Það er komið að því -SvÆðaNudDiNu!

Þessi morgunn væri besti morgunn lífs míns þessa vikuna ef ekki lægi fyrir stíf dagsskrá, mis áhugaverð alveg til kl. 18.30 í kvöld. Og þetta er frídagurinn minn.

Það sem er svona gott við þennan morgunn er að þegar ég fór á fætur var bara örlítið farið að birta af degi og því mikil ró yfir öllu. Ég kveikti á kertum í gluggum á tveimur stöðum og sá þá mér til ómældrar ánægju að það moksnjóaði. Ég náttúrulega fékk mér morgunmatinn sem ég var búin að vera hugsa um síðan ég fór að sofa í gærkvöldi og var biðin löng skal ég segja ykkur. Ég fór upp í rúm rúmlega tíu, útkeyrð eftir annasama vakt á Gjörinu og hrakningarhlaupið sem ég sagði ykkur frá í gær og eins til að klára Náðarstund eftir Hannah Kent. Ég byrjaði semsagt að hugsa um morgunmatinn kl. tíu í gærkvöldi. Ef það hvarflar að ykkur að þetta hafi verið einhver hollustu og tormeltanlegur tískumorgunmatur, þá nei. Ekkert svoleiðis á mínum einkagæðamorgnum. Ég kveikti einnig á Rás 1. Það tilheyrir.

En það sem skyggir á þennan morgun er tími mínn hjá svæðanuddara. Í ágúst sagði ég ykkur frá því að ég hefði fengið þetta í gjöf og leist mér lítið á. Færslan sú er hérna og er ekki löng. Nú er komið að þessu. Ég pantaði tíma í fyrradag og minntist um leið vitneskju minnar um svæðanudd. Allt þetta með þarmana, þvagblöðruna og getnaðinn. Ég fór inn á heimasíðuna hjá konunni og þar skrifar hún m.a að eftir nuddið getur maður átt von á eftirtöldu:

  • Øget tarmfunktion, ændring af mavens funktion (kúka meira)
  • Øget udskillelse af urin, som kan lugte anderledes (pissa meira)
  • Udskillelse af sekret gennem næse og svælg (hor og slím í andliti)
  • En kortvarig opblussen af gamle og nuværende symptomer (allskonar gömul og ný einkenni blossa upp)
  • Større kontakt til ens følelser (heilmikil tengning til tilfinningana)

Ég er að fara upp í hjúkkuskóla seinna í dag og þarf að sitja kyrr í 4 kl.t. Getið rétt ímyndað ykkur hvernig ástandið á mér verður.

Ég hef reyndar hvorki borðað né drukkið síðan ég pantaði tímann. Fyrir utan eitt kálblað með ólífuolíu í gærkvöldi. Er því að verða hálfveikluleg og þessvegna engin mynd af mér á leið út úr dyrunum á vit örlagana.

Auk þess er ég enn smeik um að hún þrýsti of fast á hjartað í fætinum á mér. Ég athugaði í gær hvaða læknir væri á vakt í dag á læknabílnum og mér til allrar hamingju er það hin íturvaxna og borubratta Brunhild. Hún er þýsk og kallar ekkert ömmu sína. Ég samdi við hana um að vera til taks ef ég hringdi. Ég veit að hún á eftir að kýla í mig lífi með einu höggi ef svæðanuddarinn fer fram úr sér en það verður ekkert þægilegt. Líklega verður brjóstkassinn í molum og ég morfíndópuð á þorrablóti um helgina. En frekar það en að andast hjá svæðanuddara.

Væri fínt ef ég fengi að vera með í bænum ykkar í dag.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *