég pillaði hér og þar og svo gekk hún. Ég saumaði í 6 kl.t. í gær. Í dag fékk ég fleiri hugmyndir… reif þrennar gallabuxur í druslur og hélt áfram að sauma. Þegar ég var ca hálfnuð með þetta flókna verk, fór að heyrast hljóð í Pfaff Tiptronic. Hljómaði eins og fuglsungi væri fastur inn í vélinni og væri alveg í panikki. Ég varð svakalega stressuð, því þótt ég vissi að þetta gæti ekki verið og að það kæmist ekki ungi inn í vélina, (þótt ég hafi misst títuprjón inní hana í gærkvöldi) fannst mér þetta hljóð svakalega óþægilegt. Í hvert skipti sem ég steig bensíngjöfina í botn byrjaði fuglsunginn að panikskríkja. Og ég byrjaði að sauma skakkt, sumsstaðar voru holur og sumsstaðar voru svona „udposninger“ (Ausbuchtungen á þýsku) og svo endaði aðgerðin á að ég braut nálina…  En haldiði ekki að týpa eins og ég, hafi átt auka nál! Svo ég gat klárað mitt skakka og flókna verkefni.

En eitt er ég handviss um. Ég ætla aldrei að gera bútasaumsteppi! (Finnst þau líka frekar ljót). Ef ske kynni að ég, einhverntíman í framtíðinni, skyldi setja á statusinn minn á facebook: „Dagný Sylvía Sævarsdóttir ætlar að sauma bútasaumsteppi :)“  viljiði þá hringja í minn eigin lækni á Tandsbjerg og spyrja ráða.

2 Responses to “

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *