Þeir fengu hjólið mitt lánað.

Ég þekki mann á áttræðisaldri sem flúði frá borgararstríði til Danmerkur á níunda áratugnum með konuna sína og yfir tug barna. Synir hans voru það margir að það minnti óneitanlega á Múlís Ismæli keisara sem átti 700 syni.  Hann fékk vinnu í stórri verksmiðju hér á svæðinu þar sem hann stóð við færiband og setti saman hluti. Hann þurfti ekki að tala dönsku í vinnunni, hann talaði móðurmálið heima og við vinina sem hann átti nóg af, því mörg þúsund samlandar hans flúðu einnig til Danmerkur. Honum bauðst mjög takmörkuð og ómarkviss dönskukennsla. Þess vegna talar hann mjög litla dönsku í dag en skilur smá. Það sama gilti um konuna hans sem er dáin. Tvö af börnunum hans dóu sem fullorðin fyrir nokkrum árum. Nokkur börn dóu í flóttamannabúðunum. Konan hans gekk í gegnum 17 meðgöngur. Maður þessi var bóndi í heimalandi sínu, var sjálfbær og stundaði ræktun af ýmsu tagi. Fyrst eftir að þau komu til Danmerkur, bjuggu þau í lítilli blokkaríbúð en hann vann hörðum höndum svo að þau gætu flutt í hús með stórum garði til að hann gæti ræktað. Honum þótti líka gaman að gera tilraunir eins og að splæsa saman rótum af þremur mismunandi perutrjám og fá upp eitt tré með þremur mismunandi perum. Það tókst.

Þegar kemur að aðlögun útlendinga í nýju landi er stór munur á hvort um innflytjendur eða flóttafólk er að ræða. Flóttafólk spjarar sig hlutfallslega verr, það þarf á meiri aðstoð frá því opinbera að halda, menntunarstigið er lægra og glæpatíðnin hærri. Og þetta gengur í arf.

Þótt maðurinn sem ég þekki hafi verið flóttamaður, gildir þetta ekki um hann. Hann hefur spjarað sig vel og það gildir líka afkomendur hans. Sumir eru athafnamenn hér í bænum á meðan aðrir eru háskólamenntaðir. Minnst þrjár afastelpur urðu stúdent í vikunni. Og það er bara það sem ég veit um.

Þetta eru týpískir múslímar í mínum huga, hlýlegir, vinarlegir og hressir.

Í dag var fór dóttir mín á hjólinu mínu í kaupfélagið og það skilið eftir fyrir utan ólæst því lykillinn fannst ekki akkúrat þá. Og sem við manninn mælt, var það horfið þegar út var komið þótt kaupfélagsferðin hafi einungis tekið um 7 mínútur.

Ég varð alveg trítilóð. Mér þykir svo vænt um hjólið mitt sem ég fékk í þrítugsafmælisgjöf og hef næstum notað daglega í tæp 12 ár.

Ljósmynd: Smári Sverrir Smárason (Linkur á myndir úr þessari hjólaferð)

Mig langaði til að fara að gráta. En í staðinn fyrir að leggjast í sorg, var gripið til aðgerða. Við Fúsi brunuðum beint upp í blokkarhverfi, skiptum liði með tilheyrandi skipulagi og bendingum. Það hefur ekki farið á milli mála hversvegna við æddum þarna um á milli hjólastatíva eins og mannýg naut í flagi.

Og það þarf ekki að vera neitt launungamál að mér var ekki hugsað hlýtt til múslíma þarna. Eiginlega hugsaði ég: djöfs, helvítis, andskotans innvandrarapakk! Ég alhæfði eins og ég fengi borgað fyrir það. Ég hugsaði svo margt og setti ALLA með tölu undir sama hattinn. Líka börnin á hlaupahjólunum sem ég mætti.

Auðvitað gekk ég fram á hjólið! Þarna stóð það bara, það hafði einhver fengið það „lánað“, einhver sem nennti ekki að hjóla heim úr kaupfélaginu. Það  stóð fyrir utan inngang þar sem múslímar búa… aðeins í einni íbúð. Í öllum hinum búa Danir, samkvæmt póstkössunum.

Ég stóð fyrir utan blokkina og hélt traustataki í hjólið með báðum höndum og starði íllskulega upp í gluggana. Djöfs pakk sem býr í þessum blokkum. Aftur fór ég að alhæfa en fann hversu rangt það var. Það er bara svo agalega stutt í alhæfingarnar og fordómana hjá okkur, jafnvel þótt við leggjum okkur verulega fram við að vera umburðarlynd og skilningsrík gagnvart náunganum.

Ég settist upp á hjólið og hjólaði heim. Fyrsta spölin hugsaði ég hvernig ég gæti sent allt þetta múslímapakk heim til sín, hvar svo sem það er. Ég var búin að steingleyma að líkurnar á að það hafi verið Dani sem fékk hjólið mitt að láni, voru meiri þar sem fleiri Danir búa í þessum stigagangi. En svo bráði af mér og ég minnti sjálfa mig á að það er oft ástæða fyrir gjörðum og hegðun fólks, sama hvaðan það kemur. Forsendur fólks til að breyta rétt eru ekki alltaf þær sömu og það hafa ekki allir fengið sömu góðu tækifærin í lífinu. Það hafa ekki allir val.

Þegar ég var að hjóla upp brekkuna heima, varð mér hugsað til mannsins sem ég þekki sem á heilan helling af flottum börnum og barnabörnum og þeim aldrei dytti í hug að stela hjólinu mínu. Og allra hinna múslímanna sem ég þekki og hef unnið með og eru ekki síðri þjóðfélagsþegnar en ég sjálf.

Ljósmynd: Smári Sverrir Smárason

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *