Fimm kílómetra ráðið

Fyrir stuttu síðan tók ég eftir að samstarfskona mín leit stórkostlega út og sagði henni það. Hún þakkaði fyrir og sagðist vera á skynsemismataræðiskúrnum þar sem magn matarins færi eftir lófastærðinni. Og svo sagðist hún líka hafa farið að ráðum mínum um fimm kílómetrana.

„Ráðum mínum?“ kváði ég frekar hissa, algjörlega óminnug þess að ég hefði ráðlagt henni eitthvað. „Jú mannstu, þú sagðir að allt yfir fimm kílómetrum í hlaupi á malbiki væri óhollt fyrir liðina og væri með öllu tilgangslaust að hlaupa lengra hreystisins vegna. Ertu kannski búin að skipta um skoðun?“ svarði hún. „Sagði ég það? Nei nei, ég er alls ekkki búin að skipta um skoðun, alls ekki,“ svaraði ég svolítið roggin með mig. Og hvað segirðu, virkaði þetta fyrir þig?“ Ég varð að heyra meira. „Já,“ sagði samstarfskonan, „það tekur ekki svo langan tíma að hlaupa í mesta lagi fimm kílómetra þannig að þetta er alltaf yfirstíganlegt og þess vegna hefur mér tekist að halda mig við þessa hreyfingu.“

Það eru í minnsta lagi tvö og hálft ár síðan ég gaf samstarfskonunni ráðið, því að ég hef ekki verið á þessum vinnustað síðastliðin tvö og hálft ár, fyrr en nú. Það þykir mér langur tími að endast í sömu hreyfingunni af manneskju eins og samstarfskonan, sem er ekki húrraglaður íþróttaálfur.

Samstarfskonan er dæmigerð nútímakona; gift, þriggja leik- og grunnskólabarna móðir, með stórt hús, hund og allt sem þessu tilheyrir. Hún er meðvituð um að börnin eru flutt að heiman áður en hún veit af og gerir sitt besta til að forgangsraða tíma sínum í þágu fjölskyldunnar og komast klakklaust í gegnum daginn, þar sem hver fjölskyldumeðlimur sinnir sínum skyldum og áhugamálum. Á sama tíma vill hún vera hraust og heilbrigð. Þess vegna hentar henni mjög vel að hreyfa sig aðeins í stuttan tíma, ef formið er ágætt tekur aðeins um hálftíma að hlaupa fimm kílómetra og minna ef hlaupið er styttra.

Þetta litla fimm kílómetra ráð mitt, sem ég hef eflaust kastað fram í hálfgerðu gríni, þó svo að þetta sé mín skoðun, virkaði greinilega afar vel fyrir samstarfskonu mína og það gladdi mig. Á sama tíma kom ég sjálfri mér skemmtilega á óvart því að hingað til hef ég víst ekki verið talin til íþrótta- eða hreyfingargúrúa. En ég ætti kannski að íhuga að fara að leggja þetta fyrir mig samt sem áður?

Ég er nefnilega sannfærð um mikilvægi þess að passa þurfi upp á liðina og því tek ég tröppurnar upp og lyftuna niður. Og þar sem hlaup er hinn stóri syndari þegar kemur að álagsmeiðslum á meðal annars hné, hásin og ökkla hef ég aðeins þrisvar sinnum á ævinni hlaupið meira en fimm kílómetra í einu. Ég var innan við fermingu og fékk vænar fúlgur fjár fyrir að elta rollur uppi í fjalli og hafði aldrei heyrt talað um álagsmeiðsl. En ég slapp því að það er lítið malbikað uppi í fjöllum.

Ef að einhver fyrir austan skyldi eiga eftir að strengja áramótaheit eða setja sér markmið fyrir árið 2020, þá er guðvelkomið að nýta sér þetta fimm kílómetra ráð mitt alveg gjaldfrjálst. Værsgo.

Færslan birtist sem lokaorð í Austurglugganum föstudaginn 31. janúar 2020.

 

2 Responses to “Fimm kílómetra ráðið

  • Guðrún
    5 ár ago

    Fyrirtak þá er bara að byrja að æfa

  • Hanna Sigmarsdottir
    4 ár ago

    Bestu þakkir fyrir að deila þessu ráði.
    Er ekki enn orðin að hlaupara en finnst gott að heyra góð ràð.
    Húsráð eru uppihalds hjá Sigrúnu ,húsfreyjuràð helst. Einsog góðir konfektmolar.Endurnýttir konfektmolar. Svo mikið skemmtilegt að
    Lesa bloggin þín . Og endilega hafðu það æðislegt .

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *