Páskahret – á allan hátt.

Loksins eru þessi afburða leiðinlegu páskar á enda. Jeminn hvað ég er fegin. Gleðilega páska samt og ég samgleðst ykkur  af einlægni, sem hafið átt þá ánægjulega.
Ykkur öllum sem voruð umkringd ykkar nánustu, skreyttuð svo fallega og borðuðuð góðan mat. Það er mikils virði. 

Ég var í sex daga fríi fyrir páska og hefði verið til í að skreppa til Stokkhólms eða Íslands, en landið er enn lokað. Ég er farin að sjá fyrir mér múr eins og í Game of Thrones á milli Danmerkur og Svíþjóðar, ókleifan og engin opnun í grennd.
Ég var á kvöldvöktum um helgina. Ég fíla eiginlega ekki kvöldvaktir (allavega ekki í augnablikinu) – finnst þær kvíðavaldandi, sérstaklega um hátíðir. Svala var í Kaupmannahöfn. Fúsi og Vaskur voru heima. Á föstudaginn langa, stuttu áður en ég lagði af stað í vinnuna, fékk ég endurminningu eða flashback, ég kann betur við orðið flashback í þessu samhengi, um að ég hafði upplifað eins páska áður.  Alveg eins. Ég kíkti í almanakið og sá þá að páskarnir í fyrra voru nákvæmlega eins. Ég á kvöldvöktum, Svala í Kaupmannahöfn, líka að vinna og Aldís í Stokkhólmi. Þá var nýbúið að loka landinu. Páskaeggið í fyrra var meira að segja hræðilega vont. Dökkt frá Nóa Síríus. Bragðaðist eins og suðusúkkulaði. Páskaeggið í ár var reyndar líka vont. Líka súkkulaðið sem stjórnin á deildinni sem ég vinn á, gaf okkur. Rándýrt og ofmetið. Danskt fiðrildasúkkulaði. Dísætt. Fúsi fékk svoleiðis um jólin frá einhverjum sem hann var að vinna fyrir. Ekki að hann þiggi súkkulaði í laun, Guð forði mér frá því, en stundum fær hann auka þakklætisvott. Og það er alltaf áfengi og súkkulaði. Hann drekkur ekki áfengi og súkkulaðið er oftar en ekki vont miðað við verð.

Það er reyndar, samkvæmt áfallasálfræðingi við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn, ekki slæmt að fá flashback þar sem svipmyndir af erfiðum atburði birtast aftur og aftur. Flest okkar upplifum flashback sem eitthvað mjög óþægilegt og stundum mikið meira en óþægilegt. En heilinn er einfaldlega að aðlagast nýrri og breyttri veruleikamynd eftir að hafa lent í áfalli og með því, lækna sjálfan sig. Ef flashbökkunum er leyft að keyra í gegn, eru minni líkur á áfallastreituröskun.

Nú vil ég ekki líkja mínu flashbakki á föstudaginn langa við flashback eftir áfalll – síður en svo. Líklega var þetta meira déjà-vu. Skiptir ekki. Nú er ég allavega búin að upplifa tvo leiðinlega páska í röð. Það er það sem skiptir máli. Eða ekki.
Ég hef heldur ekkert fylgst með fréttum um helgina og því tókst Fúsa koma fyrir hlandi við hjartað í mér í dag þegar hann sagði alvarlegur í bragði: „það er víst komið upp massa-smit í Sönderborgar kommúnu og því á að fresta opnununum sem áttu að vera núna 6. apríl um heilan mánuð“ og síðan tók hann sopa af sjóðheitu kaffinu, gretti sig og leit út um gluggann. Ég trúi ekki öðru en að ég hafi orðið öskugrá í framan – ég á laaangþráðan tíma í klippingu og lit þann 16. apríl og get ekki beðið lengur. Bara get það ekki. Ég fór síðast í klippingu á haustmánuðunum. En Fúsi var bara að hrekka mig, reyna að koma mér í betra skap …

Það snjóaði í Danmörku í dag – eiginlega var vitlaust veður á tímabili. Það er mjög óvenjulegt í apríl. Ég sótti vetrarúlpuna mína inn í árstíðarfataskáp (ég var búin að ganga frá henni), setti á mig húfu og vettlinga og fór út í páskahretið með Vask. Það næddi inn að beini og mig langaði í heitt kakó þegar ég kom heim. En ákvað að búa það ekki til því ég vissi að mig myndi hætta að langa í það á meðan ég væri að hræra í pottinum. Síðan sá ég að það var komin snjór á páskaliljurnar okkar í garðinum og fór út á stuttermabolnum til að taka mynd af þeim. Eftir það ákvað ég að fara í heita sturtu aðallega til að skola af mér skítinn, eins og sagt var í sveitinni í denn. Það er bara sjaldan sem fellur á mann skítur í nútímaþægindalífi, kannski í mesta lagi smá mold við garðvinnu. Reyndar pissaði lítill drengur á mig í gærkvöldi. Hann var bara dagsgamall og ég var að skipta á honum. Ég kann voðalega lítið á stráka og áður en ég vissi af, stóð sprænan beint upp í loft og á hönd mína og handlegg. Ég man ekki eftir að það hafi verið pissað á mig áður. Ekki á þennan hátt.

Með von um að þið eigið gott kvöld.

Ykkar einlæg

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *