Vorið hellist yfir mig með tilheyrandi sól, gluggaþvotti og strandferð.

Það er svo mikið vor í mér að ég er að springa. Það er alltaf sama sagan, ég umbreytist með aukinni birtu. Óháð hitastigi.

Ég byrjaði helgarfríið mitt í morgun á að sofa yfir mig. Ekki að það að ég hafi átt að mæta neinsstaðar né að ég hafi stillt klukkuna. Á frídögum fer ég bara oftast á fætur á milli hálf átta og níu. Nema helgin á undan liggi enn þungt á mér á fimmtudegi. Ég þurfti auðgljóslega á þessum svefni að halda. Já, segjum það bara.

Ég fór á fætur og þar sem sólin skein svo vorlega inn um gluggana gat ég ekki stillt mig um að sveifla svampinum og sveipnum á öllum hæðum hússins. Gluggaþvottamaðurinn Daniel D. jr. eða Danni Gluggi mætti með bláu kynþokkafullu sólgleraugun sín og þrýsti six-packinum upp að rúðunni í svalahurðinni á meðan hann skóf janúar af gluggunum uppi á annarri hæð. Um leið borðaði ég kjúklingabringu þakta sveppum horfandi á sveittan six-packinn.

Ég hef oft minnst á Danna Glugga í blogginu áður, t.d. hér og hér.

Hann lítur ca. svona út. robert-downey-jr-wallpaper

Þegar Danni kemur og ég er heima, spyr hann alltaf hvort hann eigi að þvo gluggana að innan líka. Velti fyrir mér afhverju?

Þegar Fúsi kom heim um klukkan fjögur var ég lafmóð. Ég stakk upp á strandferð með mér og lillanum.

Eins einkennilegt og það nú er, þáði Fúsi það ekki.

Ég vel ströndina, Fúsi velur skóginn, þ.e.a.s. ef við þurfum að velja. Á sumrin þrengir skógurinn slíkt að mér að ég minni sjálfa mig á vakúmpakkaða lambalund. Á ströndinni fæ ég loft. Og útsýni langt á haf út.

Við Vaskur skelltum okkur sem sagt á ströndina í dag og var það í fyrsta skipti í nokkra mánuði. Skömm að segja frá því.

IMG_3956

IMG_3960

IMG_3995

IMG_4008

IMG_4015

IMG_4018

IMG_4028

 Bakkabræður: „bölvaður kötturinn étur allt -og hann bróður minn líka“ á vel við hann þarna. Sandur, gras, rekaviður, sjór… allt bragðaðist vel í dag. Og hamingjan leyndi sér ekki, útataður í bleikum varalit réði hann bókstaflega ekki við sig, heldur hoppaði og skoppaði eins og kvíga að vori sem bundin hefur verið á bás í 9 mánuði.

Þetta var góður dagur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *