uppleyst og sálfræðingslaus…

Mér hefur lengi langað til sálfræðings… finnst alltaf svo duló, þegar fólk segir: „já, sálfræðingurinn minn …“. Og pínu heillandi og svoldið í líkingu við Frímúrararegluna -maður ímyndar sér allt mögulegt en hefur ekki græna hugmynd um hvað fer fram á þessum hittingum. Ég hef alltaf séð fyrir mér bekk, hlýtt teppi og með pakka af kleenex á maganum. Svo situr sálfræðingurinn á móti manni og horfir á mann… síðan get ég ekki ímyndað mér meira, þarna hverfur myndin. (Sálfræðingurinn er alltaf karlmaður, en því miður í flauesbuxum)

Ég hef á tilfinningunni að næstum allir nema ég hafi farið til sálfræðings, en engin vill segja mér hvað gerðist. Bara endalausar tilvitnanir… ekkert krassandi :-/ En samt auglýsa flestir að þeir hafi sálfræðing… „sálfræðingurinn minn segir… blablabla“.

Í kvöld spurði ég á fb hvort einhver vissi um góðan sálfræðing sem væri ekki mjög dýr… fátt var um svör, þótt ég þyrði að veðja að minnst 70% fb vina minna ætti sinn eigin sálfræðing eða þekkti einhvern sem ætti sinn eigin sála. Afhverju er þá svona fátt um svör? ekki virðist það neitt feimnismál að eiga sinn eigin sálfræðing nú til dags

Í dag þegar ég var að fara heim úr vinnunni kl 16.57 til að ná foreldraviðtali, mætti mér úrhellis rigning. Ég hafði hringt í Fúsa og minnt hann á viðtalið og hann hafði spurt hvort hann ætti að sækja mig. Ég hélt nú ekki! Ég var á hjóli! En þar sem vinnuumhverfi dagsins var í gluggalausu rými, fattaði ég ekki neitt fyrr en ég kom út. Það ringdi eins og hellt væri úr fötu. Ég hafði ekki annarra kosta völ en að stíga upp á Kildemoes og hjóla í gegnum flóðið þessa 2.5km niður í skóla. Þegar þangað var komið, var ég svo blaut að það lak af mér, skórnir voru eins og ég hefði vaðið í pollum allan seinnipartinn og maskarinn var mestur á augabrúnunum. Mér leið mjög ílla. Síðan var komið rugl á röðina því einhverjir höfðu mætt of seint, svo það endaði með að þetta tók 1 kl.t. niður í skóla. Ég var frosin og algjörlega uppleyst á sál og líkama. Maður er nú ekki gerður úr neinni steinsteypu, svo að sjálfsögðu leysist maður upp í of miklu vatni. Þessvegna erum við ekki fiskar. En mér leið semsagt mjög ílla þegar ég kom heim, átti erfitt með að safna mér saman aftur og fór þessvegna að hugsa um að mér langaði til sálfræðings. En glætan spætan að ég, nískupúkinn og sjúklega sparsama týpan,  tími að eyða of mörgum aurum í svona hitting með teppi og kleenex. Þessvegna auglýsti ég eftir einum góðum billegum sála á fb. En fólk virðist vera frekar eigingjarnt á sálfræðingana sína og vill ekki deila þeim. Ég tek nú ekki alla hendina ef þið réttið mér litla puttann… ætlaði bara að prófa einn tíma svona að ganni. Kannski ég bíði bara eftir að einhver sálinn selji sig á hálfvirði á sweetdeal (hópkaup), þá gríp ég gæsina á meðan hún er heit.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *