Doksarnir á gjörinu

Enn eitt bloggið um vinnuna, veit það. En svona er þetta þegar maður vinnur fulla vinnu og allt sem gerist, gerist í vinnunni. Heima er bara doði og bílþvottur. Já alveg rétt, við hjónin  vorum fyrir utan verslunarkjarna í gær og ég bað Fúsa um að hlaupa inn í bílavörubúð og kaupa slípirokk… til að bóna bílinn! IMG_8878 (Þessa mynd tók ég frá sjúkrahúsinu en hún sýnir háskólann, Dybböl, Dybböl myllu og Jótland)

En úr vinnunni. Þegar ég var að hjóla heim í fyrradag, keyrir elsti læknirinn okkar, sem er um 70tugt, framúr mér á BMW Z4 (opin sportsbíll). Svarta hárið hennar feyktist aftur og dökkbleiki varaliturinn passaði fullkomnlega við dökkgrátt lakkið á bílnum. Ég hef alltaf dáðst að þessari konu en maður lifandi. Þetta grunaði mig ekki… Að hún, sem er 20 kg léttari en ég og svo róleg, skuli elska að sitja á rúmlega 250 hestöflum.

Í gær hitti ég hana og varð bara að ræða þetta! Við settumst hlið við hlið, við sitthvora tölvuna og skoðuðum bíla og ræddum hestöfl og liti. Hún sagði: „människan lever bara en gång (maður lifir bara einu sinni)“. Og spurði hvort ég væri mikil bílaáhugamanneskja. Ég játti því og sagði að mínar áherslur væru stærð dekkja, hestöfl og litir. Googlaði síðan stóra breytta jeppa í snjó og ám á Íslandi og sýndi henni. Henni leist ekkert á blikuna og spurði hvað í ósköpunum ég ætlaði að gera við svona tryllitæki í Sönderborg. Ég róaði hana og sagðist bara langa í.

Seinna, í hádeginu þegar við sátum og borðuðum, leit hún hlægjandi á mig og sagði á sænsku: „jeg kan inta trúr at en sú liten som du, vil have en só stúra bíla…“ (eg trúi ekki að ein svona lítil eins og þú viljir eiga svona stóra bíla).

Þá gat ég nú ekki stillt mig og sagði henni frá þegar ég reykspólaði upp Mýnesásinn á rauða vörubílnum hans pabba, Scania 140 (frambyggðum), aðeins 14 ára gömul. Rak hann svo í 3ja og ók eins og fjandinn væri á hælunum á mér, niður ásinn hinumeginn, meðfram réttinni og upp löngu brekkuna. Snarstoppaði þar, leit aftur fyrir mig og dáðist stolt að rykmekkinum sem var eins og skýjarönd eftir öllum veginum frá brekku og niður á ás. Keyrði síðan heim og tók snögga handbremsubeygju í hlaðinu á Tókastöðum og lagði honum við Gamla bæinn. Þá var ég örugglega ekki meira en 40 kg.

Í morgun mætti ég í vinnuna, niðurdregin og sorgmædd. Ég hafði klárað bók í gærkvöldi og fór að hágráta þegar eiginmaðurinn dó við hliðina á bátnum sínum í fallegri snjókomunni. Ég grét síðan meira þegar aðalpersónan gekk í sjóinn 15 árum seinna, þá að verða 100 ára. Þetta var of mikið. Fúsi sagði að ég væri ekki með öllum mjalla. Ég sagði honum að þetta hefði ekkert með mjalla að gera, heldur væru tilfinningar að bera mig ofurliði (ég þurfti að snýta mér og allt). Ég reyndi, á milli ekkasoganna, að útskýra fyrir honum að það væri eðlilegt fyrir okkur stelpurnar að tengjast persónum bókanna tilfinningaböndum og þessvegna væri síðasta blaðsíðan kvöl. Hann bað mig um að halda ekki fyrir sér vöku.

Í morgun stóð ég semsagt döpur inn í lyfjaherbergi, blandaði hinar og þessar blöndur án þess að mæla orð af vörum. Vinnufélagarnir spurðu varfærnislega hvað væri að og horfðu skilningsvana á mig þegar ég stundi upp að Sigmar hefði dáið, í annað skiptið en nú væri það ekta. Áður en þær náðu að spyrja næstu spurningar kom Pólski læknirinn (uppáhaldið mitt sem hefur áður komið fyrir í blogginu) og færði mér kassa… IMG_8883   Ég spurði hvort hann væri ekki að grínast? Nei, einn handa deildinni og einn handa þér! Jesús Pétur, sagði ég. Elsku Pólskí, gerirðu þér grein fyrir að þetta eru 56stk? IMG_8881   Já, hann sagðist alveg vita það, en ég gæti nú gefið familíunni með mér…! Ég gaf honum hið fastasta faðmlag síðan ég kvaddi Aldísi á Íslandi og sagði honum að hann væri uppáhalds Póllakkinn minn. Og Póllakkar væru uppáhalds þjóðernið mitt fyrir utan Íslendinga. Við urðum jafnglöð held ég, ég með Prince Pólóið og hann með að vera uppáhald mitt ásamt þjóðinni. Ég sagði honum að ég myndi fitna af þessu, en hann sannfærði mig um að það yrði seinna… í fyrsta lagi á morgun. IMG_8890Ég tók hann trúarlegan og fékk mér seinniparts lúr með Prins Pólóunum í hengirólunni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *