Afmæli í höfuðborginni.

Er til eitthvað betra en að geta haldið upp á afmælið með barninu sínu?
Ásrún Svala átti afmæli föstudaginn 4. júní. Vegna vinnu, misstum við af gleðskapnum með henni og vinkonunum á föstudagskvöldinu. Í staðinn var laugardagurinn tekin með trompi. Þótt hún hafi orðið 24 ára, fékk hún að velja allt sem gert var, alveg eins og þegar þær systur voru litlar.
Hún valdi að byrja á Flavor Bastards – huggulegum plöntumiðuðum veitingastað á Nørrebro, rétt hjá Søerne. Það var góð byrjun á deginum.

Eftir góða næringu og passlega skammta (mér finnst það mikilvægt), lá leiðin norður í Rungsted á Karen Blixen safnið. Svala er að stúdera dönsku við Kaupmannahafnar háskóla og hefur ein af stærri ritgerðunum hennar fjallað um Blixen og nýlendustefnuna.

Þetta er stórskemmtilegt safn sem er til húsa á æsku- og seinna heimilinu hennar eftir að hún kom heim frá Afríku. Ekki skemmir fyrir að hafa lesið nokkrar af bókunum Blixens til að áhrifin verði sterkari. Þarna er líka stór garður þar sem beykitrén eru risavaxin, reynt er að varðveita fuglalíf og blóm til skrauts fyrir heimilið eru enn ræktuð. Blixen er einnig grafin þarna. Svala hafði tekið bakpokann sinn með sem innihélt dúk, heimatilbúna pizzu úr partýinu frá kvöldinu áður, ásamt drykkjarvörum. Í skugga undir fallegu tré, umkringd blómum og baulandi nautgripum, héldum við picknick. Hvað er fullkomnara? Fyrir framan sjálft húsið hélt íhaldið (Konservativ) upp á Grundlovsdaginn eða það sem mætti kalla þjóðhátíðardag Dana með tilheyrandi ræðuhöldum. Samt er þetta ekki þjóðhátíðardagur, heldur „bara“ Grundlovsdagur (stjórnarskrárdagur) því Danir eiga engan þjóðhátíðardag. Það segist að það sé vegna þess að þeir hafi aldrei þurft að berjast fyrir sjálfsstæði, aldrei orðið bylting í landinu, aldrei verið ógnað að ráði. Þetta stóra tún (Danmörk minnir mig stundum á stórt tún þegar ég flýg yfir)) hefur alla tíð verið stórveldi, átt eyjar og lönd út um allan heim og eiga enn. Það segist líka að Grundloven urðu til til að hindra byltingu og því þurfti ekki að berjast, heldur gat þjóðin skálað og óskað hvort öðru til hamingju með að ná innbyrgðis sáttum. Grundlovsdagurinn er voðalega lítið hátíðlegur enda engum sigri að fagna. 

Eftir stutta viðkomu í íbúðinni hennar Svölu á Nørrebro, örlitla hvíld á hótelherberginu okkar á Vesterbro og ganske lille uppfærslu á svitastorknuðum andlitum, héldum við út í steikjandi kvöldsólina og yfir til Frederiksberg. Svala hafði valið sushi á Sticks ´n´sushi í kvöldmatinn. Þeir eru með fimm rétta plöntumiðaðan matseðil sem fær mín meðmæli.

Á sunnudeginum tékkuðum við útaf hótelinu og héldum áfram í austurátt; yfir Eyrasundsbrúna og inn í Skán. Ó hvað við vorum farin að sakna Svíþjóðar!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *