Sigling til Ikkatteq

Fyrra kvöldið okkar í Tasiilaq fórum við í siglingu. Við keyptum 3ja tíma ferð hjá Arctic Wonderland Tours og lögðum af stað kl. 19.

2013-08-05 19.01.42

Ferðinni var heitið meðfram ströndinni, fyrir skagann og til Ikkatteq sem er yfirgefin byggð.

Fyrst skall á svarta þoka og sáum við rétt ísflekana í kringum bátinn. En síðan fór að birta til.

2013-08-05 19.19.42

Fjöllin voru há, falleg og ekki til grænn litur í þeim. Það var hafís útum allt og svona ca 5 sinnum meiri inní sjálfum firðinum hjá Tasiilaq heldur en á myndinni. Ferðasagan um ferðina til baka kemur neðar.

2013-08-05 19.31.11Og svo birtust þessir…

2013-08-05 19.31.49Ég hafði aldrei séð ísjaka áður og þetta var stórt skal ég segja ykkur. Og líklega vitiði öll að 1/10 af jakanum er ofansjávar.

2013-08-05 19.32.19

Þeir voru af öllum stærðum og gerðum… og ég réði ekkert við mig!

2013-08-05 20.16.46

Byggðin var að mestu yfirgefin síðast í 80, þá var ein fjölskylda eftir og fór hún 2009. Skólabækurnar voru dagsettar 1986-1988 (sem ég skoðaði) og lágu bara þarna í hrúgum eins og óþekkir krakkar hefðu yfirgefið skólastofuna. Og skólinn var ekki stærri en þetta. Ein lítil stofa.

2013-08-05 20.35.52

Kirkjugarðinn sem er bara undir húsveggjunum.  þarna var berjalyng en engin ber. Það voru heldur engir fuglar og engin landdýr… maður er því nokkuð mikið aleinn á þessum stað.

2013-08-05 20.40.34

Fyrir utan þetta hús liggur fatahrúga. Inní sumum húsunum eru húsgögn, leirtau og ýmislegt… eins og fólkið hafi brugðið sér af bæ. Ástæðan fyrir að byggðin var yfirgefin, var að það var ekkert að gera þarna. Hvort sem fólki líkaði eða ekki, flutti það til Tasiilaq og fékk aðstoð við að koma sér fyrir þar.

Það voru mismunandi útskýringar á hversvegna fólkið skyldi allt eftir í og fyrir utan húsin sín. Ein var að fólkið vonaðist til að koma aftur. Önnur var að það nennti ekki taka dótið með sér, þar sem það fékk nýtt í Tasiilaq og sú þriðja er að einhverjir nota húsin fyrir sumarhús.

2013-08-05 20.41.51

Það var varla þverfótað fyrir skóm, fötum og öðru rusli. Við húsið sem er fjær, standa 3 olíutunnur fullar af grjóti. Þær eru bundnar fast við þakið… svo að þakið fjúki ekki af. Olíutunnar eru líklega frá olíutunnukirkjugarðinum, en ameríkanar byggðu herflugvöll þarna í seinna stríðinu og skildu eftir fleiri þúsundir olíutunnur. Þær sjást ekki frá byggðinni og stoppið var stutt svo við sáum þær ekki.

2013-08-05 20.30.10Það er rosalega fallegt þarna og þar sem ég er ekki trjátýpan, þá elska ég svona hrjóstur og víðáttu.

2013-08-05 20.32.20

Það er sagt að það sé hátt til himins á Grænlandi… það finnst mér eiginlega ekki… mér finnst einangrunin svo mikil og möguleikarnir svo litlir að ég mér finnst það óþægilegt. Ef ég hefði verið skilin eftir ein í þessari litlu afskekktu, yfirgefnu byggð, hefði ég bilast á innan við 7 mínútum. Ég held ég hafi aldrei verið á svona spúkí stað áður.

2013-08-05 20.33.47

Þarna beið báturinn eftir okkur og því er kjörið tækifæri til að segja ykkur frá siglingunni til baka. Þegar við komum um borð var Glad skipstjóri (ungur grænlendingur) orðin glaðari. Enda þýðir Glad Glaður ef þetta er danskt nafn. Hann rétti Magga bjór og fékk sér einn sjálfur. Sagði að það væri bjór nr. 2. Þegar við vorum búin að sigla í ca 15 mín. var hann búin með 2 í viðbót og tómu dósirnar orðnar fleiri en 4! Þegar við vorum ca. hálfnuð, var hann orðin vel slompaður og augnlokin þung. En hann zikzakkið fínt á milli hafíssins. Ennþá. Bjórdósirnar tæmdust hraðar og Glaður brosti breiðar og fór að reyna við fararstjórann og kenna henni grænlensku. Síðar varð hann of fullur til þess. Þegar við vorum komin inn í sjálfan fjörðinn í átt að Tasiilaq, fór Glaður að fylgjast með símanum sínum… sms… net? Og þá voru komin þrenn babb í bátinn… alltof fullur, horfði meira á símann en sjóinn og hafísinn frekar þéttur. Mér fannst fínt að mamma sæti fyrir aftan Glað og varð hún því lítið vör við ástandið á honum. Ástandið á Magga var svipað og á Glað. Hann rakst ítrekað vægt utan í ísinn eða sveigði frá á allra síðustu stundu svo allt lauslegt í bátnum fór á fleigi ferð.

Og það er sama sagan og annars staðar á þessu svæði, ef maður er ekki INNÍ bænum, þá er maður einn. Það var engin önnur bátaumferð, ekki fugl, ekkert… björgunarvestin voru lítill blár kragi um hálsinn og veittu þau heilmikið öryggi… ég hefði algjörlega lifað af í jökulköldum sjónum í þessum útbúnaði.

2013-08-05 21.03.15

 

 

 

Þessi ferð var ólýsanlega skemmtileg, áhugaverð, draugaleg, falleg og ekki síst hættuleg!

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *