Að gera gagn

Þetta var mikið notað í minni sveit… „að gera gagn“, „gerðu e-ð gagn“, „alveg gagnlaus“ og svona fram eftir götunum. Var e-ð að rifja þetta „gagn“ upp í morgun.

Eftir að hafa farið með 8 ára frænda minn í svaðilför langleiðina upp á heiði, ákvað ég að gera e-ð gagn.

Veðrið hafði versnað, komin norðaustan bræla og stinningskaldi, auk súldar og um 5 stiga hiti.

Mér fannst mesta gagnið vera að skola af bílnum eftir Loðmundarfjarðarferðina í gær.

Ég var vopnuð með fötu, brennandi heitu vatni og enjoy hanska. Það dugir ekkert minna á Litla Rauð (trukkinn hennar mömmu). Ég vel að kalla hann Trukk þótt hann heiti hitt.

2013-08-02 16.02.15

Það sem er merkilegt við trukkinn hennar mömmu er að hann kemst allt. Yfir hyldjúpar ár, mýrar, urðir, fannir, hestaskít, drullupytti, tún, skafla og margt fleira. Þessvegna ákvað ég að skola af honum… hann á það skilið. Reyndar er ég ekki alveg sátt… mamma spurði mig á Borgarfirði hvort ég vildi keyra til Loðmundarfjarðar… mér leið pínu eins og ég væri aftur orðin 15-16 ára og þau væru með mig í sínum eigin æfingarakstri sem þau stunduðu óspart (þá þekktist ekki æfingarakstur nema í amerískum bíómyndum). Enda sagði Palli Biff ökukennari í fyrsta tímanum að hann hefði bara ekki upplifað annan eins bílstjóra… Allavega, þarna í Borgarfirðinum… mamma spurði og ég sagði feimnislega: „já“… hún spurði eingöngu því hún veit hversu hrikalega gaman ég hef af því að keyra á svona vegum.

Og ég settist hóvær undir stýri og spændi af stað… en þið ykkar sem þekkið mig, vitið að ég verð að stoppa og taka myndir…. í hvaða aðstæðum sem er. Og trukkurinn var ekki alveg að samþykkja það… hann drap bara á sér. Ég kvartaði varlega en fékk hátt og snjallt að vita að hann vill ekki að allir keyri sig. Hann drap aldrei á sér hjá mömmu á leiðinni heim!

Þarna fékk ég mitt bílategundaröfl heldur betur til baka í hausinn!

Ég skolaði Trukkinn með tandurhreinu íslensku vatni úr grænu slöngunni.

2013-08-02 16.32.06 Bleiki blómapotturinn er pelahitari… 38 ára gamall og það er að mörgu leyti honum að þakka að ég dafnaði eins og mælst var til.

Þótt við mamma séum með sitthvora skoðunina á bílum, ákvað ég samt að pússa Trukkamerkið extra vel.

2013-08-02 16.31.11

 

Þetta er alvöru!

2013-08-02 16.33.51

 

„Hver anskotinn, ertu búin að bleyta allt hlaðið stelpa..?!?“

Nei þessi setning kom ekki, heldur bara þakklæti… þreif nefnilega ekki bara einn heldur 2 trukka, og hver öðrum stærri.

Held að þau hafi verið dauðfegin því það var ekki hundi út sigandi í þetta veður í dag, og hvað þá til að þrífa bíla manuelt! Þetta kallast að gera gagn!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *