Gamli gaur vs. ég

Við gamli gaur áttum 21árs kærustuafmæli um daginn en munum hvorugt daginn. Enda er sjálfur dagurinn smáatriði. Oft spái ég í hvernig 2 eins ólíkir einstaklingar geta enst svona lengi saman án þess að kála neinum nema stofublómunum.

Ef við tökum nokkur dæmi til að skýra dæmið betur:

  • Heimilisverk:

Sigfúsi finnst allt í lagi að þvo borðtusku með fína kjólnum mínum…. á 30!

Ég þvæ EKKERT með borðtuskum enda með borðtuskufóbíu.

Talandi um borðtuskur þá vill sá gamli aðeins nota ódýrar, hræðilega ljótar og óþægilegar tuskur í ungbarnalitum. Ég vil aðeins merkjatuskur og liti í stíl við aðra innanstokksmuni.

IMG_5269

Tuskurnar eru eilíft þrætuefni.

  • Félagslega erum við ólík.

Við erum bæði meðlimir í mörgum klúbbum.

Ég er meðlimur í:

  1. Hlaupaklúbb (16 meðlimir)
  2. Menningarklúbb (6 meðlimir)
  3. Prjónaklúbb (6 meðlimir)
  4. Bullklúbb (3 meðlimir)
  5. Matarklúbb (7 meðlimir)
  6. Ljósmyndaklúbb (10 meðlimir)
  7. Boxklíkuklúbb (12 meðlimir)

Meðalmeðlimafjöldi: 9,6

Fúsi er meðlimur í:

  1. Microstationklúbb (1 meðlimur)
  2. Bymyselfklúbb (1 meðlimur)
  3. Matarklúbb (7 meðlimir)
  4. Menningarklúbb (6 meðlimir)
  5. Squachklúbb (2 meðlimir) (klúbburinn er óvirkur vegna ævagamalla meiðsla)
  6. Science fictionsklúbb (1 meðlimur).
  7. Star warsklúbb (1 meðlimur)
  8. Fiskurídósklúbb (1 meðlimur)

Meðalmeðlimafjöldi = 1,8

Áhugamálin okkar eru líka mjög ólík:

Sigfús hefur mikinn áhuga næstum öllu sem við kemur tölvum og þar á meðal allskyns óáhugaverðum tölvuprógrömmum og skrítnum hlutum sem ég skil ekkert í.

Ég hef eingöngu áhuga á Facebook.

  • Tónlistin er oft ástæða til slagsmála

Ég er með ótrúlega góðan tónlistarsmekk.

Aftur á móti vill gamli gaur helst bara ABBA, Eilert Pilarm og deathmetal. Ég fæ útbrot af þessu þrennu.

  • Matargerðin. Fúsi er ótrúlega lagin við að elda eftir uppskriftum. Ekki ég. Ég get aftur á móti eldað án uppskriftar… ekki hann.

IMG_5263

Þarna er ég að sóla mjólkurhvítu vetrarhúðina mína í 16 stiga hitanum í dag með restina af heimalöguðu sushiunu frá í gær. Svo lengi sem ég lifi, dettur mér ekki í hug að taka mynd af matnum hans Fúsa sem hann eldar án uppskriftar.

Ég hef alltaf verið sú sem gerir vitleysurnar í okkar sambandi. Ég hef sagt vitleysur, hagað mér vitleysislega, verið fljótfær og hvatvís.

Fúsi er sá sem gerir flest rétt, segir enga vitleysu og ekkert er hægt að finna á. Nema….

Um helgina fór að hann að flikka upp á útidyrahurðina með málningu og fleiru.

Ég kíkti og sá þetta…

IMG_5206

Ég spurði hvað hann í ósköpunum væri búin að gera??? Hann hló og sagðist panta nýja rúðu í kvöld og að hún yrði bara komin á þriðjudaginn.

Síðan fór hann að panta rúðuna…. og þá kemur rúðan í fyrsta lagi eftir 6 vikur!

IMG_5201

Mikið óskapans skrambans líður mér feikilega vel. Þarna var hann frekar fljótfær… LOKSINS.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *