Æskuslóðirnar

Í fyrradag fór ég í ískaldri norðanáttinni í göngu um æskuslóðirnar… Það sem er kannski mest athyglisvert við þessa göngu er að ég hafði aldrei áður farið um þetta svæði gangandi en oft farið um það samt. Í minni bernsku þótti óþarfi að ganga það sem hægt var að fara ríðandi.

2013-07-31 15.59.58

 

Núna er þetta í annarra manna eign og því þorði ég ekki nær. Þessi mynd er tekin fyrir ofan mýrina og upp við fjallið.

2013-07-31 16.07.32

 

Þetta er Dagnýjarfoss. Hann var skýrður í höfuðið á mér því ég átti hann. Í dag fá börn línuskauta, við fengum fossa! Magnúsarfossinn var töluvert stærri og hefur aldrei þornað upp. Ég var alltaf pínu abbó útí Magnúsarfossinn, þótt mér þótti vænt um minn foss. En svona var þetta… Maggi þurfti aldrei að hengja út þvottinn á frostköldum vetrarkvöldum og fékk stærri fossa. Ég bíð þess seint bætur.

2013-07-31 16.11.57

Þarna bjuggum við með fleiri hundruð kindur, 88 hesta, eina kú, 2 hunda, 2 ketti, nokkrar hænur (mín hét Stéllaus), stundum endur og enga sýnilega nágranna.

2013-07-31 16.21.28Þetta er Grundarlækurinn sem rennur í Magnúsarfossinn sem fellur í Grundarlækinn. Grundarlækurinn inniheldur sundlaug (ekki á mynd) sem var gríðarstór í gamla daga, en ég er hrædd um að allt vatnið færi uppúr pollinum ef ég myndi dýfa mér oní í dag.

 

2013-07-31 16.37.22

Grundarlækurinn er alveg töff lækur… þarna hefði ég getað rennt mér niður ef veðrið hefði verið gott.

2013-07-31 16.44.54

Þetta var svona týpiskur „grasbali“ þar sem manni langaði að hleypa á stökk… eða eins og ég um daginn… hlaupa! En þetta er bara mýri… þung mýri! Og það eru óteljandi ár síðan ég hef labbað í ekta mýri.

2013-07-31 17.02.17

 

Útsýnið úr Hábrúnardalnum nær hundruði km. Gott ef maður sér ekki yfir á Bakkafjörð…

2013-07-31 17.06.50Og í hina áttina blasa Aglastaðir, Lagarfljótið, Snæfell (í góðu skyggni) og Vatnajökulsþjóðgarður við.

2013-07-31 17.30.37Yndislega sveitin mín ofan af Hábrún… gamalkunnugt útsýni… tengi það við göngurnar. Var ég einhverntímann búin að segja ykkur frá því þegar ég var alveg gagnslaus?

Einusinni sem oftar var pabbi að fara í göngur í Bjólfinum. Mamma hafði hengt gangnabuxurnar hans út á snúru daginn áður og bað mig um að taka þær inn um kvöldið og setja þær á ofn svo þær yrðu tilbúnar í erfiðar göngurnar. Ég sagði: „já“. Mamma fór síðan e-ð, líklega í síldina. Þegar pabbi fór á fætur seint um nótt til að leggja af stað til Seyðisfjarðar fann hann buxurnar sínar hangandi enn á snúrunni, gaddfreðnar. Í þá daga áttum við ekki þurrkara og ekki fullan fataskáp af gæðaútivistarfatnaði. Hann smalaði allan daginn í óþægilegum buxum. Ég var frekar gagnslaus þarna. En pabbi gerði sitt gang í Lee gallabuxum í Bjólfinum.

2013-07-31 17.22.07

Þarna mætti ég kindum… eða ok, þetta eru 3 af 30 kindum sem ég mætti. Og þar sem einstakir smalahæfileikarnir loða enn við mig, tókst mér að smala þeim öllum til byggða. Doji og Þrúða, Jói E, Ormstaðabændur og Jón í Gilsárteigi… ég biðst hér með innilegrar afsökunar á smalamennsku minni um mitt sumar. Þetta kemur ekki fyrir aftur í bráð.

2013-07-31 17.51.17

 

Krækjiber láta mig finnast ég vera komin til himnaríkis!

2013-07-31 17.39.35

 

Þetta er klassik… hver hefur ekki ruglast? Ég ruglaðist oft í græðginni hér áður fyrr en varð ekki meint af!

One Response to “Æskuslóðirnar

  • Guðbjörg Valdórs
    11 ár ago

    Frábærar myndir og sögur eins og alltaf kæra frænka 😀
    knús úr borginni

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *