Línudans á ísilagðri línunni.

Janúar er búinn og febrúar er byrjaður. Í janúar uppgötvaði ég að ég er byrjuð að stunda línudans og held því áfram í febrúar. Mig sem langaði meira að fara í yoga.
Ég er að sjálfsögðu ekki búin að strenga línu þvert yfir lóðina, þá lægi ég líklega fyrir löngu hálsbrotin í gegnsósa garðinum.
Ég er að tala um línudansinn eða jafnvægið á milli vinnu og einkalífs.
Vinnan hefur átt hug minn allan í janúar sem er fullkomnlega eðlilegt en á sama tíma vakna upp ótal spurningar: 

-Hvursu hratt á ég að auka tímafjöldann?
-Hvursu marga daga í viku á ég að vinna? 
-Hvar á ég að leggja inn hvíldardaginn?
-Get ég sleppt kennslunni í vinnunni á miðvikudögum? 

-Hvursu þreytt má ég vera?
-Hvað er eðlileg þreyta?
-Hvað er óeðlileg þreyta?
-Hvenær má ég gefa í?

-Hvenær á ég að stíga á bremsuna?
-Ef ég dett af línunni, hvursu snögg á ég vera upp á hana aftur?
-Hvursu oft má detta af línunni? 

Samkvæmt læknisráði er ég veik til 1. apríl. Samkvæmt fróðum er það gullna reglan að lengd tíma til aðlögunar á vinnumarkaði eftir lengd veikindaleyfis eða ferlis. Því lengra sem veikindaferlið er, því lengri tíma þarf til að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Það getur verið þrautinni þyngra að fara eftir þessari gullnu reglu og afar auðvelt að taka fram úr sjálfri mér. Þau fróðu eru sífellt að pikka í öxlina á mér og minna mig á. Eða standa á móti mér, haldandi um báðar axlirnar á mér og spyrna á móti. Slakaðu á kona. 

Svo rekst ég á hina sem hafa ekki upplifað svipað og vita því ekki betur. Og spurningarnar dynja yfir mig; 

Afhverju skellirðu þér ekki bara í vinnuna til Noregs? Eða afhverju ertu í starfsþjálfun, afhverju ferðu bara ekki að vinna alvöru vinnu. Þegar ég kláraði lyfjameðferðina var ég spurð afhverju ég færi bara ekki beint að vinna og ynni fram að aðgerð í júní ’19? Ég var líka spurð afhverju ég ynni ekki smá með lyfjameðferðinni. Sumir gera jú það. 

„Hva´ ÞÚ þarft ekkert að vera í starfsþjálfun … ÞÚ þarft ekkert aðlögun …
Hva´ þú skellir þér bara hitt og hellir þér út í þetta.
Skelltu þér í skóla, taktu masterinn eða kandidatinn,
farðu að hjóla, ætlarðu svo ekki í maraþon?„

Ég veit vel að slíkar spurningar eru ekki sprottnar upp af óvilja eða illgirni, heldur sprottnar upp af vanþekkingu. Enda geta ekki allir vitað allt. Þær spretta líka oft upp vegna ofurtrú viðkomandi á mér. Haldandi að ég bara geti allt mögulegt en svoleiðis liggur landið ekki. Takk samt. Ég er bara ótrúlega ofurvenjuleg manneskja sem reyni að fóta mig á ísilagðri línunni sem ég dansa á daglega. 

 

3 Responses to “Línudans á ísilagðri línunni.

 • Asdis Johannsdottir
  4 ár ago

  passaðu bara að halda þér á línunni og farðu varlega á henni, þú gætir dottið ef þú gerir það ekki

 • Guðrún Ben
  4 ár ago

  Hlustaðu þitt innra sjálf. Farðu varlega. Það er bara eitt eintak af þér.

 • Sunna Björg
  4 ár ago

  Elsku Alrún
  Ég tengi svo við þennan línudans. Mér eru sérstaklega hugleiknar vangaveltur þínar um það hversu oft þú mátt detta af línunni. Ég greindist með brjósakrabbamein feb. 2016. Ég fór út á vinnumarkaðinn haustið 2018. Ég byrjaði í 35 % vinnu (er grunnskólakennari). Mörgum fannst það lítið, sumum fannst það mikið, öðrum fannst hitt og hinum fannst þetta. Guð hvað það getur verið erfitt að fá svona mikið af ráðum og oft frá fólki sem vill vel en veit ekki. En hvað um það. Ég hafði ekkert að gera við það að fara í meiri vinnu. Það var ekki bara líkamlegt þrek, heldur var einbeitningin af skornum skammti og hið minnsta álag gat farið mjög illa með mig. Ég á þrjú börn (5, 11 og 15 ára). Stundum er aukið álag í kringum blessuðu börnin og svo komu jólin alveg aftan að mér þetta haustið. Fullt af skemmtilegum verkefnum sem bætast ofan á og ég átti ekkert auka. Ég fékk nokkur ,,örmögnunarköst“ þetta haust. Þessi ,,batt low köst“ eru virkilega óþægileg bæði líkamlega og andlega og ég tel mig vita að þú þekkir þau. Ég fór síðan í viðtal hjá krabbameinslækninum mínum í febrúar 2019. Taldi mig frekar töff að ég væri nú búin að læra inn á þessi þreytuköst og að það mikilvægasta væri að sefa kollinn, segja huganum að þetta muni líða hjá og verði allt í lagi. Orkan komi aftur. Ásgerður horfði á mig og kinkaði kolli en sagði síðan; ,,þessi köst eru alls ekki í lagi, þó að orkan komi aftur þá er líkami þinn að berjast við krabbameinsfrumur alla daga! Hvernig heldur þú að líkamanum gangi að eiga við krabbameinsfrumur í þessum köstum?“ Ég er alveg LOGANDI hrædd við krabbameinsfrumur, reikna með að þú skiljir mig þar. Ég fór í 50 % vinnu í haust alveg á mínum forsendum, ég berst við það í hverri viku að forðast þessi köst. Stundum er þessi línudans alveg hræðilegur og það sem er erfiðast við hann er að ég get dottið í þann gírinn að vera ósanngjörn við mig. Kalla mig aumingja í huganum og tala niður til mín. Upplifa að ég sé byrgð á fjölskyldunni og fleira í þeim dúr. Almáttugur hvað ég syrgi oft lífið sem ég átti, en þá er ekkert annað að gera en að að draga andann djúpt, þurrka svitann úr augunum og halda áfram.
  Knús til þín elskuleg
  Sunna

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *