Aðfangadagurinn

Í fyrrakvöld horfðum við á Christmas vacation og hvernig Griswold heimilisföðurnum mistekst nánast öll ætlunarverk sín til að skapa hin fullkomnu jól. Mér leiðist þessi mynd óskaplega og ég sár finn til með honum. Kannski því ég skil hann svo vel.

Ég hef líka mínar hugmyndir um hin fullkomnu jól… líklega svipuð og ég upplifði í æsku. Það var rosalega jólalegt að horfa á og aðstoða mömmu þrífa loftin í gamla húsinu okkar. Og að hafa hana standandi í eldhúsinu öll kvöld, bakandi 17 sortir. Og skreytandi ALLT húsið að innan með sama jólaskrautinu ár eftir ár. Inní því voru músastigar úr kreppappír sem við höfðum búið til. Á jólunum í gamla daga var allt ótrúlega hreint, hátíðlegt og hljóðlegt. Við vorum öll uppdubbuð í okkar fínasta púss í sveitinni í myrkrinu.

Ég reyndar hef aldrei tekið upp hreingerningarvenjur móður minnar… líklega því ég er mikið latari en hún. Ég hef heldur aldrei bakað 17 sortir… en það hafa örugglega 17 sortir mistekist hjá mér!

Þessi jól byrjuðu næstum nákvæmlega eins og hjá Griswold fjölskyldunni, við keyptum ALLTOF stórt tré.

Ég gleymdi að taka út hangikjötið í gær… (er vön að sjóða það í dag).

Öndin er samt ánægð í ofninum með appelsínu í rassinum.

2013-12-24 14.40.51

Ég skellti í brúna Randalínu seint í gærkvöldi… mjög skyndileg ákvörðun því mig langaði skyndilega í. Ég fór nákvæmlega eftir uppskrift því ég hef aldrei bakað svona Línu áður. Í dag smakkaði ég hana og hún er bragðlaus og það er alltof lítið krem… Hún er líka ójöfn og skökk á köflum.

Jólasveinaklukkan okkar sem er að verða tvítug er vön að spila falskt um og eftir þrettándann en í dag spilaði hún Heims um ból svipað og ég myndi syngja það…

2013-12-24 14.03.49

Aldís tók að sér að skralla kartöflunar… með miklu glöðu geði.

2013-12-24 15.07.53

Henni finnst Rás1 einum of leiðinlegt… en það er orðin frekar fastur liður hjá mér að hlusta á Rás1 í dag og dagana á undan. Finnst það svo róandi og hátíðlegt. Rás1 kemur mér í endanlegt jólaskap.

Í forrétt ætla ég að hafa fiskmeti. Ég er skuggalega góð í að borða flest úr sjónum en hæfileikarnir til að gera að sjávardýrum eru af skornum skammti. Ég er svoddan landkrabbi og það er ekki nóg að eiga rætur sínar að rekja til Loðmundarfjarðar, vera fædd á Seyðisfirði og elska Borgarfjörð eystri… Ég ætti að láta aðra um sjávardýraaðgerðirnar! Ég vona samt að bragðist bregðist ekki.

Við Vaskur fórum í göngutúr í skóginn í dag, svona til að kanna hversu jólalegt væri þar um að litast. Veðrið var: „hvasst, örlítil rigning og 10 stiga hiti“. Það brakaði og brast í trjánum og stundum það mikið að Vaskur faldi sig á bakvið mig.

Annars vorum við bara spræk, fórum á staðina okkar, þar sem aldrei eru neinir aðrir og getur Vaskur fengið að vera frjáls í sínum galsa.

 

2013-12-24 11.46.41

Hann hefur aldrei neitt á móti því að stilla sér upp á afsagað tré og láta mynda sig.

Ekki voru nú jólin í skóginum… En samt fallegt á sinn háttinn.

2013-12-24 11.52.06

Þessi dökku börð eru tré sem hafa rifnað upp með rótum í síðastliðnum stormum.

Á Rás1 í dag var verið að segja frá erlendu jólahaldi og t.d. í Argentínu er ekki lagt eins mikið upp úr tiltekt og hjá okkur… jólin þar koma samt. Hjá okkur er sjaldan eins fínt og akkúrat 5 mín fyrir jól.

Svala er með eindæmum sein með jólagjafirnar (hvaðan í ósköpunum hefur krakkinn það???) og réðist í stærðarinnar gjafaverkefni kl 15 í dag. Faðirinn þurfti að fara í vinnuna og redda hluta af verkefninu og Svala hófst handa kl 16. Kl. 17.47 hljóp hún útí bíl þar sem Aldís beið, til að skutla henni og pakkanum í næsta hús. Mynd af verkinu kemur kannski inn seinna… í kommentunum á fb.

Hérna í DK borðum við alltaf kl 19 á jólunum því þá hringir Rás1 jólin inn. Þetta verður allt að smella… alveg eins og í sveitinni í gamla daga.

Kæru vinir og fjölskylda, kæru lesendur -mínar allra bestu óskir um gleðilega hátíð og megi ást og friður umlykja ykkur eins og hlýtt ullarteppi. Hugsum fallega í allar áttir og elskum hvort annað.

Njótið kvöldsins.

httpv://youtu.be/bjQzJAKxTrE

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *