Hann elskar mig, hann elskar mig ekki…

Hver hefur ekki gert þetta…? hann elskar mig, hann elskar mig ekki, hann elskar mig, hann elskar mig ekki, hann elskar mig, hann elskar mig ekki, hann elskar mig, hann elskar mig ekki!!!

IMG_4757

Í fyrsta skipti sem ég man eftir að hafa gert þetta var á Eiðum og ég var í 10. bekk. Varð skyndilega  bálskotin í strák niður á firði sem ég vissi varla hver var og hann vissi ekki hver ég var. Þá voru tíkallasímar helstu samskiptamiðlarnir og þar að auki allt ófært. Ég notaði þessa aðferð til að vita örlög mín… sleit blóm af pottablómi skólans og hafði ekki vit á að telja blöðin áður en ég byrjaði… Þannig að þetta endaði á versta veg. Átti líklega aldrei séns. Ég breiddi silkislæðu yfir lampann í herberginu mínu til að rómantísera birtuna og hlustaði stanslaust á LOVE HURTS með Nazareth í örugglega 2 daga. Ég var ílla kvalin úr ástarsorg!

Það var ekki fyrr en ég fór að læra sjúkraliðann hérna í DK að ég lærði að telja blöðin áður en ég byrjaði að slíta… svo ég vissi hvernig ég ætti að byrja og myndi síðan enda; „ég get, ég get ekki, ég get, ég get ekki, ég get, ég get ekki, ég get, ég get ekki, ég get!!!!

Í fyrsta verknáminu mínu viðraði ég hugmyndina um að halda áfram í hjúkrunina* en snarbeygði síðan útaf og sagði að það væri líklega fáránleg hugmynd því ég gæti það ekkert. Leiðbeinandinn minn horfði á mig og sagði að ég gæti ekki neitt ef ég segðist ekki geta neitt. Þessi leiðbeinandi átti eftir að hafa mikil áhrif á mig. Og nota bene, hún var um 60tugt og eyddi sumarfríum sínum á motorhjóli suður í Evrópu. Mér fannst hún svöl í þokkabót.

*í DK getur maður tekið sum fög í sjúkraliðanum á hærra stigi sem veitir manni aðgang á kvóta 2 í mörg önnur nám (ef það er pláss).

Síðan fór ég í hjúkkuna og þurfti reglulega á blóminu að halda… passaði mig bara á að telja fyrst svo ég myndi enda á því rétta: „ég get!“

Þegar ég fékk þá flugu í höfuðið að sækja um í gjörgæslunáminu, þurfti ég virkilega á blóminu að halda. Ég sleit og sleit á mörgum stöðum í ferlinu og endaði alltaf á ég get. Enda gat ég! Auðvitað gat ég þetta… Og úr því varð vísa:

Ég get þetta eins og Jette.

ÉG get þetta eins og Jón.

Ég get þetta eins og Mette.

Ég get þetta eins og hvertannað flón. 

(Plís, ekki segja að þetta sé leirburður)

Þessa dagana hef ég líka þurft á blóminu að halda… einhvernvegin hellast verkefnin og tækifærin yfir mig þessa dagana en ég er svo mannleg að það hvarflar að mér; fuckfuckfuck, ég geteggi… En þá er að finna blóm, t.d. vetrarblómið Erantis, telja vandlega og enda með öryggi; fuck, ég get!


IMG_4759

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *