Matarblogg

Mér finnst matarbloggin fá svo mikla athygli í netheiminum að ég ákvað líka að gera alvöru matarfærslu. Ég ætlaði að bjóða ykkur upp á „Blæsmapasta“.

Ég byrjaði á að skera sveppi og setja þá og hellingssmjör á pönnuna… og tók mynd.

2014-01-29 18.32.02

Ég nota smjör því ég elska smjör. Smjör gerir allan mat yndislegan – dásamlegan – unaðslegan… svipað og maður væri staddur í michelin eldhúsinu í  himnaríki. Sveppir aðskilja sál og líkama, svo að neytandinn kemst uppfyrir hamingjuna og inní alsæluna! Ég gæti ekki lifað án smjörs og sveppa. Eiginmaðurinn kom aftan að mér, tók utan um mig og sagði: „mikið ofboðslega, gríðarlega er þetta girnilegt ástin mín“.

Síðan skar ég papriku.

2014-01-29 18.37.19

Paprika er gæðavitamín fyrir augað… þvílík fegurð… þvílíkt augnakonfekt. Dætur mínar litu á skurðarbrettið, gripu andann á lofti af hrifningu og sögðu í kór: „mamma, þú ert besta mamma í heimi“. Ég fell venjulega í stafi yfir þessari paprikulitadýrð. Og það gerðist áðan. Eða féll ekki beint í stafi heldur gleymdi mér í símanum rétt eftir að ég tók myndina… pastað sauð uppúr og sveppirnir brunnu við. Setti síðan restina af þessu skorna útí og bjó til sósu sem brann líka við. Brauðið var svo bara hálfbakað þegar því var skellt á borðið. Varð pist og pirruð og gaf alla frekari myndatöku upp á bátinn. Þær systur fóru að rífast, Fúsi skammaði Svölu og ég skammaði Aldísi. Við hjónin fórum síðan í fílu útí hvort annað yfir því að hafa skammað sitthvora stelpuna og fyrir að vera ekki samtaka í uppeldinu.

Hvernig fara matarbloggarar að því að taka svona flottar myndir? Og vera svona jákvæðir? Og svona hamingjusamir? Og eiga svona fullkomna eiginmenn og enn fullkomnari börn??? Ég reyni aldrei aftur við matarblogg!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *