Heilinn hagar sér

Ég hef engu gleymt þó að ég tali ekki um það.
Og láti sem ekkert sé.
Úr textanum : Hversvegna varst’ekki kyrr.

Í vinnunni um daginn lá sjúklingur á gjörinu sem að hafði fengið nýtt líffæri fyrir einhverjum árum síðan. Allt gekk vel eða þangað til hann lendir í óvenjulegu og mjög svo óheppilegu slysi og helmingurinn af líffærinu eyðilagðist og þurfti að fjarlæga skemmda hlutann. Þrátt fyrir það, tókst honum að rísa aftur upp og allt gekk vel. Eða þangað til hann þurfti að leggjast inn á Gjörið hjá okkur. 

Ég var á annarri stofu en þessi sjúklingur og samstarfskona mín var að segja mér söguna hans. Ég átti ekki til orð yfir óheppninni og segi eitthvað á þá leið: „Það er alveg ótrúlegt hvað sumt fólk getur verið óheppið og hvað það getur lent í klikkuðu …“ Ég var að sýsla með slöngur sem þurfti að setja saman sem krafðist einbeitningar og því varð eðlileg þögn, að ég hélt, eftir að ég sagði þetta. Eftir stutta stund segir samstarfskona mín: „Þú varst líka óheppin og lentir í klikkuðu …“ „Ha? nei mitt var allt öðruvísi“ svaraði ég hálfhissa. „Já má vera, en samt alveg sambærilega klikkað“ sagði samstarfskonan og horfði grafalvarleg á mig. Aftur þögn. „Já þú meinar“ sagði ég og áttaði mig á að ég hafði á engan hátt séð sjálfa mig í svipaðri aðstöðu og óheppni sjúklingurinn.

Ég áttaði mig á að í vinnunni tekst mér að „gleyma“ mínum aðstæðum á ákveðin hátt, þó að sjálfsögðu sé engu gleymt heldur allt bara vel geymt. Ég er starfsmaður á Gjörinu; „réttu“ megin við borðið, á mínum stað. Samt poppa upp minningar oft á dag þegar ég eða aðrir gera það sama við sjúklingana og var gert við mig.
T.d. þegar ég dró magasondu upp úr sjúkling á fimmtudaginn, þá mundi ég svo greinilega eftir tilfinningunni þegar síðustu sentímetrarnir eru eftir og maður kúgast svolítið og hryllir sig.
Þegar ég lét uppblásna hitasæng yfir kaldan sjúkling í gær, mundi ég eftir vellíðunartilfinningunni þegar ég vaknaði ísköld eftir svæfingu og aðgerð síðastliðið vor og svona hitasæng var lögð yfir mig.
Eða þegar mér var snúið á hliðina þegar ég lá á gjörgæslunni og hjúkrunarfræðingarnir settu upprúllaða sæng við bakið á mér og púða á milli hnjánna og fótanna og mötuðu mig á litlum ísmolum. Ég elskaði það. Það var þá sem ég spurði hvort við værum inn í geymslu? „Ha geymslu“ kváðu þær hissa. Mér fannst umhverfið á gjörgæslustofunni vera svo draslaralegt við fyrstu sín um miðja nótt í rökkrinu, en við nánari athugun, voru þetta bara öll tækin sem tilheyra gjörgæsluplássi.
Já eða þegar ég fór með gamlan gaur yfir á röntgendeildina því að hann þurfti að fá nýrnastóma. Læknirinn sagði: „Þegar ég deyfi þig, finnurðu fyrir stungu og það svíður og spennir í húðinni en eftir það muntu ekki finna neitt.“ Ég hugsaði: “Einmitt, yeah right …“ Eiginlega langaði mig til að öskra: „LYGARI!“ Þegar læknirinn síðan stakk stóru nálinni inn í nýrað, kipptist gamli gaurinn við, gretti sig og hrópaði Á. 

SÁ NÍRÆÐI

Sá níræði var lagður á bekkinn

og var velt. 

Hann breiddi yfir´ann

og strauk´onum. 

Og strauk honum aftur. 

Það var kalt. 

Sagði svo: þú finnur stungu

og svo finnurðu ekki neitt.

 

Hann stakk í hann hnífnum 

og sá níræði sagði ái. 

Hann beið. 

Sá níræði 

sem er á tíræðisaldri, 

lá í hnipri

grafkyrr. 

Sagðist vera góður í að lyggja kyrr.

Grafkyrr. 

 

Hann stakk´ann aftur. 

Sá níræði var hljóður. 

Hann sagðist vera góður í að vera hljóður. 

Hann stakk og stakk, 

nálin varð stærri og stærri. 

Sá níræði lá grafkyrr. 

Og hljóður.

 

Hann stakk djúpt. 

Sá níræði kipptist til

og sagði ái. 

 

Hann hafði logið. 

Hann sagði að hann myndi ekkert finna. 

Sá níræði fann. 

Fann til. 


Þannig að oft á dag, þegar ég er að gera það sama við mína sjúklinga og var gert við mig, poppa minningar upp. Það er samt ekki óþægilegt, ekki þannig að mér verður flökurt eða að ég fari að gráta. Oftast er það svona: Hey, ég man eftir þessu … og þessu … og þessu. En ég segi það ekki upphátt, bara inn í mér. Leyfi mér að minnast í augnablik og svo flýgur minningin á braut. Það kemur þó fyrir að ég þarf að ræða upplifanirnar við samstarfsfólkið og þá er það bara gert og klárað. 

Ég er ánægð með sjálfa mig fyrir að geta greint á milli minna eigin aðstæðna; verið þar sem ég á að vera hverju sinni og parkerað öðru, þrátt fyrir að vera ósjálfrátt minnt á mína fylgifiska og frændur þeirra nánast í hverju skrefi og í hvert sinn sem ég þarf að reyna á mig, hvort sem það er líkamlega eða vitsmunalega. Samt yfirtaka þeir sjaldnast, heldur svamla þeir í humátt á eftir mér, án þess að trufla of mikið. Æ, það er erfitt að útskýra svona en ef draga á saman þá er ég aðöllu jöfnu, mjög sátt við hvernig heilinn í mér hagar sér.

 

 

4 Responses to “Heilinn hagar sér

  • Margrét
    5 ár ago

    Góður pistill ! Ef ég ætti eftir að liggja á gjörgæslu , myndi ég biðja um þig . Sé samt ekki fyrir mér að það yrði í Danmörku. En maður veit aldrei.?

  • Guðrún Ben
    5 ár ago

    Þú ert mögnuð

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *