Nýtt eldhús.

(Það eru myndir neðst í færslunni ásamt skýringartexta.)

Þau undur og stórmerki gerðust í haust að við fengum okkur nýtt eldhús! Ég setti upphrópunarmerki fyrir aftan eldhús vegna þess að þetta var mjög mikill viðburður fyrir okkur. Alla okkar búskapartíð sem telur orðið 28 ár (ha?) höfum við alltaf búið við velnotuð og jafnvel gömul eldhús. Reyndar höfum við búið við velnotuð eldhús alla ævi og ekkert velt því neitt mikið fyrir okkur – svona hafa eldhúsin bara verið og virkað. Tja, eða ekki virkað. Eftir á að hyggja, er mér ómögulegt að skilja hvernig mamma hélt sönsum í eldhúsinu í sveitinni. Líklega hélt hún sönsunum því að hún lét mig oft vaska upp. Þá er mér eiginlega ómögulegt að skilja hvernig ég hélt sönsum? Þið hefðuð átt að sjá uppvöskunaraðstöðuna — það var EKKERT pláss. Svona eftir á að hyggja. Ég man ekki eftir að hafa pælt neitt í því þá.

Í húsinu okkar á Möllegade var gömul HTH innrétting þegar við fluttum í það árið 2007. Hún var frá lok áttunda áratugsins eða byrjun þans níunda, vönduð og á sínum tíma fallega viðarlituð, en þegar við tókum við, var hún orðin appelsínugul af upplitun. Flísarnar voru drappaðar með blómamynstri og borðplatan brúnyrjótt. Við máluðum fljótlega innréttinguna og flísarnar hvítar og skiptum um borðplötu. Við rifum niður kústaskáp, jukum borðpláss og Fúsi útbjó hillu undir uppskriftarbækurnar okkar. Auk þess stækkuðum við dyraopið inn í borðstofuna. Fyrir okkur var það nánast eins og nýtt eldhús.

Árið 2019 fórum við að breyta matarvenjunum okkar hægt og rólega sem varð þess valdandi að við fórum að nýta matvörurnar betur og nýta allt sem til var. Áður átti ég það til að kaupa eitthvað vegna þess að það átti að vera í uppskrift sem ég var að gera og svo dagaði það uppi innst inn í skáp af því að ég notaði það aldrei aftur.
Og af því að við vorum farin að nýta allt betur, þá vorum við oftar að sækja matvörur innst í neðstu hillurnar þar sem kolniðamyrkur rýkti í djúpinu endalausa. Svoleiðis upplifði ég það. Mér fannst ég alltaf vera á hnjánum, rúmlega hálf inn í skáp. Og ég hataði það. Við vorum líka með hyldjúpan hornskáp. Þið þurfið ekki að brjóta heilann lengi til að fá upp mynd af því sem lenti þangað inn og rataði nánast aldrei út aftur. Þar var líka kolniðamyrkur og það sem ég sá ekki, var ekki til … Efri skáparnir voru lítið skárri, stundum þurfti ég að klifra upp á bekk til að ná í það sem í þeim var, stundum hrundi innihaldið yfir mig, stundum kallaði ég á Fúsa sem er 10cm hærri en ég. Flestum skúffunum þurfti ég orðið að nota allan líkamann til að loka þeim. 

Í júní fékk ég nóg. Og Fúsi líka. Og um leið fékk ég hrikalegan hnút í magann við tilhugsunina um að fara af stað í leit að innréttingu. Hvaða fyrirtæki? Hvað mátti hún kosta? Hvernig útlit? Hvernig gæði? Allt of margar hv-spurningar sem voru við það að æra mig.

Við byrjuðum í HTH. Við vorum með einhverja mynd í huganum. Við vildum háan útdráttarskáp, karrúsellu (útdrag?) í hornið, bara skúffur að neðan og fáa efriskápa. Auk þess langaði okkur í helluborð með innbygðum gufugleypi. Sölumaðurinn virtist annarshugar og áhugalaus en leiddi okkur samt um sýningarsalinn og bað okkur um að velja lok, höldur, borðplötur, heimilistæki og vask. Teiknaði þetta síðan upp í þrívídd og gaf okkur verð sem olli því að munnvatn okkar beggja lenti niður í lungum þegar við kyngdum því og úr varð tvöfalt hóstakast. Við sögðumst ætla að hugsa málið og fórum heim með teikninguna og í smá áfalli. Er eitt lítið eldhús svona hrikalega dýrt? (Við erum að tala um vel á þriðju miljón bara fyrir eldhúsinnréttingu.) Eftir að hafa velt teikningunni fyrir okkur, sáum við fljótlega að það sem við höfðum valið var eitt það ljótasta nýja eldhús sem ég hafði séð. 
En við lærðum helling af þessari heimsókn. Og sérstaklega hvað við vildum ekki svo heimsóknin var síður en svo til einskins. 

Næst var það Vordingborg. Nú með skýrari hugmyndir en samt áfram með ósk um útdráttarskáp, karrúsellu og nokkra efriskápa því eldhúsið er svo lítið að ég taldi mig þurfa á þeim að halda. Við lentum á Tobba sölumanni og Jesús minn – hann og ég áttum alls ekki skap saman. Mér fannst hann ferkantaður, stjórnsamur, með afleitan húmor og karlremba. Fyrsta heimsóknin tók fjóra klukkutíma. En þrátt fyrir alla gallana hans Tobba, fórum við heim með hugmyndir sem gáfu meiningu. Tobbi vildi líka fá að koma í heimsókn og mæla upp eldhúsið, láta okkur gera forgangs/óskalista og velta fyrir sér möguleikunum. Við samþykktum það. Tobbi er rétt tæplega tveir metrar á hæð og sláni. Hann gekk alveg fram af mér þegar hann skreið næstum allur inn í ógeðslegan ruslaskápinn til að skoða lagnirnar. Ég greip fyrir andlitið en Fúsa var alveg sama.

Við fórum aftur í Vordingborg og við Tobbi héldum áfram að vera eins og hundur og köttur. Hann sagði að ég hefði ekkert við efri skápa að gera. Hann sagði að það gæti ekki verið að ég ætti svona mikið af drasli. Hann sagði líka að hár útdráttarskápur væri peningasóun í okkar eldhúsi og að karrúsella í hornið nýttist illa og væri bara bull. Síðan bætti hann við að ef farið væri eftir mínum hugmyndum af útlitlslegri uppröðun, yrði eldhúsið ósamhverft (asymmetric).

Við ákváðum að skoða líka í IKEA og Kvik. Í IKEA fundum við ekki það útlit sem við vildum og hæðirnar á skápum hentuðu ekki okkar eldhúsi nema með einhverju púsluspili. Við vorum mjög upptekin af að hafa meðalháa skápa/innréttingu til að varðveita birtuna frá glugganum frammi á gangi. Í Kvik var úrvalið of takmarkað og sama vandamál varðandi hæð á skápum.

Þannig að við héldum áfram að deita Tobba í Vordingborg. Fundirnir vöruðu í hvert skipti þrjá til fjóra tíma og á hverjum fundi lenti okkur Tobba saman minnst þrisvar til fjórum sinnum. Stundum tapaði hann orrustunni og stundum ég. Eftir hverja orrustu varð útkoman á eldhúsinu betri og betri. Nú á ég það til að ýkja í orðavali og þið sjáið kannski fyrir ykkur hávaða rifrildi. En þannig var það ekki. Hér koma nokkur dæmi:

T: Afhverju viltu útdráttarskáp?
Ég: Nú, fyrir allan þurrmatinn minn!
T: Þú ert með nóg af skúffum …
Ég: En ég vil útdráttarskáp!
T: Afhverju gerum við ekki tækjaskáp í staðinn? Þá losnarðu við tækin af bekknum.
Ég: En ég vil útdráttarskáp! Það eiga allir svoleiðis.
T: Hann er rándýr.
Ég: Mér er alveg sama – ég á fyrir þessari innréttingu. Ég vil útdráttarskáp!
T: Ég endurtek, þú ert með nóg af skúffum fyrir þurrmatinn og þú losnar við tækin af bekknum og færð meira bekkjarpláss.
Ég: Ókei, ég vil þá ódýran tækjaskáp.

Ég: Ég vil skúffur þarna og skápshurðir þarna.
T: Það er ekki hægt, þú verður að hafa skápshurð við hliðina á uppþvottavélarlokinu og við hliðina á ísskápnum, annars fer allt í rugl. Sérstaklega af því að skúffurnar eru mismunandi breiðar.
Ég: Nei nei, þetta gengur alveg, skúffa þarna, skápur þarna, tvær skúffur þarna, skápur þarna ofrv.
T: Guð minn góður! Útlitið á eldhúsinu verður svo ósamhverft að það verður ekki hægt að vera í því með opin augun.
Ég: Kemur þú til með að vera oft í mínu eldhúsi???
T: Þú vinnur.

Ég: Ég vil helluborð með innbyggðum gufugleypi.
T: Afhverju?
Ég: Það er svo töff og þá losna ég við viftu á veggnum.
T: En þú missir heila skúffu og slatta af bekkjarplássi.
Ég: Þú meinar … 

T: Þú hefur ekkert við efri skápa að gera.
Ég: Sérðu ekki hvað eldhúsið er lítið? Ég þarf á plássinu að halda.
T: Hvað áttu eiginlega mikið að eldhúsdóti? Þið eruð tvö í heimili.
Ég: Ég á ekki mikið af dóti, eldhúsið er bara lítið. Ég endurtek, ég þarf á plássinu að halda.
T: Þú ert með skúffur þarna og þarna. Þetta er yfirdrifið nóg. Ef ekki, taktu þá til í dótinu þínu …
Ég: Ég get þig ekki lengur Tobbi, mætti ég biðja um kvenskynssölumanneskju sem mögulega skilur mig?
T: Það er bara ég sem er í boði.

Ég: Ég vil karrúsellu í hornið sem dregst út eins og talan átta.
T: Það er dýrt og reynslan hefur sýnt að svona karrúsellur er svolitlir ruslasafnarar, þær nýtast ekki nógu vel.
Ég: En ég vil nýta allt pláss. Þá má EKKERT ´dead space` vera. Eldhúsið er svo lítið.
T: Ég hef oft séð minna eldhús. Við hvað ertu eiginlega að miða?
Ég: ALLA sem ég þekki.
T: Þú nýtir plássið betur með skúffum. Skúffur eru alltaf bestar. Svo gætirðu seinna meir splæst í lyftu frá Linak undir hrærivélina og súnkað henni ofan í tómt hornið?
Ég: Þú vinnur.

Þegar við vorum búin að ákveða okkur og samþykkja eldhús og verð munnlega, vildi Tobbi innsigla samninginn með handabandi (þetta var í lok ágúst).
Ég: Tobbi, það er kóróna …
T: Nú og ekkert handaband? Ég er alveg sprittaður sko.
Ég: Ég endurtek; ÞAÐ ER KÓRÓNA. Það hafa ekki verið handabönd né faðmlög síðan í mars og ekki að ástæðulausu.
T: Þið konur eruð alltaf svolítið móðursjúkar.
Ég: (ég sagði ekkert en leit á hann og gerði mitt besta til að  kála honum með augnaráðinu).
T: Ókei ókei, ég skil og biðst afsökunar.

Tobbi var líka orðinn mjög góður í að lesa mig.
T: Ég sé á þér núna að ég á að hætta að tala …
Ég: Satt.

Eins og ég sagði í byrjun, var þetta í fyrsta skipti sem ég kaupi eldhús. Ég hafði allskyns hugmyndir af eldhúsum undir áhrifum frá öðrum. En það sýndi sig að það er ekki alltaf hægt að heimfæra annarra fólks stöff yfir á sitt eigið. Eldhúsverkefnið var líka eilíft umræðuefni í vinnunni og samstarfsfólk mitt þreyttist ekki á að gefa mér góð ráð; passaðu stærðina á vaskinum, það er gott ef ofnplatan kemst ofan í hann. Mundu að það þarf pláss fyrir sex ruslafötur. Ég er með mjóan skáp fyrir borðtuskuna, það er æði, ég mæli með ef það er pláss fyrir svoleiðis hjá þér. Ekki kaupa heimilistæki hjá eldhúsfyrirtækinu og svo framvegis. Mörg ráðin voru mjög nytsamleg.

Verkefnið ´nýtt eldhús` endaði á að verða stærra verkefni en í upphafi var hugsað. Við létum stækka hurðargatið enn meira, loftið var tekið upp og ný og betri lýsing sett inn. Hér samhæfðu múrarar, smiðir, rafvirkjar, málarar og píparar vinnu sína í tæpar tvær vikur. Ég get ekki sagt að það hafi verið auðvelt, sérstaklega þá daga sem ég var í fríi eða á kvöldvöktum en þetta gekk. Við útbjuggum eldhúsaðstæðu í kjallaranum þar sem við höfðum sett hluta af gömlu innréttingunni upp, færðum ísskápinn niður og fengum lánaða eldavélahellu. Það virkaði stórvel. (Þessi bloggfærsla minnir mig á að ég á eftir að skila hellunni …)

Þrátt fyrir að hafa ekki lyndað við Tobba í byrjun og framan af, hafði hann svo ótrúlega margt til síns máls og óþolandi rétt fyrir sér í mörgu. Úr varð eldhús sem við erum svo innilega sátt við. Ósamhverft eldhús, án karúsellu, án útdráttarskáps, án efriskápa og með mikið meira borðpláss. Eldhús þar sem ég þarf hvorki að teygja mig né beygja og engir hlutir sem hrynja yfir mig úr yfirfullum skápum (nestisboxin gerðu það á hverjum degi í gamla eldhúsinu). Engir skápar þar sem ég verð myrkfælin við að horfa inn í þá. Birtan í eldhúsinu er líka svo breytileg og ég er alltaf að uppgötva nýja sólargeisla á mismunandi stöðum. Það á ég væntanlega eftir að gera næstu sjö mánuðina en þá verðum við búin að eiga það í heilt ár. Mér finnst eldhúsið mitt hlýlegt og persónulegt.
Ég er Tobba þakklát fyrir að hafa skorað mig svona mikið á hólm og tekið slagina við mig. Án slagana hefði ég ekki fært mig úr stað og skipt um skoðanir.

Þegar við fluttum í húsið árið 2007, var bara lítið hurðargat á milli eldhúss og borðstofu. Við stækkuðum það. Í haust stækkuðum við það svo enn meira til að opna og stækka rýmið.

Svona var eldhúsið áður. Þarna erum við reyndar búin að opna hurðargatið. 


Og þarna var borðplatan komin á. 

Síðan varð það svona í um það bil 12 ár. 

Og nú svona. 

Í neðri skúffunni undir vaskinum er ruslaskúffan. Hún rúmar sex fötur sem komast í uppþvottavélina. Í skápnum til hægri við uppþvottavélina er örbylgjuofninn og ýmis tæki og tól. Tobbi sölumaður vildi hafa skáp alla leið niður og einnig undir ofninum. Með því sagði hann að eldhúsið yrði samhverft. Ég vildi eins margar skúffur og mögulegt væri og ég vann og ég er sátt við ósamhverfa eldhúsið mitt. 

Búið að stækka hurðargatið enn meira og taka loftið upp. Engir efri skápar og birtan frá ganginum kemst inn. 

Hvíta listaverkið er eftir heimilisföðurinn. Þetta er sjóræningi. 

Þetta er Roland. Segið hæ við Roland. Hann minnir okkur á að stundum er gott að róa í land. Roland er eftir Helene Grode, unga listakonu í Kaupmannahöfn. Hér er instagrammið hennar. 

Við teljum þessa innréttingu eiga útlitslega eftir að eldast vel. Við getum alltaf bætt við flísum og skipt um lit á veggnum ef okkur langar til að breyta til. Við höfum ekki enn ákveðið hvort við fáum okkur skvettuplötu fyrir aftan helluborðið. Þar sem eldamennskan hjá okkur er frekar „hreinleg“ þá er líklega ekki þörf á henni.
Höldurnar virðast svartar á myndinni en þær eru dökkbrúnar eða dökkbrons? Ég man ekki hvað liturinn heitir. 

Gamlir hlutir (elsti er 42 ára) og nýjir hlutir í bland. Herðubreið eftir Írisi Lind er nýjust. Bláklukkubollinn frá Sessu og kortið eftir Töru Tjörva næstnýjast. Ég á svo marga hluti sem mér þykir vænt um og ég vona að hillurnar þoli þungann.
Það fer algjörlega eftir dagsbirtunni, hvaða litur er á veggnum. Stundum er hann ljós, stundum dökkur. Stundum hlýr, stundum í kaldari lagi. 

Ég er með Cohen uppi á vegg. Fúsi fékk Cave í eldhúsið. Þá er 1-1. 
Mér finnst tilvalið að geyma baunir, linsur, hafra, hrísgrjón osfrv. í vínkaröflum. Ég kaupi þær á loppumörkuðum. 

Öll heimilstæki eru keypt á góðum afslætti hjá Elgiganten og þannig spöruðum við tugi, ef ekki hundruðu þúsunda miðað við að kaupa hjá Vordingborg. Þetta eru Elektrolux og Bosch tæki. Ég er sérstaklega hrifin af ofninum sem er eldsnöggur að hitna og þrífur sig sjálfur. 

Ég er líka ánægð með borðplötuna en hún minnir mig á rekavið þótt hún heiti Vintage oak. Grá með brúnu í. Það eru reyndar meiri baunir en borðplata á þessari mynd en ef rýnt er vel, þá sést aðeins í hana. 

Ég mæli með að þegar farið er í eldhúspælingar, að gefa sér góðan tíma og finna sölumanneskju sem veit hvað hún er að selja og hverjum hún er að selja. Og muna að að það er ekki alltaf hægt að heimfæra annarra manna eldhús í sitt hús. Það er svo misjafnt hvernig við lifum, hvað við eigum, hvað við notum og hvernig við eldum. 

Ykkar einlæg

5 Responses to “Nýtt eldhús.

 • Óla Magnúsdóttir
  3 ár ago

  Þetta lúkkar bara mjög vel, flott hjá ykkur.Till hamingju með nýja eldhúsið.

 • Helga Hinriksdottir
  3 ár ago

  Geggjað flott eldhús 🙂

 • Ellen Björnsdottir
  3 ár ago

  Frábaert hjá ykkur 🙂

 • Hjördís Nielsen
  3 ár ago

  Æðislegt eldhús til hamingju ? og æðislegur Tobbi ??

 • Halldór Jóhannsson
  3 ár ago

  Flott er það…og ekki síður að lesa samskiptin við Tobba vin þinn 🙂
  Bestu kveðjur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *