Síðsumarsskógartúr…

Við Vaskur fórum í skógartúr um daginn… það var orðið svakalega langt síðan síðast. Við höfum mest verið á götunni síðustu vikurnar. Hann Sigfús minn hefur séð um skóginn og sundið.

Vaskur er margskonar hundur… t.d. er hann fyrirsætuhundur. Hann elskar að láta taka myndir af sér!

2013-08-29 10.56.39

Og gerir sitt besta til að pósa. Hann veit að það getur verið töff að horfa ekki beint í myndavélina/símann.

2013-08-29 11.01.13

Síðan gerðum við æfingar… að bíða og hlýða kalli.

2013-08-29 11.06.13

„Vaskur, mynd!“ og hann stillir sér upp… með tunguna inni eða úti…

2013-08-29 11.08.38

Hann er algjör náttúruunnandi og nusar af flestum plöntum.

2013-08-29 11.17.32

Það er verið að grysja skóginn þessa dagana og þessvegna nokkuð um stórar vélar á ferðinni. Það kom hreinlega tippalykt af hvolpinum þegar hann sá svona stóra græju og setti sig strax í svölu töffarastellinguna. Það er semsagt alveg það sama með allt karlkyns…?

Og jú, ég skrifa tippi með i-e. Y í typpi vísar til orðsins toppur, samanber t.d. Upptyppingar. Miðað við landfræðilega stöðu umræddrar græju, þá myndi ég halda að tippi væri réttara.

2013-08-29 11.25.28

Ég gagnrýndi ruslið á Grænlandi í einhverri færslunni minni… hér sjáið þið ruslið í DK, og það var mikið meira. Reyndar er ég búin að fara á þessa einkaströnd mína síðan ég tók myndina og ruslið er farið.

2013-08-29 11.25.51

Á einkaströndinni minni er Mirabelletré, og já, maður getur borðað sig saddan. Og nei, ég uppljóstra ekki hvar þessi strönd sé.

2013-08-29 11.44.44

„Vaskur, mynd!“ Hann elskar ströndina…

Við erum sammála því að taka haustinu fagnandi. Sérstaklega í skóginum því það verður allt svo mikið fallegra og opnara. Færri pöddur og meira pláss. Finnst skógurinn eiginlega langskemmtilegastur á veturnar þegar það er frost og snjór og maður getur farið útum allt, án þess að eiga á hættu að rekast á snáka, mauka skógarsnigla undir skónum eða koma heim þakin tics (held það heitir skógarmítill á íslensku). Skógurinn stækkar líka svo mikið þegar hann opnast og möguleikarnir aukast um 90%. Við Vaskur erum vetrarskógartýpur.

Annars venst maður þessu lífríki ótrúlega vel… sérstaklega eftir að Vaskur kom til sögunnar. Maður verður meðvitaðri um umhverfið og að það er í rauninni ekkert sem getur drepið mann í dönskum skógi. Um daginn sáum við sprelllifandi snák á stígnum og ég hljóp ekki heim. Þegar ég fékk í fyrsta skipti skógarmítlu á mig (í hnésbótina) hélt ég í alvöru að löppin væri að detta af og ég fékk þessa gífurlegu verki og undarlegheit í kringum hnéð. Ég hjólaði í bókstaflegu panikki upp á sjúkrahús og stundi upp úr mér að ég þarfnaðist augnablikshjálpar… Síðan eru liðin mörg ár.

Þetta er eins og með hárlúsina… Ef ég man rétt, þá fékk ég tár í augun í fyrsta skipti sem það uppgötvaðist lús í stelpunum. Ég þvoði allt, rúmföt, gardínur, föt, utan af sófanum… allt! Og allir bangsar og allt taudót var sett í ruslapoka og sent í ferðalag til Pokalands (sem var ekkert ólíkt Legolandi) í minnst 100kl.t. Þessi móðursýki rann síðan af mér í hversdagsleikanum í DK.

Semsagt, þótt það sé yndislegt að geta farið út án þess að fara í fleiri föt, eða í mesta lagi bara pæjujakka, þá er næsta árstíð meira en velkomin…

2013-07-26 13.13.34

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *