Eldra hjól – alls ekki til sölu.

Ég klæddi mig í stuðningssokkana og þunnan hörkjól þegar ég vaknaði í morgun. Greiddi í gegnum hárið með fingrunum og setti teygju utan um flókann. Hitaði pestópasta frá því í fyrradag í örbylgjuofninum, lét kalt vatn renna í stórt glas, settist við borðstofuborðið og opnaði bókina mína sem ég er vön að lesa með morgunmatnum þessa dagana. Ég borðaði og hló að fyndinni málsgrein í bókinni. Tók mynd og póstaði henni í story á Instagram; langaði að deila þessum skemmtilegheitum með einhverjum. Bókin heitir Þarmar með sjarma og þetta fyndna er í kaflanum um Njálginn. Það sem mér fannst fyndið var þegar Giulia Enders (höfundurinn) líkir njálgseggjum við hænuegg. Hún orðar hlutina svo skemmtilega.

Ég tæmdi uppþvottavélina, setti uppsöfnuð óhreinindi morgunsins í hana, skutlaði nærbuxum í þvottavélina, því ég átti bara einar hreinar nærbuxur eftir og braut síðan saman handklæði sem voru þvegin í síðustu viku. 

Klukkan 13.15 fór ég í gallabuxur yfir stuðningssokkana og undir hörkjólinn, setti á mig maskara, fann til handklæði, skæri og nylonpoka, fór í skó, gekk út og lokaði á eftir mér hurðinni án þess að læsa því ég trúi á það góða í fólki (þrátt fyrir eitt og hálft innbrot í húsið okkar). Klukkan var orðin 13.20. Ég tók hjólið mitt og teymdi það niður í hjólaverkstæði og bað þá um að dæla lofti í dekkin fyrir mig. Það lekur úr dekkjunum því ég nota það of lítið eftir að ég skipti um vinnu. Spurði strákana á verkstæðinu hvað þeir héldu að ég gæti fengið fyrir hjólið ef að ég myndi selja það? Tja, ef þú skiptir um keðju og keyrir því í gegnum hjólaþvottastöðina okkar, gætirðu slefað í þúsund kallinn danskar. Elsku hjólið mitt. Elsku Kildemoesið mitt. Get ég virkilega selt þig? Einu sinni var það fengið að láni eins og lesa má í þessari færslu frá 2017. 
Kildemoesið er orðið 16 ára gamalt og það er eitt og annað sem er orðið mjög lúið og sumt af þessu einu og öðru er fokdýrt að gera við eða skipta um.  
Þess vegna hef ég verið að velta því fyrir mér að selja það á meðan hlutirnir virka nokkurnvegin. Pranga því inn á einhvern grandalausan Kildemoes aðdáenda sem myndi sitja í súpunni þegar hlutirnir gæfu sig.

Mynd: Smári Sverrir Smárason. Hjólaferð til Flensburg 2017.

Klukkan 13:27 settist ég upp á hjólið stútfullu af lofti og hjólaði í nudd. Ég átti tíma kl. 13.30. Sú sem nuddar mig, veit orðið allt um lífið mitt í nútíð. Og framtíð. Og hún man allt sem ég segi henni. Það getur verið svo losandi að liggja á maganum, horfa niður í gegnum gat á ekki neitt og bara tala. Og sjá ekki viðbrögð hlustandans en heyra þau samt. Í dag spurði hún hvernig gengi með fellibylinn í höfðinu á mér? Jú takk, hann er horfinn, það er bara gola núna. Ég stóð upp og sá að maskarinn varð nánast allur eftir á pappírnum á andlitspúðanum. Restin var á kinnunum á mér. Hvernig gat það gerst þegar ég ligg á maganum. Þetta var 2 fyrir 1. Fínasta nudd og einskonar sálfræðitími fyrir 190 kall. 

Klukkan 14.00 hjólaði ég af stað og áleiðis í matjurtargarð að sækja mér kálblöð í matinn. Þess vegna var ég með skæri og nylonpoka með mér. Ég gat valið um þrjár leiðir. A, B eða C. Af handahófi valdi ég C. Ég fór að velta þessari hjólasölu fyrir mér. Ef ég eyddi ekki pening í keðju og hjólaþvottastöðvarþvott, myndi ég bara selja hjólið ódýrara. Ég gæti tekið fram að nýleg ljós og splúnkuný bleik fiðrildabjalla fylgdu með. Og rauð regnslá utan um hnakkinn sem auglýsir líffæragjöf. Það hlýti að hífa verðið upp. Ég var að velta því fyrir mér hvar ég ætti að auglýsa það. 
Þá sá ég mæðgur á gangi á ská fyrir framan mig. Ég var stödd á götunni í stórri sveigju. Litla stelpan var með fallega gula regnhlíf og snéri henni hratt í hringi. Mamman gekk á undan með alveg eins regnhlíf nema svarta. Fimm mínutum áður hafði ringt. Þær voru svo fallegar með þessar regnhlífar og það var svo flott hvernig þessi gula snérist og sú svarta var kjurr. Allt í einu áttaði ég mig á að ég hafði misst af að fara upp á hjólastíginn. Ég var á þó nokkurri ferð. Ég sá háan kantsteininn beint fyrir framan mig og íhugaði eitt augnablik að taka sénsinn og vonast til að Kildemoes hefði sig upp á hann en sá að það yrði ómögulegt. Kanturinn var of hár. Ég varð að sveigja, vitandi að það færi illa. Ég var ekki með hjálminn minn. Hjólið skall frá hlið á kantinum og áður en ég féll á hjólastíginn, náði ég að hugsa að núna gætu dagar mínir sem kona með fullu viti verið taldir. Ég féll á stíginn og fékk samstundis vægan höfuðverk. Ég rann eftir stígnum og fann ekkert nema óttann um að ég yrði vitskert það sem eftir væri. Konan kom hlaupandi. Ég flýtti mér að standa upp til að getað áttað mig á umfangi slyssins. Höfuðverkurinn hvarf, líklega kom hann bara vegna hræðslu. Hræðsluhöfuðverkur? Er það til? Frá því að ég gerði mér grein fyrir að ég myndi detta og þangað til ég var staðin upp, liðu örfáar sekúndur en ég náði að hugsa svo margt. Konan spurði hvort það væri í lagi með mig? Já sagði ég og sýndi henni sár á olnboganum, það er líklega bara þetta. Ertu viss? Já já sagði ég. Ertu svoldið í sjokki? spurði hún. Nei nei, ég hjóla bara hægt, svaraði ég, steig upp á hjólið, hjólaði skjálfandi af stað og langaði að gráta. Hugsaði mér að þetta væri sama prinsip og þegar dottið er af hestbaki; alltaf strax á bak aftur …
Ég fór og náði mér í kálblöð í matinn. 

Þegar ég kom heim, sótti ég sjúkrakassann þar sem kennir ýmissa grasa frá því í denn og setti risastóran sjúkrahúsplástur á sárið á olnboganum. Þrefalt stærri en nauðsynlegt var. Mér datt ekki í hug að setja minni plástur. Ég sá líka að það hafði komið gat á hnéð á gallabuxunum, fór því úr þeim og mér til skelfingar sá ég að það var líka gat á stuðningssokknum! Ó nei, ó nei, ó nei. Þeir eru bara mánaðargamlir og ég fæ ekki nýja fyrr en í desember! Það var líka sár á hnénu. Ef að ég þyrfti ekki að vera í stuðningssokkum alla daga og buxum (eða kjól) yfir þeim (af því að mér finnst þeir ekki flottir), þá hefði ég verið berleggjuð í dag. Og þá hefði ég líklega misst hnéð í þessu slysi sem þýðir að það hefði þurft að taka af mér löppina fyrir ofan hné. 

Fúsi kom heim stuttu eftir að ég kom heim. Þá var ég ennþá aum, því ég verð svo hrikalega aum ef ég dett. Ég hata að detta. Og gubba. Ef ég gubba, fer ég að gráta. Ég fer líka alveg að gráta ef ég dett. Ég verð svo varnarlaus. Örugglega af því að ég dett fyrirvararlaust. Það gerist svo hratt. Líka þegar ég gubba. Þá missi ég stjórnina. Ég hef samt ekki  gubbað síðan júní 2019. Ég man næstum öll mín gubb og öll mín föll. Einu sinni datt ég niður tröppurnar út í garð. Ég var með fullt fang af bókum og tölvuna mína. Einu sinni bremsaði ég rosalega fast með handbremsunni á hjólinu mínu og flaug fram fyrir mig og hjólið á eftir mér. Ég lenti á höndunum og fór í hálfgerðan höfuðlausan kollhnís. Ég var að SMS-a og kom að T gatnamótum þar sem bíll kom á fleygiferð eftir götunni. Ég var að forðast árekstur við hann. Og ég gerði það. Ég var á leiðinni niður á Ráðhústorg að horfa á leik eða hlusta á tónlist, ég man það ekki alveg. En ég keypti mér bjór í plastglasi og gat varla haldið á honum því mér var svo illt í höndunum. Eftir þetta hætti ég að sms-a á meðan ég er að hjóla. 

Þegar Fúsi kom heim í dag, fór hann strax í það að hugga mig og dáðst að stóra plástrinum á olnboganum á mér. Hann spurði hvort ég væri búin að fá mér kók? Nei, ekki ennþá. Kannski ætti ég að gera það. Kók læknar næstum allt. Það er kvensjúkdómalæknir hér í bænum sem er verri en Satan sjálfur. Ég fór tvisvar til hennar (hvað var ég að spá?) og í bæði skiptin lagðist ég í agarlega móðursýkislega (hysteríska (hysteraos = leg)) sjálfsvorkun við heimkomu. Í bæði skiptin kom ég við í búð á leiðinni heim, keypti franskbrauð, skinku, ost, kartöfluflögur og kók og bjó mér til kvensjúkdómasamloku (gynækológíska samloku) (franskbrauð með skinku, osti og kartöfluflögum grillað í samlokugrilli) og drakk kók með. Þetta hefur verið um níuleytið að morgni til því að ég fór eftir næturvakt. Svo mikið var trámað! 

Þess vegna spyr Fúsi hvort ég sé búin að fá mér kók þegar ég lendi í einhverju rosalegu. 

Ég hef ákveðið að selja ekki hjólið. Ég trúi ekki hverju sem er, en ég trúi að hlutir sem eru mjög tengdir manni, geti haft einhversskonar tilfinningar. Mér hefur þótt svo ótrúlega vænt um þetta hjól mitt í þessi 16 ár. Við höfum verið svo mikið teymi. Og það getur ekki verið nein tilviljun að Kildemoes hafi gert tilraun til að granda mér þegar ég sat á því og velti fyrir mér að láta það frá mér. Böndin á milli okkar eru greinilega sterk.

Og kók læknar flest. 

Mynd: Smári Sverrir Smárason. Hjólaferð til Flensburg 2017. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *