að bera sig…

Þessa vikuna voru nemarnir mínir í prófi í verknáminu sem er svo sem ekki frásögum færandi nema vegna þess að prófdómarinn frá skólanum sem kom í munnlega hlutann, var einn aðal leiðbeinandi minn í nokkrum ritgerðum þegar ég var sjálf í skólanum. Í gær og í dag sátum við Palle síðan saman í liði og spurðum og dæmdum eins og okkur væri borgað fyrir það (fáum reyndar borgað fyrir það). Frekar svalt það og ég fékk gífurlega fullorðinstilfinningu. Allt gekk eins og í sögu og nemunum var óskað til hamingju. Mér var líka! „Hey, til hamingju með nemana þína“. Nemana mína? Ég fór þá að hugsa aðeins dýpra útí hversu mikið þeir verða mínir á aðeins 10 vikum. Þetta eru 10 stífar vikur þar sem þau bera sig oft að miklu leyti fyrir mér, nema fara ekki úr fötunum. Það er hlátur og grátur, heimska, gleymska og viska, endalausar spurningar, dyntir, og mælingar hverja einustu vakt. Aldrei slakað á. Maður kynnist nemunum á frekar spes hátt. Mjög vel en samt ekki. Og eftir þessar 10 vikur eru þau án nokkurs vafa orðnir nemarnir mínir og þá er tími til að kveðja og fá nýja nema.

19747352-vector-cartoon-of-mother-teaching-children-to-read

En talandi um að bera sig! Það er oft líf og fjör á gjörgæslunni skal ég segja ykkur. Vinnufélagan mín hún Sigga (skáldað nafn) lennti í því um daginn að bera sig inn að beini fyrir einum lækninum eftir að hafa fengið kalda lungnabólgu. Hún fór nefnilega í röntgeneftirlit í síðustu viku vegna einhverra verkja. Hún náði ekki í heimilislækninn á föstudaginn til að fá svar og ákvað því að nýta sér aðstæðurnar á næturvaktinni um helgina og bað Pólska svæfingarlækninn Piotr um að kíkja á myndina. Við á gjörgæslunni erum vön að skoða röntgenmyndir af liggjandi fólki og ekkert nema lungun sjást, svo Sigga var alveg ófeimin við að sína karlmanni lungun í sér. Pólski Piotr er með fallegustu sálina af öllum svæfingarlæknunum og hugsar bara fallegar hugsanir og á sér einskins ílls von. Sigga gaf honum kennitöluna sína og um leið og Pólski Piotr fær myndina á skjáinn fær hann einnig brjóstin hennar beint í augun. Það verður að segjast að Sigga er með svona brjóst sem við hinar gæfum báða handleggi og höfuð fyrir (þeas ef við gætum án þessara hluta verið) og þau verða adrei tepokar, ekki heldur ef Sigga nær níræðisaldri. Allavega, á þessari annars fínu lungnamynd voru búbbísurnar svona afskaplega skýrar með þessum fínu útlínum og geirvörtunum á sínum stað.

Sigga sér að Pólski Piotr verður vandræðalegur og ekki bætir það úr skák að Gunna kemur labbandi framhjá og segir: „Vá, þetta eru engir smá kassar… eru þetta þín Sigga?“

Pólski Piotr lætur sig síga neðar niður í stólnum og rann síðan næstum niður á gólf þegar Gunna galaði yfir til Önnu og sagði henni að fara og kíkja á brjóstin hennar Siggu… þau væru hjá Pólska Piotr.

Sigga reyndi að klóra í bakkann og redda Piotr útúr þessum vandræðalegu aðstæðum og fór því að segja honum að hún hefði verið með örveruna mycoplasma. Piotr lifnaði allur við því honum finnst örverur þægilegri en hjúkkubúbbísur. Svona getur maður lennt í að bera sig inn að beini í vinnunni!

L05-10-Med-13-01

(Þetta eru ekki búbbísúrnar hennar Siggu, þessi eru á of mikilli suðurleið)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *